Helgarsprokið 16. september 2007

259. tbl. 11. árg.

Þ að segir sig sjálft að ekki er hægt að reiða sig á reynslu þegar menn reyna eitthvað nýtt, þegar við lítum tilbaka að þá virtist margt að því sem fleytt hefur atvinnulífinu hér á landi áfram hrein firra á sínum tíma. Þeir sem voru í fararbroddi urðu að hafa sannfæringu og vera óhræddir að framfylgja henni. Það kemur líkast til engum á óvart að ekkert af þessari svokölluðu útrás var niðurstaða úr nefnd á vegum hins opinbera.

En hvað skyldi mönnum ganga til þegar þeir reyna margreyndar brellur og reynslan bendir eindregið til að þær virki ekki. Þegar sýslað er með fé er nokkuð ljóst að slíkir menn geta ekki brasað með eigin fjármuni. Ríkisstjórnin hefur nú boðað meiriháttar stefnubreytingu og snúið aftur til þeirrar pólitíkur sem oft var kennd við Stefán Valgeirsson, það er fyrirgreiðslupólitík til útvalinna fyrirtækja á landsbyggðinni sem rekin eru með tapi

„Athafnamaðurinn er í fyrsta lagi líklegri til að vanda betur til verka en sá sem er aðeins í vinnu hjá öðrum. Þar að auki er hann líklegri til að taka áættu en embættismenn, þar sem frumkvöðullinn á tilkall til ábata starfa sinna á meðan embættismönnum er líkast til meira umhugað um að lágmarka áhættu í starfi sínu. Þess vegna er líkast til mun meira til af vönduðum skýrslum og úttektum hjá Byggðastofnun en dæmigerðu útrásarfyrirtæki. Sstofnanir eru betri í að réttlæta tilvist sína en að ná árangri. “

Nú er svo sem gott að minnast að snúið var af braut þessarar pólitíkur vegna þess að hún skilaði engum efnahagslegum ávinningi og ýtti undir spillingu og pólitískan klíkuskap. Því miður má óttast að það sé fremur aðdráttarafl þessarar pólitíkur en ógn í augum þeirra stjórnmálamanna sem hæst berja sér á brjóst þessa dagana og boða mótvægisaðgerðir.

Þannig brást Össur Skarphéðinsson ókvæða við gagnrýni LÍÚ á aðgerðirnar. Kommisarnum var ekkert um slíkt lýðræði gefið að atvinnulífið – sem í huga mótvægismanna á að vera þiggjendur – þættist geta gagnrýnt sjálfa stjórnmálamennina (sem rétta fram björgina í steyttum hnefa). Af alkunnri smekkvísi sinni skaut Össur því að í viðtalinu að hluti af áætlunarbúskap stjórnvalda væri að styrkja Byggðastofnun um 1.200 milljónir króna, en þær væru ætlaðar smáum útgerðum en ekki stórum!

Eins og öllum er kunnugt hefur Samfylkingin boðað samræðustjórnmál undanfarin ár. Það væri fróðlegt að vita upp úr samræðu hverra hugmyndin kom að fara veita smáum útgerðum fé til höfuðs þeim stærri? Var það ef til vill í sömu samræðum og komist var að því að nauðsyn væri að skipta út stjórn Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, sem skipuð var fólki úr atvinnulífinu, og skipa í þeirra stað flokksjálka úr Samfylkingunni?

Ástæðan fyrir að aðgerðir eins og þessar svo kölluðu mótvægisaðgerðir munu ekki skila tilætluðum árangri er að embættismenn Össurar búa ekki yfir nægri þekkingu til að stýra fjármunum í þá farvegi þar sem þeir nýtast best. Þess vegna hafa flest lönd heimsins í auknum mæli leyft fólkinu sjálfu að stýra fjárfestingu á markaði. Þannig er það fólkið sem sér tækifærin í störfum sínum, þekkingin er næst því. Það verður að vísu að viðurkennast að ástæða mótvægisaðgerðanna er að fólkið sem stendur næst verkefnunum telur sig einmitt ekki getað fjármagnað starfsemina. Þannig að líkast gera stuðningsmenn þeirra sér engar grillur um að þær skili neinum árangri – þeir ættu líka að þekkja sögu Byggðastofnunar.

Önnur ástæða fyrir því að betra er að fólk sjái sjálft um fjárfestingar en að láta ríkið um þær er að hvatar þeirra sem fara með eigin fjármuni eru öðruvísi en þeirra sem ráðast í vinnu hjá mönnum eins og Össuri. Athafnamaðurinn er í fyrsta lagi líklegri til að vanda betur til verka en sá sem er aðeins í vinnu hjá öðrum. Þar að auki er hann líklegri til að taka áættu en embættismenn, þar sem frumkvöðullinn á tilkall til ábata starfa sinna á meðan embættismönnum er líkast til meira umhugað um að lágmarka áhættu í starfi sínu. Þess vegna er líkast til mun meira til af vönduðum skýrslum og úttektum hjá Byggðastofnun en dæmigerðu útrásarfyrirtæki. Stofnanir eru betri í að réttlæta tilvist sína en að ná árangri.

Þriðja ástæðan fyrir því að ekki er gott láta ríkið stýra fjárfestingu, er að ríkið á vitanlega enga peninga heldur þarf með einu eða öðru móti að taka þá af þegnum sínum. Hver króna sem ríkið ver er króna sem þegn ver ekki með þeim hætti sem honum hugnast best. Tilfærsla á fjármunum frá einstaklingum til ríkis er einnig tilfærsla á valdi. Ef fjármunum er ekki úthlutað eftir verði, eftir hverju skyldi þeim þá úthlutað?

Það er ekki síður dapurlegt að horfa upp á hvernig borgarstjórn Reykjavíkur hegðar sér við stjórn Orkuveitu Reykjavíkur en að verða vitni að því að ríkið taki upp þessar svokölluðu mótvægisaðgerðir. Það sem undarlegast af öllu er að þessar aðgerðir eru margreyndar og hafa alltaf mistekist ef miðað er við efnahagslegan árangur þeirra – hins vegar hafa þær alltaf tekist ef markmiðið er að færa stjórnmálamönnum aukin völd.