Fimmtudagur 13. september 2007

256. tbl. 11. árg.

Þ að var matur í viðtali Egils Helgasonar við rithöfundinn og baráttujaxlinn Ayaan Hirsi Ali, í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi. Þessi til þess að gera unga kona á að baki meiri lífsreynslu og átök en hún ber með sér við fyrstu sýn, og nýútkomin ævisaga hennar gleymist lesara sínum ekki svo auðveldlega. Nú hefur bókaforlagið Veröld látið þýða sögu hennar á íslensku og er það fagnaðarefni.

Ayaan Hirsi Ali hefur farið langa leið um dagana, fædd í Sómalíu, bjó í Saudi-Arabíu, Eþíópíu og Kenýa, sat á hollenska þinginu og er nú flutt til Bandaríkjanna og nýtur strangrar lögregluverndar dag og nótt ef það mætti verða til þess að róttækum og reiðum múslimum tækist ekki að vega hana; til dæmis með sama hátíðleikanum og þegar einn úr þeirra hópi myrti samverkamann hennar, kvikmyndagerðarmanninn Theo van Gogh, en sá hafði unnið sér það til lífláts að gera stutta kvikmynd eftir handriti hennar um kúgun kvenna undir islam.

Þetta málefni, baráttan gegn kúgun kvenna, hefur orðið að lífsbaráttumáli hennar, nær óslitið frá því hún flúði til Hollands árið 1992, þegar hún hafði staðið frammi fyrir þeirri skipun að giftast frænda sínum sem hún þekkti ekki. Hún lærði hollensku og tók að vinna sem túlkur, ósjaldan í þágu kvenna. Hún fór að starfa með Verkamannaflokknum en eftir því sem tíminn leið fannst henni hún ekki eiga þar lengur heima og færði sig yfir til hins hægrisinnaða Frjálslynda flokks. „Jafnaðarstefnan byggir á réttindum hópa fólks, ekki einstaklinga. Frjálslyndi flokkurinn var kannski ekki jafn krúttlegur og Verkamannaflokkurinn en heimspeki hans byggði á gildum einstaklingsfrelsis. Mér fundust hugmyndir mínar eiga vel heima þar“ segir hún í ævisögu sinni. Eitt af því sem Ayaan Hirsi Ali náði að draga fram í dagsljósið í Hollandi eru svokölluð sæmdarmorð:

Þegar ég vann fyrir hugmyndasmiðju Verkamannaflokksins og reyndi að ræða þessi málefni var sífellt verið að núa mér því um nasir að ég hefði engar staðreyndir rökum mínum til stuðnings. En beinharðar staðreyndir lágu ekki á lausu. Ég reyndi að afla mér upplýsinga um sæmdarmorð, svo dæmi sé tekið; það er að segja hve margar stúlkur voru myrtar í Hollandi af feðrum sínum og bræðrum í nafni hins dýrmæta heiðurs fjölskyldunnar. Embættismenn í dómsmálaráðuneytinu sögðu mér: „Við flokkum ekki morð eftir tilefninu. Við viljum ekki brennimerkja tiltekinn hóp í samfélaginu.“ Hollensk stjórnvöld skráðu fjölda drápa sem tengdust eiturlyfjum á hverju ári og fjölda látinna í umferðarslysum en ekki fjölda sæmdarmorða því enginn hollenskur embættismaður vildi viðurkenna að slík morð væru framin með reglubundnu millibili. Ekki einu sinni Amnesty International hélt tölur yfir hve mörg fórnarlömb sæmdarmorða væru. Samtökin gátu sagt þér upp á hár hve margir menn væru fangelsaðir og pyntaðir. Þau hirtu hins vegar ekki um hve margar konur væru hýddar opinberlega fyrir að drýgja hór eða teknar af lífi fyrir framhjáhald. Það var ekki þeirra mál. Ég ákvað að ef ég ætti að verða þingmaður á hollenska þinginu væri það heilög skylda mín að sjá til þess að þessar tölur yrðu teknar saman. Ég vildi að einhver, einhvers staðar, færði til bókar hvert skipti sem maður í Hollandi myrti stúlkubarnið sitt af því hún ætti kærasta. Ég vildi að einhver skrásetti heimilisofbeldi, kynferðislega misnotkun og sifjaspell eftir uppruna gerandans. Ég vildi að kafað yrði til botns í því hve margar litlar stúlkur væru sviptar kynfærum sínum með eggvopnum á hollenskum eldhúsborðum. Þegar þessar tölur lægju fyrir, myndu staðreyndirnar einar sér hreyfa við landsmönnum. Í einu vetfangi yrði andvaraleysi siðferðislegra afstæðishyggjumanna feykt til hliðar; sjónarmiðum þeirra sem héldu því fram að sérhver siðmenning stæði annarri jafnfætis. Enginn gæti lengur sagt að enginn vissi.

Þetta síðasta sem Hirsi Ali nefnir hér, siðferðislegu afstæðishyggjumennirnir, þessir sem láta eins og hver menning sé annarri jafn ágæt, kom óbeint við sögu í viðtali Egils við hana í gærkvöldi. Þar hafnaði hún með skýrum hætti fjölmenningarhyggjunni sem að sjálfsögðu hlýtur að ýmsu leyti að vera byggð á slíkri hugmynd. Annars staðar í bók sinni segir hún: „Margir vel meinandi Hollendingar hafa sagt mér í hreinskilni að ekkert í íslamskri menningu ýti undir slæma meðferð kvenna, allt sé þetta byggt á skelfilegum misskilningi. Mér er stöðugt sagt að karlar um allan heim berji konur. Í raun og veru eru það eingöngu Vesturlandabúar sem misskilja íslam. Kóraninn skipar fyrir um refsingar af þessu tagi. Hann er lagalegur grunnur misþyrminga og því finna gerendurnir ekki til neinnar vansæmdar né samviskubits og samfélagið lætur gott heita.“

Eins og áður var rakið barðist Hirsi Ali fyrir skráningu sæmdarmorða. Eftir „nokkurra vikna hrossakaup“ var fallist á það, en eingöngu „sem „tilraunaverkefni“ í aðeins tveimur lögregluumdæmum. Þingheimur var felmtri sleginn þegar niðurstöðurnar voru birtar nokkrum mánuðum síðar og ég fann mikla undiröldu í landinu til stuðnings tillögum mínum. Frá október 2004 til maí 2005 voru ellefu múslimskar stúlkur drepnar af fjölskyldum sínum í aðeins þessum tveimur umdæmum. (Alls eru tuttugu og fimm slík umdæmi í Hollandi.) Þegar þetta lá fyrir, var hætt að saka mig um ýkjur.”“

Það mætti lengi rekja kaflana úr ævisögu Hirsi Ali sem eru fallnir til þess að opna augu og auka skilning Vesturlandabúa á heiminum sem þeir búa enn í. Og af því að árásanna á Bandaríkin var minnst í vikunni þá er ekki úr vegi að geta þess að Hirsi Ali er ekki mjög hrifin af því sem vestræn gáfumenni kepptust við að þylja hvert yfir öðru þegar þau höfðu náð andanum eftir árásirnar.

Kynstrin öll af ótrúlega heimskulegum greinum rötuðu á prent. Mér misbauð ekki síst málflutningur svokallaðra sérfræðinga í málefnum araba sem virtust ekki hafa minnstu hugmynd um hvernig hinn íslamski heimur var í raun og veru. Greinarnar snerust allar um að íslam hefði varðveitt fræði Aristótelesar og fundið upp núllið en þær hetjudáðir drýgðu múslimskir fræðimenn fyrir rúmum átta hundruð árum. Þeir sögðu að íslam væri trúarbrögð friðar og umburðarlyndis, ekki vitund ofbeldishneigð. Þetta voru ævintýri sem áttu ekkert skylt við þann raunveruleika sem ég þekkti.

Evrópa frétti öll af því þegar hollenski kvikmyndagerðarmaðurinn Theo van Gogh var myrtur með hrottafengnum hætti, tveimur mánuðum eftir að hann og Ayaan Hirsi Ali luku gerð stuttmyndar sinnar um hlutskipti kvenna undir islam. „Theo reiddist þegar það var lagt til að nafn hans yrði ekki nefnt í lok myndarinnar, af öryggisástæðum. Einu sinni sagði hann mér: „Ef ég get ekki lagt nafn mitt við mínar eigin myndir í Hollandi, þá er Holland ekki lengur Holland og ég ekki ég.“ Sumir hafa spurt mig hvort ég sé haldin einhvers konar dauðaþrá, fyrst ég þrjóskist við að segja það sem ég segi. Svarið er nei: Ég vil lifa. Samt sem áður geta sumir hlutir ekki legið í þagnargildi því stundum er þögnin samsek óréttlætinu.“