Miðvikudagur 12. september 2007

255. tbl. 11. árg.
Með því að draga úr útblæstri CO2 myndum við forða fólki frá því að deyja úr hita. En um leið myndu fleiri deyja úr kulda. Þetta sýnir að minnkun á CO2 dregur bæði úr neikvæðum og jákvæðum áhrifum hlýnandi loftslags. Við ættum að minnsta kosti að íhuga sveigjanlegri aðferðir sem gætu gert okkur mögulegt að njóta jákvæðu áhrifanna en vega á móti hinum neikvæðu.
-Björn Lomborg, Cool It, bls. 41-42.

Þ rátt fyrir einlægar tilraunir umhverfisverndarmanna til að draga niður í Birni Lomborg á undanförnum árum gefur hann ekkert eftir í nýjustu bók sinni, Cool It, sem kom út í síðustu viku. Í bókinni færir hann rök fyrir því að fljótfærnislegar aðgerðir – á borð við þær sem Kyoto samningurinn býður – til að draga úr losun koltvísýrings séu fáránlega dýrar og skili litlum ávinningi. Ávinningurinn af þeim sé jafnframt skelfilega lítill þegar hann er borinn saman við það sem fæst fyrir brot af kostnaðinum væri fjármununum varið í sjúkdómavarnir, heilsugæslu, betri vatnsveitur, aukinn þrifnað og mat handa þeim sem svelta um þessar mundir.

Bók sína hefur Lomborg á norðurslóðum en blessaður ísbjörninn er orðinn nokkurs konar vörumerki gróðurhúsaáhrifanna. Enginn ísbjarnarstofn er eins vel rannsakaður og sá á vesturströnd Hudsonflóa. Þar voru tæplega 950 dýr árið 2004 og hafði þá fækkað úr 1200 frá árinu 1987. Frá þessari fækkun hefur oft verið sagt í fjölmiðlum en ekki þeirri staðreynd að árið 1981 taldi stofninn aðeins um 500 dýr og hefur því nær tvöfaldast á tuttugu árum. En jafnvel þótt menn tækju fréttum fjölmiðla af fækkun ísbjarna án fyrirvara þá hefði þeim aðeins fækkað um 15 á ári en 49 birnir eru skotnir á ári við vesturströnd Hudsonflóa. Ef allar þjóðir heims efna skyldur sínar samkvæmt Kyoto samningnum frestar hann í besta falli hlýnun um nokkur ár og hefur því ekkert að segja fyrir ísbjörninn. Kostnaðurinn er hins vegar yfirgengilegur. Með því að draga úr veiðum má ná margföldum árangri með litlum kostnaði.

Svona er Cool It út í gegn. Lomborg tekur helstu rök umhverfisverndarmanna og notar þau gegn þeim. Hann fjallar um hræðsluáróðurinn um bráðnun jökla, meiri flóð, verri óveður, hækkandi sjávarborð, ísöld í Evrópu með stöðvun Golfstraumsins, meiri útbreiðslu sjúkdóma, þurrka og hungur. Í öllum tilvikum er niðurstaða hans hin sama. Það er sóun að reyna að draga verulega úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Við getum náð miklu meiri árangri í baráttunni gegn helstu vandamálum heimsins með öðrum aðferðum. Evrópuríkin sem predika mest og hæst um mikilvægi Kyoto, án þess að fara eftir samningnum sjálf, gætu gert íbúum þróunarlanda meiri greiða með því að afnema ríkisstyrki til landbúnaðar og opna markaði sína en setja dýrar takmarkanir á útblástur gróðurhúsalofttegunda.

Kyoto samningurinn fær alveg hrikalega útreið í þessari bók. Sem frægt er orðið gengust Bandaríkin og Ástralía ekki undir skuldbindingar samningsins enda óraunhæft að ríki með efnahag í örum vexti geti staðið við þær. Bandaríkin hafa fengið ófáar skammirnar fyrir þá afstöðu. En er hún ekki ærlegri en afstaða flestra annarra vestrænna ríkja sem skrifuðu undir samninginn en munu ekki standa við hann? Hefði það ekki endanlega gert út af við samninginn ef öflugasta ríki veraldar hefði einnig skrifað undir hann í plati? (bls. 117):

Kyoto samningurinn hefur orðið tákn um andstöðu við Bandaríkin. Menn segja hann til marks um að Bandaríkjamenn séu áhugalausir um skoðanir annarra. Þannig hefur Kyoto öðlast pólitíska vigt án þess að menn geri körfu um að markmið samningsins séu skynsamleg eða raunhæf. Og hér erum við komin að kjarna málsins: Kyoto setur ekki aðeins afar metnaðarfull markmið sem eru fullkomlega óraunhæf heldur hafa þessi markmið nær enga þýðingu fyrir umhverfið. Markmið samningsins er að breyta aldargamalli orkunotkun á aðeins fimmtán árum. Það kostar stórfé og skilar engum árangri.

Lomborg bendir einnig á að mörg lönd muni ekki geta efnt skuldbindingar sínar samkvæmt Kyoto sáttmálanum. Það er fljótlegra að þylja nöfn þeirra sem munu fara að samningnum en hinum sem gera það ekki. Bretar munu líklega standa við sitt vegna einkavæðingar Margrétar Thatchers á breska kolaiðnaðinum. Einkavæðing og afnám ríkisstyrkja hafði þau áhrif að Bretar fóru að nota gas í stað kola. Þjóðverjar munu einnig efna sitt en það er einungis vegna sameiningar Þýskalands eftir fall kommúnismans en um leið hrundi hinn mengandi iðnaður í austurhlutanum. Sömu sögu er því auðvitað að segja af öðrum fyrrum kommúnistríkjum í Evrópu. Ef menn vilja gleðja vinstrigræna má kannski segja að Thatcher og Ronald Reagan eigi heiðurinn af því að einhver lönd munu þegar upp verður staðið standa við Kyoto samninginn. Þau sýndu Moskvuvaldinu þá hörku sem þurfti til að kommúnisminn lét loks undan síga í lok níunda áratugar síðustu aldar.

En það er kannski ekki að undra að stjórnmálamenn taki því létt að skrifa undir samninga eins og Kyoto sem gildir frá 1997 til 2012. Nýlega undirrituðu forystumenn Evrópusambandsins yfirlýsingu um 20% minnkun útblásturs gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2020. Ríkisstjóri Kaliforníu hefur uppskorið mikið lof fyrir áætlun sem hann undirritaði á síðasta ári um að draga úr losun fyrir árið 2020. Skömmu áður en Tony Blair lét að embætti sló hann um sig með yfirlýsingum um að draga úr útblæstri um 60% fyrir árið 2050. Í flestum tilvikum verða þeir sem halda stoltir á pennanum í ljósi myndavélanna horfnir til annarra starfa þegar málin verða gerð upp. Þeir munu jafnvel geta sagt að þeir lagt sitt af mörkum en eftirmennirnir ekki staðið sig í stykkinu.

Cool It er afar nett bók í liltu broti, meginmál er aðeins 164 síður en með henni fylgir afar veglegt safn tilvísana.

Í tilefni útgáfunnar býður Bóksala Andríkis eina af eldri bókum Lomborgs og þá einu sem komið hefur út á íslensku Hið sanna ástand heimsins á aðeins kr. 1.500. Heimsending – en enginn heimsendir – er innifalin.