Þriðjudagur 11. september 2007

254. tbl. 11. árg.

Þ að getur verið makalaust að fylgjast með fréttamönnum setja á svið atburðarás í kringum frekar dauflega viðburði. Í liðinni viku kom til dæmis stjórn Orkuveitu Reykjavíkur saman til að ákveða hvort hún hygðist mæla með því að fyrirtækinu yrði breytt í hlutafélag. Ekkert annað var á dagskránni. Þegar var búið að þvæla fram og til baka um málið í öllum fjölmiðlum dögum saman. Allir voru búnir að lýsa skoðun sinni á því. Ljóst var að meirihlutinn í borgarstjórn er hlynntur breytingunni, Vinstri grænir eru andvígir og Samfylkingin er líka á móti, en samt með.

Svo er fundurinn haldinn. Atkvæði greidd. Og fulltrúar meirihlutans greiða atkvæði með og fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar á móti.

En svo mætir Kristín Sigurðardóttir fréttamaður RÚV á staðinn. Þá fyrst kemur náttúrulega í ljós að stórtíðindi höfðu átt sér stað. Á fundinum sem allir vissu löngu fyrirfram hvernig myndi fara. Hvernig atkvæði myndu falla. Hver myndi segja hvað. Hvað myndi verða með kaffinu.

Kristín fær að heyra frá Svandísi Svavarsdóttur, fulltrúa Vinstri grænna, að málsmeðferðin einkennist af yfirgangi og formbreytingin geti verið spor í átt að einkavæðingu. Að vísu er borgarstjóri fljótur að slá á þær vonir, eins og hann er búinn að gera daglega, oft á dag, allt frá því að stjórnendur Orkuveitunnar settu fyrst fram tillögur sínar um félagaformbreytinguna.

En Kristín er ekki búin. Það eru fleiri hneyksli í málinu. Það þarf bara að draga þau fram. Hjálpa þeim svolítið fram í dagsbirtuna: Svandís segir að margar þær upplýsingar sem lagðar hafa verið fram á fundinum hafi verið munnlegar en ekki skriflegar. Það sé ótækt. Vinnubrögðin séu fyrir neðan allar hellur. Bingó. Hneykslið fundið og Kristín lætur ekki á sér standa, heldur spyr vongóð: „Er þetta … valdníðsla?“ Og Svandís svarar með þunga: „Þetta er yfirgangur.“

Glöð í bragði svífur Kristín næst á fulltrúa Samfylkingarinnar, sjálfan Dag Bergþóruson Eggertsson. Hann greiddi jú líka atkvæði gegn yfirganginum. Hann hlýtur að vera til í að segja að um valdníðslu sé að ræða. En hann er ekki jafn þægur í taumi. Fer bara eitthvað að blaðra um að flokkurinn muni ekki leggjast gegn hlutafélagavæðingu fari málið fyrir Alþingi. Með vantrú í röddinni spyr Kristín hvort Samfylkingin ætli ekki að leggjast gegn þessu? En Dagur Bergþóruson Eggertsson er í flokki sem er í ríkisstjórn og má því ekki tala jafn hreint út og Svandís: „Það fer bara eftir því hvort að það fáist tryggingar fyrir því að þetta fyrirtæki verði áfram í samfélagslegri eigu, fáist tryggingar fyrir því að áfram muni heitt vatn og rafmagn halda áfram að lækka í verði en ekki að hér sé haldið á vit einhverrar ævintýramennsku eða að tæpur meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur geti vaknað upp einn morguninn og ákveðið að einkavæða félagið.“

Það verður auðvitað að afstýra hættunni á ævintýramennskan taki völdin í Orkuveitunni. Hugsið ykkur bara ef beygt yrði af þeirri ábyrgu braut sem R-listinn stýrði Orkuveitunni eftir, með fjárfestingum í hugdettum sem voru algerlega lausar við ævintýramennsku, svo sem Línu.net.

Kristín nennir þessu ekki lengur, Dagur er alltof varkár. O jæja. Fékk að vísu ekki „valdníðslu“, en „yfirgangur“ er þó alltaf „yfirgangur“.