Föstudagur 14. september 2007

257. tbl. 11. árg.
Við erum að kljást við ríkisstjórnina og ráðherrana með ekki bara ráðuneytin og allar undirstofnanir á bak við sig heldur í vaxandi mæli tvo, þrjá og fjóra aðstoðarmenn inni í ráðuneytunum. Þeir heita bara fjölmiðlafulltrúar eða eru ráðnir í sérverkefni eða eitthvað, þannig að það myndast á endanum lítil flokksdeild inni í ráðuneytunum, kostuð af skattborgurunum. Ég sé ekki annað en að Samfylkingin sé þegar komin á bragðið.
– Steingrímur J. Sigfússon. Viðskiptablaðið, 6. september 2007.

R ætt var við Steingrím J. Sigfússon formann vinstri grænna í Viðskiptablaðinu á fimmtudag í síðustu viku. Steingrímur gerði starfsaðstöðu stjórnarandstöðunnar að umtalsefni og bar hana saman við stöðu stjórnarinnar. Ríkisstjórnin hefur sem kunnugt er mikinn meirihluta á Alþingi. Allir óbreyttir þingmenn Sjálfstæðisflokksins geta látið sig hverfa án þess að stjórnin missi meirihlutann. Steingrímur bendir á að auk hins mikla meirihluta hafi ríkisstjórnin allt stjórnkerfið í vinnu fyrir sig og ráðherrar hafi allt að fjóra pólitískt skipaða aðstoðarmenn á sínum snærum.

Ætli ráðningarþjónusta Samfylkingarinnar starfaði af minna kappi ef Samfylkingin væri í stjórn með vinstri grænum?

Eins og sönnum jafnaðarmanni sæmir vill Steingrímur leita leiða til að jafna þessa stöðu milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Og rétt eins og jafnaðarmaður vill hann gera það með því að ríkið moki meira fé í stjórnarandstöðuna, útvegi henni fleiri starfsmenn og skrifstofur, jafnvel rannsóknarstofnanir, hagdeild og lögfræðideild.

Hin leiðin, að draga úr fjölda aðstoðarmanna, kynningarfulltrúa, fjölmiðlafulltrúa, verkefnastjóra, sem ráðnir eru í ráðuneytin er auðvitað fjarri jafnaðarmanninum. Jöfnuðurinn felst alltaf í því að jafna frekar um skattgreiðendur. Og ekki dettur honum í hug að fækka megi ráðherrunum sjálfum.