Fimmtudagur 16. ágúst 2007

228. tbl. 11. árg.

N

Samgönguráðherrann ætlar sko ekki að láta þennan skipaverkfræðing sleppa.
Ráðherra til halds og trausts á myndinni er Róbert Marshall aðstoðarmaður hans.

ú hefur verið kynnt skýrsla sem starfsmenn ríkisendurskoðunar hafa gert um störf starfsmanna vegagerðarinnar og fleiri vegna kaupa á ferju til Grímseyjar. Ekki hefur Vefþjóðviljinn nú lagst yfir skýrsluna og ekki lesið mikið í henni heldur, en lítið smáatriði, tengt þessum umræðum, er engu að síður þess eðlis að ástæða er til að nefna það.

Ef marka má skýrsluna hefur ógrynni fjár verið sóað í lítið sem ekkert í þessu máli. Kristján Möller samgönguráðherra er strax búinn að finna hinn seka og það er einhver skipaverkfræðingur sem hann hefur þegar hengt upp til þerris. Nú má auðvitað vel vera að vegagerðarmenn hafi fengið ómögulega ráðgjöf, hvað veit Vefþjóðviljinn, en það er líka annað atriði sem skiptir máli þegar horft er til þessa Grímseyjarferjumáls. Það sem blasir við, en enginn virðist vilja nefna, er að þarna kemur að verki hópur manna sem á það eitt sameiginlegt að hann sýslar með annarra manna peninga.

Menn fara betur með eigið fé en annarra – er oft sagt. Auðvitað er það ekki fortakslaus regla; það eru mörg fyrirtæki og auðvitað einstaklingar, sem fara illa með peningana sína. En þar eru menn þó að fara illa með sína peninga og brjóta engan rétt á öðru fólki. Og vissulega eru, eða að minnsta kosti voru lengi, til forstöðumenn hjá hinu opinbera sem gera sitt besta til að fara vel og sparlega með það sem þeim er trúað fyrir. En að þessum fyrirvörum gerðum, þá má ætla að almennt sé farið því betur með fé sem raunverulegir eigendur þess ráða meiru um ráðstöfun þess. Meðal annars þess vegna er mikilvægt að reynt sé að minnka sem mest það fé sem tekið er með valdi af eigendum þess, hvort sem hinn fingralangi er ríkið, sveitarfélög, lífeyrissjóðir, verkalýðsfélög, Kasper, Jesper eða Jónatan.

Meginástæðan er þó ekki þau hagkvæmnisrök að menn fari betur með eigið fé en annarra. Meginástæðan er sú að það er frá almennu sjónarmiði réttlátt að fólk fái sjálft að ráðstafa því sem það hefur eignast á heiðarlegan hátt.

A nnars gaman að því hversu fjölmiðlamenn eru alltaf tilbúnir að trúa fyrirvaralaust þeim opinberu starfsmönnum sem gagnrýna störf annarra opinberra starfsmanna. Villan í málinu hlýtur alltaf að vera hjá þeim sem er gagnrýndur, aldrei hinum.