Föstudagur 17. ágúst 2007

229. tbl. 11. árg.

U m þessar mundir skortir ekkert á umræðuna um ofbeldi, skrílslæti, skemmdarverk og sóðaskap í miðbæ Reykjavíkur. Nú er auðvitað ekki alltaf mikið að marka umræðuna. Hún getur verið eins og hvert annað gaspur um horfinn hund. Ef marka má grein Stefáns Eiríkssonar lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins í Morgunblaðinu 13. ágúst síðastliðinn hefur ástandið heldur batnað á þessu ári samanborið við síðasta ár. Greinin leiðir þó einnig í ljós að ástandið hefur sjaldan verið verra á þann mælikvarða sem lögreglustjórinn notar.

En hvernig var það annars, áttu ekki að verða straumhvörf þegar farið var að festa þessa viðburði á filmu með eftirlitsmyndavélum fyrir nokkrum árum? Árið 2000 setti lögreglan slíkar myndavélar á nokkur götuhorn í miðbænum. Með grein lögreglustjórans fylgdi graf sem sýnir þróun í fjölda ofbeldisbrota í miðborginni og svo öðrum hverfum frá 1998 um helgar. Grafið sýnir fyrri hluta árs til að árið 2007 sé samanburðarhæft.

Ofbeldið hélt áfram að aukast árin 2000 til 2002 þrátt fyrir myndavélaeftirlitið. Svo sýna þessar tölur fækkun brota árið 2003 og 2004 en allt fer í sama farið 2005 til 2007. Það er með öðrum orðum ekkert augljóst samhengi við myndavélaeftirlitið sem hófst árið 2000. Auðvitað er heldur ekkert hægt að fullyrða um hvernig ástandið væri án myndavélanna, kannski væri það miklu verra. Og kannski segja þessar tölur ekki neitt því eins og með svo mörg önnur vandamál þá fjölgar skráðum ofbeldisbrotum eftir því sem menn leita og betur og bjóða upp á betri skráningu. En það er hins vegar ljóst að myndavélarnar leystu ekki vandann. Það blasir einnig við að frá árinu 1999 hefur ofbeldi aukist um 31% í miðbænum þar sem myndavélaeftirlitið er. Ofbeldið hefur hins vegar „aðeins“ aukist um 9% í öðrum hverfum borgarinnar þar sem engar eftirlitsmyndavélar eru.

Engu að síður boðaði borgarstjórinn í Reykjavík í gær að myndavélunum yrði hugsanlega fjölgað. Á að reyna meira af ráðunum sem ekki hafa dugað?

Vefþjóðviljinn andmælti uppsetningu þessara véla árið 2000 með þessum orðum:

Eftirlitsmyndavél gerir hinsvegar engan greinarmun á athöfnum einstaklinganna. Af öllum þeim sem lenda innan sjónsviðs vélanna eru því til skráðar heimildir. Með öðrum orðum, lögregluþjónn á vakt í miðbæ Reykjavíkur skrifar ekki skýrslu um hvern einasta einstakling sem þangað leggur leið sína en það gerir hinsvegar myndavélin. Notkun eftirlitsmyndavéla jafngildir því í raun tilefnislausri lögreglurannsókn á fjölda einstaklinga en forsenda slíkra rannsókna hefur hingað til verið sú að sá sem rannsókninni sætir hafi gefið nægjanlegt tilefni til að réttlæta rannsóknina.

Auðvitað þarf ekki að efast um að eftirlitsmyndavélar geti gert gagn. Þær hljóta að verða til þess að rannsókn og saksókn mála verður auðveldari í þeim tilvikum sem atburður næst á myndband. Einnig má hugsa sér að virkt eftirlit auðveldi lögreglu að komast fyrr á þá staði þar sem hennar er mest þörf hverju sinni. En fleira skiptir máli en gagnsemi myndavélanna.

Einhvers staðar verður eftirlitinu að linna. Auðvitað geta myndavélar hjálpað lögreglunni. En fleira skiptir máli í tilverunni en þeir rannsóknarhagsmunir. Vonandi finnst flestum það vera öfgakennt dæmi, en almennar myndavélar lögreglunnar á hverju einasta heimili landsins myndu auðvelda mjög baráttu við ýmsa glæpi. Heimilisofbeldi gæti næstum horfið, svo dæmi sé tekið, en engu að síður er vonandi langt í að svo langt verði gengið til að gæta öryggis fólks. Þó eftirlitsmyndavélar geri vafalaust ýmislegt gagn, þá verður frjálslynt fólk að gjalda varhug við frekari útþenslu þeirra. Auðvitað vill fólk að ofbeldismönnum og öðrum glæpamönnum sé settur stóllinn fyrir dyrnar á sem flestum sviðum. En það verður að berjast gegn þeim með öðrum aðferðum en alltumlykjandi eftirliti. Fyrst komu gatnamótin, næst afmörkuð svæði miðbæjarins. Hvar ætla menn að nema staðar og segja að nú verði ekki settar upp fleiri myndavélar?