Miðvikudagur 15. ágúst 2007

227. tbl. 11. árg.

F

Vafalítið leggur Ólafur Ragnar Grímsson leið sína í Ghencea kirkjugarðinn til að votta föllnum félaga virðingu. Þar hvílir Nicolae Ceausescu í ómerktri gröf.

orseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sem þrátt fyrir bakgrunn sinn er með alþýðlegri mönnum, hyggst leggja land undir fót upp úr miðjum september. Tilgangur ferðarinnar er að sækja heim Rúmena, enda ekki vanþörf á að maðurinn ferðist ef hann ætlar ekki að verða að athlægi við hliðina á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur ráðherra utanríkis-, atvinnu- og ferðamála.

Rúmenar eru heppnir að fá í heimsókn til sín mann á borð við Ólaf Ragnar Grímsson, því að nú á dögum er ekki að finna marga þjóðarleiðtoga sem geta rætt við þá eigin reynslu af Nicolae Ceausescu harðstjóra og kommúnista sem stýrði Rúmeníu þar til honum var steypt af stóli og tekinn af lífi árið 1989. Ólafur Ragnar getur reynst Rúmenum ómetanleg heimild um samskipti harðstjórans við umheiminn, harðstjórans sem kúgaði landsmenn sína í tæpan aldarfjórðung.

Flestir stjórnmálamenn á Vesturlöndum voru þeirrar skoðunar um það leyti sem Ólafur Ragnar fór í hina merku för, að menn á borð við Ceausescu væru stórvarasöm illmenni og vildu ekki eiga við þá óþörf samskipti. En Rúmenar eru svo lánsamir að Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins og alþingismaður var ekki sömu skoðunar. Ólafur Ragnar taldi Ceausescu „heiðursmann“ og fór til fundar við hann til að freista þess að fá hann til liðs við alþjóðleg þingmannasamtök sín, eins og áður hefur verið sagt frá. Ceausescu var ekki reiðubúinn til að vera í „innsta hring“ í samstarfi við Ólaf Ragnar eins og sá falaðist eftir, en féllst þó á stuðning og með það var Ólafur Ragnar afar ánægður.

Rúmenar þekkja vel á eigin skinni hvernig Ceausescu kom fram gagnvart löndum sínum en hann er talinn hafa látið ofsækja eða drepa allt að tvær milljónir þeirra. En það er vissulega fengur að því fyrir þá að fá slíkan öndvegismann í heimsókn til að lýsa fyrir þeim hvernig þessi frægasti leiðtogi þeirra kom fram gagnvart erlendum gestum. Og það er ekki síður ánægjuefni fyrir Íslendinga að eiga slíkan heiðursmann á stóli forseta og geta hugsað til þess stoltir að hann verði landi og þjóð hvarvetna til sóma og hvergi til minnkunar.