Þriðjudagur 14. ágúst 2007

226. tbl. 11. árg.

R áðningarþjónusta ISG hefur gert kunnugt að laust er starf „fjölmiðlafulltrúa“ í utanríkisráðuneytinu. Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir: „Afmörkun starfsins er ný og verður ráðið í það til reynslu í eitt ár.“ Hugtakið „afmörkun starfsins er ný“ er alveg ný og vafalaust mjög fagleg afmörkun á hugtakinu „nýtt starf hjá ríkinu“.
Að ráðið verði í starfið til reynslu í eitt ár er hins vegar gamall brandari á kostnað skattgreiðenda.

F ormaður húsafriðunarnefndar er kominn út fyrir verksvið sitt þegar hann krefst þess að menn hrófli ekki við neinu á Laugavegi 4 og 6 í Reykjavík. Á meðan ríkið heldur úti húsafriðunarnefnd á hún að sinna húsum en helst engu.

Afstaða fleiri ráðamanna er einnig ruglingsleg. Vinstri grænir gáfu grænt ljós á niðurrifið þegar þeir sátu í meirihluta í borgarstjórn og þurftu að taka ábyrgð á ákvörðunum borgarinnar. Nú er græna ljósið þeirra orðið rautt eins og svo oft áður.

En það er eðlilegt að menn óttist það sem kemur í stað braksins á Laugavegi 4 og 6. Flest það sem byggt hefur verið í miðbæ Reykjavíkur frá árinu 1960 er ja tja, ljótt. Íslenskir arkitektar virðast eiga erfitt með að taka tillit til nánasta umhverfis þeirra bygginga sem þeir rissa upp. Kannski þykir þeim vegið að „listrænu frelsi“ sínu ef þeir þurfa að sýna miðbænum tillitssemi. Verða þeir að gjalti í stéttinni ef þeir líkja eftir því sem áður hefur verið gert?

Svo Vefþjóðviljinn leyfi sér áfram að alhæfa um arkitekta þá virðast þeir fremur uppteknir af því að skapa sjálfum sér frumleg minnismerki en hagnýt og falleg hús fyrir þá sem þeir vinna fyrir.

Arkitektar virðast stundum gleyma því að hús, hvort sem er verslun eða íbúðahús, er ekki alveg ný uppgötvun. Menn hafa til dæmis ágæta reynslu um árþúsund af húsum með hallandi þaki. En nei, í Fossvoginum tóku menn ekki mark á því. Í Norðlingaholtinu virðast menn heldur ekki hafa mikið álit á reynslunni úr Fossvoginum.

Vefþjóðviljinn hefur áður bent á þá gæfu sem felst í því að flugvöllurinn í Vatnsmýri hefur að mestu leyti komið í veg fyrir að íslenskir arkitektar fengju að leika lausum hala í mýrinni. Hvaða hryllingur væri í Vatnsmýrinni ef menn hefðu byggt þar á síðari hluta 20. aldar? Þyturinn í flugvélunnum er lágt gjald fyrir að hafa forðað því.

Á miðnætti í kvöld lýkur tilboði Bóksölu Andríkis um eins árs kynningaráskrift að tímaritinu Þjóðmálum í kaupbæti til viðskiptavina. Margir hafa nýtt sér þetta boð enda kosta bækurnar í bóksölunni aðeins frá kr. 1.500 til 2.500 en ársáskrift að Þjóðmálum kostar kr. 3.500.