Mánudagur 13. ágúst 2007

225. tbl. 11. árg.

N

Í Tinna í Kongó eru flest illmennin bandarískir bleiknefjar.

ú eru tveir dagar eftir af tveggja-ára-afmælistilboði Bóksölu Andríkis. Allir viðskiptavinir Bóksölunnar í dag og á morgun fá eins árs kynningaráskrift að tímaritinu Þjóðmálum í kaupbæti með pöntun sinni. Þjóðmál eru forvitnilegt tímarit um stjórnmál og menningu og algerlega ómissandi fyrir frjálslynt fólk. Í Bóksölu Andríkis fást svo ótal bækur sem þangað hafa verið valdar vegna líkindanna á því að þær höfði til vitiborinna áhugamanna um þjóðmál. Bækurnar kosta frá kr. 1500 og upp í kr. 2500, og er heimsending innanlands ætíð innifalin í verðinu.

Og fyrst minnst er á bækur og bóksölu þá má hugsa til annarrar bóksölu sem reyndar er rekin utan landsins. Hin kunna bóksölukeðja, Borders, hefur margar skemmtilegar bækur til sölu og raunar enn fleiri sem ekki eru mjög skemmtilegar. Meðal þeirra bóka sem fást í hefðbundinni Borders-búð má nefna Kommúnistaávarpið og fleiri verk eftir Karl Marx, og einnig hugleiðingarnar Mein Kampf, eða Baráttu mína, eftir heldur umdeildan kanslara Þýskalands. Þessar bækur fást afgreiddar vandræðalaust í Borders-búðunum, en ekki er sömu sögu að segja um allar aðrar bækur.

Á dögunum tilkynnti Borders-keðjan að hún hefði ákveðið að taka úr verslunum sínum bók nokkra sem vegna efnistaka sinna væri hreinlega ekki boðleg á þessum víðsýnu og fordómalausu tímum. Hér var um að ræða hina svakalegu bók, Tinna í Kongó, þar sem vísindamönnum hefur nýlega tekist að finna móðgandi viðhorf til svertingja. Þannig að ef einhver gerir sér nú ferð í Borders-búð og biður um Kommúnistaávarpið, Mein Kampf og Tinna í Kongó þá verður honum skilmerkilega sagt að því miður sé ein þessara bóka svo illyrmisleg að hún verði ekki seld í siðmenntuðum búðum. En hinar, viltu fá þær í gjafapappír?

Svona er nútíminn.

U m helgina var sagt frá því í fréttum að Gísli Gíslason hafnarstjóri Faxaflóahafna hefði stungið sér í Reykjavíkurhöfn og stefnt á haf út. Taldi Morgunblaðið að Gísli hefði gert þetta til að taka þátt í áheitasundi Sundfélags Akraness.

Þetta er misskilningur hjá Morgunblaðinu. Gísli var einfaldlega að leita að auglýsingu um embætti hafnarstjóra Faxaflóahafna sem enn hefur hvergi nokkurs staðar birst.