Helgarsprokið 12. ágúst 2007

224. tbl. 11. árg.

Þ

Verkfæri frjálshyggju?

að er óneitanlega hressandi, og hugsanlega nauðsynlegt sömuleiðis, að lesa endrum og eins tæpitungulausa heimsósómabók, hvar höfundur greinir refjalaust frá því hvernig allt er að fara til helvítis og hvers vegna. Í bréfi sínu til Maríu, lýsir Einar Már Jónsson, sagnfræðingur, doktor í miðaldafræðum og kennari við Sorbonne, afstöðu sinni til vorra tíma. Í skemmstu máli er niðurstaðan sú að heimur versnandi fer og fjallar ríflega hálf bókin um það hvernig frjálshyggjan er ábyrg fyrir þessari stöðu mála. Í bókinni er því haldið fram að lokasigur frjálshyggjunnar sé innan seilingar og þar með allar þær vítiskvalir, sem þeim sigri óhjákvæmilega fylgir. Óhugnaðurinn framundan er skelfilegur.

Þó er ekki víst, að þeir sem telja sig til frjálshyggjumanna finni til mikils skyldleika við þann óskapnað, sem Einar Már setur á bás með dæmigerðri frjálshyggju. Af nógu er að taka, en hér skulu nefnd þrjú dæmi, sem kunna að koma flestu frjálslyndu fólki spánskt fyrir sjónir.

Í fyrsta lagi ýjað að því, að frjálshyggjumenn líti til þess stjórnarfars, sem alla jafna gengur undir heitinu lénsveldi, með mikilli velþóknun. Hér er vísað í bók, eftir Henri Lepage sem nefnist Demain le capitalisme, sem hann skrifaði til að kynna frjálshyggju fyrir Frökkum. Þessi efnistök Einars Más vekja nokkra furðu. Fyrst fyrir að velja þessa tilteknu bók til að gagnrýna frjálshyggju og jafnframt að kynna sér ekki önnur rit til viðbótar þessari ritsmíð Lepage. Bæði eru til miklu frægari rit um frjálshyggju en Demain le capitalisme og sömuleiðis eru sum þeirra eftir höfunda sem eru töluvert þekktari en Lepage – sumir þeirra ganga meira að segja með Nóbel upp á vasann. En á þá er ekki vikið einu aukateknu orði, sem er miður, því Einar Már hefði ekki þurft að lesa sig lengi áfram um frjálshyggju til að uppgötva að lénsskipulagið er ekki beinlínis í miklum metum meðal frjálshyggjumanna. Miðað við það mikla pláss, sem Einar Már gefur gagnrýni sinni á frjálshyggju, skyldi maður ætla að hann hefði mátt byggja hana á traustari grunni en sem nemur einni tiltölulega lítt þekktri bók eftir tiltölulega lítt þekktan höfund.

Í annan stað er fullyrt að Lionel Jospin, fyrrum forsætisráðherra Frakka, sé mikill frjálshyggjumaður. Það sama á að gilda um nokkrar síðustu ríkisstjórnir Frakklands; frjálshyggjan var þeirra hugmyndafræði. Það eru varla bara frjálshyggjumenn sem rekur í rogastans við þessi tíðindi. Frakkland hefur einmitt þótt yfirleitt vera afar mótfallið öllum þeim breytingum í frjálsræðisátt, sem hafa átt sér stað í mörgum öðrum ríkjum álfunnar síðustu tvo áratugi eða svo. Hvort kosning Sarkozys komi til með að breyta því eður ei á eftir að koma í ljós, en engu að síður er teflt nokkuð djarflega að lýsa Frakklandi síðustu ára og áratuga sem helsta virki frjálshyggjunnar. En séu menn vankaðir eftir þessa fullyrðingu, þá reiðir Einar Már aftur til höggs, og nú með fullyrðingu sem hlýtur að slá sósíaldemókratíska lesendur hans algerlega út af laginu.

Nefnilega, í þriðja lagi, þá fullyrðir Einar Már í bók sinni, að sjálft Evrópusambandið sé verkfæri frjálshyggjunnar. Ekki er víst að kratar lýðveldisins vilji ólmir samþykkja þetta, né er heldur líklegt að Samfylkingin, sem eini flokkurinn sem hefur það á stefnuskrá sinni að sækja um aðild að Evrópusambandinu, telji sig vera bisast við að koma landi og þjóð fyrir í risavöxnu frjálshyggjubatteríi. Líkt og lesendur Vefþjóðviljans vita vel, þá hefur hann ekki beinlínis verið hrifinn af Evrópusambandinu. Það er almenn afstaða frjálshyggjumanna til sambandsins. Á móti kemur þá hefur Vefþjóðviljinn ekki átt þess kost að kynna sér afstöðu Lepage til Evrópusambandsins, ef vera skyldi að hann sé afar jákvæður í garð þess.

Af ofantöldu má greinilega sjá, að sú frjálshyggja, sem Einar Már gerir ábyrga fyrir flestu ef ekki öllu sem aflaga fer í samfélagi manna, á fátt skylt við þá frjálshyggju eins og flestir aðrir skilja það hugtak. Til að forða öllum misskilningi, þá er dagsljóst af lestri bókarinnar, að Einar Már verður Vefþjóðviljanum ekki sammála um margt. Takmörkuð hrifning gagnvart Evrópusambandinu er þó sameiginleg, þó svo ástæðurnar þar að baki séu það ekki.

Og kemur þá eiginlega að tilefni þessa pistils, sem þrátt fyrir undanritað er ekki að snupra Einar Má fyrir að eigna frjálshyggjunni öll helstu einkenni sjálfs Kölska. Það gerir hann bara eins og honum lystir. Það er hins vegar ekki hægt að sleppa því að vitna í kafla í bréfi hans til Maríu, þar sem höfundur er boðaður til Brussel. Þannig vildi til að ganga þurfi frá samningi milli Efnahagsbandalags Evrópu, sem var nafn Evrópusambandsins í þá daga, og nokkurra ríkja utan þessa sambands, m.a. Íslands. Nú hafði verið gert ráð fyrir því, í texta samningsins, að Noregur hefði gengið í bandalagið, en Norðmenn felldu tillögu þess efnis í þjóðaratkvæðagreiðslu. Af þeim sökum þurfi að fjarlægja orðið „Noregur“ út af listanum yfir ríki bandalagsins og bæta því við yfir þau ríki sem stóðu fyrir utan það. Gefum Einari Má orðið:

„Vinnan hófst árla morguns og voru þá komnir saman fulltrúar hinna ýmsu ríkja innan og utan bandalagsins, svo og „málfræðilegir sérfræðingar“ eins og ég. Andrúmsloftið var heldur dauflegt á þessum grámyglulega útmánaðamorgni. Einhver las upp greinar samningsins og spurði hvað menn kynnu að hafa við þær að athuga. Aðrir hníptu þegjandi á meðan, hver með sinn texta á sínu tungumáli. Svo kom að því að upplesarinn sagði að hér ætti að strika út orðið „Noregur“ og hinkraði við andartak eftir athugasemdum. Þá rétti einn fulltrúinn upp höndina og sagði: „Ef orðið „Noregur“ er tekið burt úr upptalningunni verður ein komma eftir.“

„Þá þarf að strika hana út líka“, sagði upplesarinn.

„En hvernig á að gera það?“ spurði fulltrúinn eldsnöggt, „í kringum orðið eru tvær kommur, hvora á að fella burtu?“

Á samri stundu var eins og andrúmsloftið yrði rafmagnað, menn lifnuðu allir við af nýjum lífskrafti. Nú var greinilega komið að aðalatriðinu. Menn fóru í eldmóði að ræða um það hvort nema skyldi á brott úr upptalningunni „Noregur komma“ eða „komma Noregur“, og neistarnir flugu á báða bóga.

Þegar umræðurnar höfðu staðið yfir í hálftíma, snéri fulltrúi Íslands sér að mér, ungur og snaggaralegur sendiráðsstarfsmaður sem við getum kallað Jón Vídalín, og hann sagði:

„Þú ert starfsmaður Efnahagssambandsins og munt því gæta hagsmuna þess í hvívetna, og þar sem þú ert Íslendingur treysti ég að þú munir einnig standa vörð um hagsmuni Íslands. Því nú er ég farinn. Það er ekki hægt að halda tveimur mönnum á fullu kaupi í heilan dag yfir þessu andsk. kjaftæði.“

Við það var hann rokinn, og þarna sat ég eftir í stöðu sem ég hygg að fá stórmenni sögunnar hafi nokkru sinni lent í: ég var báðum megin við borðið í viðkvæmum milliríkjasamningum, ég var fulltrúi beggja aðila. Mér komu í hug orð skáldsins:

„Um hjarta vort þvert er hræelduð víglínan dregin.“

Hvað gerðist síðan? Ég vil ekki fara í einstök atriði, enda veit ég ekki hvort leyfilegt er að segja frá því öllu. En þú skalt ekki efast um, að um orðin „Noregur komma“ og „komma Noregur“ var rætt af beittri skarpskyggni og gneistandi manviti í tvo daga, borin fram rök og gagnrök eins og sverðum væri sveiflað í skylmingamynd, og djúpt var kafað. Ég hafði aldrei ímyndað mér að til væri önnur eins speki. En niðurstöðuna man ég því miður ekki lengur.

Þarna uppgötvaði ég að það er þægilegra starf og hreinlegra og auk þess mun ábatasamara að slátra kommum í Brussel en að draga golþorsk úr Ballarhafi. Þetta eru sterk rök fyrir því að Íslendingar eigi að ganga í Evrópusambandið. Ég veit ekki hvort nokkur sterkari rök séu fyrir hendi.“

Þetta er mjög forvitnileg frásögn og fyrir sitt leyti getur Vefþjóðviljinn tekið undir þessi orð Einars Más; eflaust er ekki til betri röksemd fyrir inngöngu í Evrópusambandið en sú, að geta þar með – og loksins – haft það að atvinnu að slátra kommum í Brussel.