Þriðjudagur 31. júlí 2007

212. tbl. 11. árg.

Þ á eru fjölmiðlarnir farnir að lesa upp tilkynningarnar frá skattstjórunum um það á hverja þeir leggja mest þetta árið. Og ekki þarf að efast um að hýenurnar frá Frjálsri verslun sitja núna sveittar á skattstofunni og safna upplýsingum um fólk til þess að gefa út, sjálfum sér til gróða.

Hvernig væri nú að fjölmiðlamenn sem telja eðlilegt að þylja upp tölur úr álagningarskrám, tölur sem segja sjaldnast alla söguna um það hvað fólk á endanum greiðir eða greiðir ekki, gengju nú á undan og tækju fram í fréttum hvað þeir sjálfir hafa í laun. Þar hafa þeir þó réttar tölur, geta byggt á launaseðlum en þurfa ekki að notast við álagningarskrár sem eru bara áætlanir skattyfirvalda en ekki endanleg niðurstaða um hvað menn greiða í skatta. Sú niðurstaða kemur ekki fyrr en eftir næstu áramót. Sjálfir eru fjölmiðlamenn í flestum tilvikum þekktara fólk en það sem þulið er upp í fréttatímunum, svo þeir sem halda að „áhugi almennings“ geti verið leyfi fyrir fréttaflutningi hljóta að telja að laun fréttamanna hljóti að vera jafn aðkallandi fjölmiðlaefni og álagningin á einhverja heilsugæslulækna úti á landi.

Og svo er annað sem hlýtur að vera lagt til í fullri alvöru, svo lengi sem álagningarskrárnar eru birtar. Hvenær verða bótaskrár ríkisins birtar?

Álagningarskrárnar eru birtar með tvennum rökum: Að ríkiskassinn sé sameiginlegur sjóður og því eigi allir að geta fylgst með hreyfingum hans. Og að birting skránna fæli hugsanlega svindlara frá því að gefa upp lægri tekjur en þeir í raun hafi haft. Ef að þessi rök eru nú góð og gild þá hljóta þau að leiða til þess að farið verði að birta bótaskrá ríkisins. Ef að ríkissjóður er svo sameiginlegur sjóður að borgararnir megi fá að vita hverjir leggja fé í hann, þá hljóta þeir að sama skapi að eiga heimtingu á því að vita hverjir fá fé úr honum. Og ef menn vilja fá fælingarmátt birtingarinnar, þá skyldi nú mega ætla að birting bótaskráa ætti nú að fæla hugsanlega svindlara frá því að sækjast eftir bótum sem þeir eiga ekki „rétt“ á.

Svo lengi sem álagningarskrárnar eru birtar, verður krafan um birtingu bótaskráa gerð. Með hvaða rökum ætla menn að hafna henni? Persónuvernd? Viðkvæmar upplýsingar?

Og hvað fær skattstjórana til að senda frá sér fréttatilkynningar um þá sem hæst fara í álagningarskránum? Það er ekki mikil mannekla á skattstofunum ef starfsmenn þar hafa ekkert þarfara að gera en að kokka slíka lista ofan í gapandi ginið á fjölmiðlum. Hafa skattstjórar ekki kynnt sér 117. grein tekjuskattslaganna?

Skattstjórum, umboðsmönnum skattstjóra, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra ríkisins og yfirskattanefnd er bannað, að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi, að skýra óviðkomandi mönnum frá því er þeir komast að í sýslan sinni um tekjur og efnahag skattaðila. Hið sama gildir um þá er veita þessum aðilum aðstoð við starf þeirra eða á annan hátt fjalla um skattframtöl. Þagnarskyldan helst þótt menn þessir láti af störfum.

Hvar eru allir þeir sem stundum hafa miklar áhyggjur af persónuupplýsingum? Eru þeir uppteknir í Eymundsson, í röð eftir „tekjublaði“ Frjálsrar verslunar?