H
![]() |
Ókeypis kynningaráskrift! Viðskiptavinum Bóksölu Andríkis býðst nú ókeypis eins árs kynningaráskrift að Þjóðmálum. Tilboðið gildir næstu tvær vikurnar og gagnast þeim sem panta bækur úr bóksölunni. |
inn fyrsta ágúst 2005 vildi svo til að í landinu var svokallaður frídagur verslunarmanna og búðir almennt lokaðar, með tilheyrandi áhrifum á hagvöxtinn. Andríki, útgáfufélag Vefþjóðviljans, brá þá skarpt við og efndi þegar í stað til viðeigandi mótvægisaðgerða og opnaði Bóksölu Andríkis til að fólk kæmi ekki allsstaðar að lokuðum dyrum. Síðan eru nú liðin tvö ár og viðskiptin hafa blómstrað. Andríki hefur nú ákveðið að halda upp á þessa tveggja ára sögu og leyfa viðskiptavinunum að njóta þess með sér. Næstu tvær vikur býðst öllum þeim sem panta bækur úr Bóksölu Andríkis eins árs ókeypis kynningaráskrift að hinu ómissandi tímariti, Þjóðmálum. Eins og áður hefur verið minnst á þá eru Þjóðmál ómissandi fyrir alla áhugamenn um þjóðmál og menningu en í hverju hefti eru forvitnilegar og vandaðar greinar um ótal efni sem hinir útbreiddari fjölmiðlar hafa ekki sans fyrir.
Úrvalið í Bóksölu Andríkis hefur vaxið jafnt og þétt frá opnun, en nokkrir titlar eru að vísu nú uppseldir og lítið eftir af upplagi ýmissa annarra. Þær bækur sem nú fást í Bóksölunni eru þessar – og heimsending innanlands ætíð innifalin í verði, en meginreglan er að bók er póstlögð í síðasta lagi næsta virkan dag eftir að hún er pöntuð.
Í tilefni af tíu ára afmæli Vefþjóðviljans gaf Andríki fyrr á þessu ári út ritið Löstur er ekki glæpur eftir bandaríska hugsuðinn og sérvitringinn Lysander Spooner. Í bókinni færir Spooner rök að því að lesti sína eigi fólk að fá að eiga við sig sjálft en refsingar og bönn megi aðeins snúa að glæpum þess gegn öðru fólki. Meira en aldargömul bók sem virðist þó skrifuð fyrir lýðheilsustofnunaröldina.
Í Kommúnismanum rekur Richard Pipes, fyrrverandi prófessor við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum, sögu kommúnismans í Rússlandi og fjallar um það hvers vegna Rússland hafi, þvert á spádóma Marx, orðið fyrst ríkja til að verða kommúnískt. Pipes fjallar um stjórnarhætti þeirra Leníns og Stalíns, en grimmd þeirra tveggja hættir seint að koma á óvart. Þá er í bókinni rakin saga kommúnismans á heimsvísu, útbreiðslu hans til Kína og þróunarlanda, viðtökur á Vesturlöndum og kalda stríðið. Þessi fróðlega bók minnir á hvílíkt lán það var að kommúnistum auðnaðist ekki að leggja heiminn allan undir ógnarstjórn sína og hversu samstaða Vesturlanda var mikilvæg. Kommúnisminn, sögulegt ágrip, kostar kr. 1950.
Fjölmiðlar 2004 og Fjölmiðlar 2005 eftir hinn umtalaða blaðamann, Ólaf Teit Guðnason, geyma alla fjölmiðlapistla hans frá þessum árum. Óhætt er að segja að pistlar hans veki mikla athygli þegar þeir birtast í hverju föstudagsblaði Viðskiptablaðsins, enda eru þeir nær eina aðhaldið sem íslenskir fjölmiðlamenn sýna hver öðrum. Í bókunum rekur Ólafur Teitur dæmi eftir dæmi um óvönduð vinnubrögð, skakka umfjöllun og hreinar rangfærslur fjölmiðlamanna og er óhætt að segja að bækur hans séu hrein nauðsyn öllum þeim sem treysta á fjölmiðla um upplýsingar og fróðleik. Og hver þarf ekki að gera það? Hvor bók kostar kr. 1890 en þær eru einnig boðnar saman í pakka á kr. 3100.
Í Leyndardómi fjármagnsins setur perúski hagfræðingurinn Hernando de Soto fram uppbyggilegar hugmyndir um það hvernig kapítalismi getur skilað ábata því fólki sem oft er talið vera fórnarlömb hans og leitar svara við því hvers vegna kapítalisminn hefur fest sig í sessi á Vesturlöndum en gengið illa annars staðar. Fróðleg og skýr bók um mikilvægi eignarréttar og kapítalisma. Heimsfræg bók á sínu sviði og ekki að ástæðulausu. Leyndardómur fjármagnsins kostar kr. 2400.
Umhverfismál skipta miklu og nýjar og nýjar reglur og gjöld eru boðuð með vísan í splunkunýja heimsendaspá. Í bók sinni, Hinu sanna ástandi heimsins fer Bjorn Lomborg yfir spádóma þeirra sem hæst hafa talað um umhverfismál og skýrir hvers vegna þeir hafa haft rangt fyrir sér. Goðsagnir og heimsendaspár, byggðar á ófullnægjandi heimildum og túlkunum eru raktar með skýrum og einföldum hætti. „Jörðin er sannast sagna betri staður til að búa á þegar við skilum henni af okkur heldur en þegar við tókum við henni“, segir Lomborg, „og þetta er í raun og veru hið stórkostlega við hið sanna ástand heimsins.“ Hið sanna ástand heimsins kostar kr. 2200.
Jakob F. Ásgeirsson, ritstjóri Þjóðmála, skrifaði reglulega pistla í dagblöð um margra ára skeið. Á bókina Frá mínum bæjardyrum séð er safnað úrvali hinna beinskeyttu pistla hans og er þar fjallað um mál frá öðrum sjónarhóli en algengastur er í íslenskri þjóðmálaumræðu. Bókin gefur einstaka mynd af stjórnmálaþróun síðustu ára, út frá bæjardyrum höfundar síns, en í efnisorðaskrá hennar má finna flest deilumál þjóðmálanna síðustu ár. Frá mínum bæjardyrum séð kostar kr. 1550.
Árið 1880 kom út fyrsta hagfræðiritið á íslensku, Auðfræði eftir sr. Arnljót Ólafsson, sem studdist ekki síst við rit franska hagfræðingsins Fréderic Bastiats. Rúmri öld síðar var bókin endurútgefin að verðleikum. „Hitt er merkileg staðreynd að árið 1880 skuli jafn fámenn útkjálkaþjóð og Íslendingar eignast jafnágætt kynningarrit á jafnungum vísindum og fræðileg hagfræði hlaut þá að teljast“, segir Gylfi Þ. Gíslason í formála hinnar endurútgefnu bókar, sem kostar kr. 2500.
Ein umtalaðasta og vinsælasta ævisaga sem út kom á Íslandi á síðustu öld var þriggja binda verk Kristjáns Albertssonar um ráðherrann og skáldið Hannes Hafstein. Í tilefni aldarafmælis heimastjórnar var ævisagan endurútgefin í styttri útgáfu og er óhætt að segja að vel hafi tekist til. Bókin er ákaflega vel skrifuð hjá Kristjáni, virkilega spennandi aflestrar og ómissandi þeim sem nokkuð vill vita að gagni um sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og íslenska stjórnmálasögu. Hannes Hafstein kostar kr. 1550.
Flestir þurfa að lúta lögum í starfsemi sinni og daglegu lífi. En hvað á að vera í lögum og hvað ekki? Eru lögin einfaldlega sett til þess að hindra óréttlæti eða er þeim kannski líka ætlað að deila út réttlæti? Lögin er sígilt verk eftir Fréderic Bastiat, fyrst gefið út í Frakklandi árið 1850 en á við á öllum tímum. Lögin kosta kr. 1500.
Íslenskir vinstri menn áttu mikil samskipti við kommúnistastjórnina í Sovétríkjunum. Í Moskvulínunni rekur prófessor Arnór Hannibalsson samskipti íslenskra sósíalista við rússneska skoðanabræður þeirra sem brotist höfðu til valda árið 1917. Arnór hefur viðað sér fjölmörgum gögnum úr rússneskum skjalasöfnum og af þeim að dæma er ljóst að þessi samskipti voru mjög einhliða. Íslenskir sósíalistar fengu fyrirmæli frá Kreml um afstöðu til manna og málefna og hvernig þeir ættu að haga baráttunni hér heima. Íslenski kommúnistaflokkurinn var deild í móðurflokknum í Sovétríkjunum. Til dæmis fór það algjörlega eftir skipunum frá Moskvu hvort íslenskir kommúnistar leituðu eftir samstafi við sósíaldemókrata eða fordæmdu þá sem höfuðstoð auðvaldsskipulagsins. Gangur heimsmála fléttast inn í frásögnina enda fór afstaða íslenskra kommúnista og sósíalista til atburða í evrópskum stjórnmálum eftir skipunum frá Kreml. Þetta kom berlega í ljós þegar Hitler og Stalín gerðu griðasáttmála sinn árið 1939. Þá varð Hitler eins og hendi væri veifað alls góðs maklegur í huga íslenskra sósíalista. Í síðari hluta bókarinnar er fjallað um Halldór Kiljan Laxness og samband hans við Sovétríkin allt frá því Halldór hóf ungur baráttu fyrir málstað Stalíns og þar til hann sneri við blaðinu í Skáldatíma árið 1963, þá nýkominn á sjötugsaldur. Moskvulínan kostar kr. 1900.
Í bók sinni, Af jarðlegum skilningi, fjallar Atli Harðarson heimspekingur um sjálfsprottið skipulag, sem er áhugavert fyrir alla frelsisunnendur, því það er svar við miðstýringu að ofan. Hann tengir saman siðfræði Davids Hume, þróunarkenningu Darwins og hugmyndir Alans Turing um altæka vél. Bókin er eins konar inngangur að heimspekilegri veraldarhyggju; hvernig megi skilja mannlífið jarðlegum skilningi.
Bókin Ritgerð um ríkisvald eftir John Locke hefur haft meiri áhrif á stjórnmál Vesturlanda en flestar aðrar bækur. Efni hennar mótaði hugmyndafræðina sem hratt stofnun Bandaríkjanna af stað og þar með útbreiðslu lýðræðis. Ritgerðin er sígilt verk í stjórnspeki skrifað til höfuðs kenningum sem þóttust réttlæta alræði valdhafanna. Locke segir hlutverk ríkisins að verja náttúruleg réttindi borgaranna. Atli Harðarson þýddi og ritar inngang þar sem kenningar Lockes eru settar í samhengi við stjórnmálasöguna.
Frelsið, eftir John Stuart Mill, er annað sígilt verk. Einstaklingurinn ber aðeins ábyrgð gagnvart samfélaginu á þeim athöfnum sem skaða aðra en ekki þeim sem varða aðeins hann sjálfan. Því er ríkinu ekki heimilt að skerða frelsi manna nema til varna fyrir aðra. Mill segir bókina fjalla um „borgaralegt eða félagslegt frelsi, um eðli og takmörk hins réttmæta valds þjóðfélagsins yfir einstaklingnum,“ það er um rétt hvers einstaklings til að haga lífi sínu eins og honum sjálfum sýnist, án tillits til valdboða eða almenningsálits.
Kristján Albertsson var þekktur maður á sinni tíð og hún var löng. Í minningabókinni sem við hann er kennd og Jakob F. Ásgeirsson skráði, nýtur hin þekkta frásagnarsnilld Kristjáns sín vel þegar hann rifjar upp liðna daga og bregður upp svipmyndum af vinum og samferðamönnum, svo sem Einari Benediktssyni, Jóhannesi Kjarval, Jóhanni Sigurjónssyni, Guðmundi Kamban og Ólafi Thors. Ákaflega skemmtileg bók sem kostar kr. 1890.
Annar maður sem hefur verið iðinn á ritvellinum er Björn Bjarnason, bæði sem stjórnmálamaður og blaðamaður. Ritgerðasafnið Í hita kalda stríðsins geymir skrif hans frá örlagatímum kalda stríðsins og er ómissandi hverjum áhugamanni um utanríkis- og öryggismál. Fáir hafa fjallað um þau mál af meiri þekkingu en Björn. Í hita kalda stríðsins kostar kr. 1900.
Síðast en ekki síst fæst áskrift að tímaritinu Þjóðmálum í bóksölunni en einnig er hægt að kaupa stök hefti.