Mánudagur 30. júlí 2007

211. tbl. 11. árg.

Á

Þessi eðalvagn er óneitanlega „einn með öllu bullinu“.

bloggsíðu JL á Vesturgötu 10A má sjá myndum skreytta frásögn af því þegar félagar í Saving Iceland reyndu að ná beygjunni af Garðarstræti inn á Vesturgötu en tókst ekki betur til en svo að bílinn lenti á húsinu á 10A. Já þeir voru á bíl félagarnir í Saving Iceland. Enda er hlutfall áls í venjulegum bíl mun lægra en í flestum reiðhjólum. Á myndunum af þessu óláni má sjá að bíll félaganna er ekki alveg af nýjustu árgerð. Reyndar má sjá númeraplötuna – sem við biðjum allar góðar vættir að ekki sé úr áli – og af númerinu að dæma er bíllinn tuttugu ára gamall, skráður til leiks 1987.

Nú geta tuttugu ára gamlir bílar auðvitað verið í ágætu lagi. En þetta eintak lítur ekki beinlínis út fyrir að vera „frúarbíll“ eða „dekurbíll“ og það er sennilega meiri álmoli en gullmoli. Í flestum tilvikum eru svo gamlir bílar útjaskaðir og farnir að brenna smurolíu. Í Bretlandi hafa rannsóknir sýnt að innan við 10% bílaflotans valda yfir 50% sótmengunar. Það eru að mestu leyti gamlir skrjóðar með úreltan, slitinn og eyðslufrekan vélbúnað án mengunarvarna.

Svo gamlir bílar eru ekki aðeins varasamir umhverfinu heldur, eins og dæmin sanna, einnig varasamir í umferðinni. Þeir bila þegar mest á reynir. Í þennan bíl vantar líka ýmis mikilvæg öryggistæki sem eru í nýjustu árgerðum.

En Vefþjóðviljinn ætlar ekki að benda á unga fólkið í Saving Iceland og skamma það fyrir að vera á mengandi og hættulegum bíl. Hann ætlar að rekja það til Alþingis að ungir skemmdarvargar þurfi að aka um á slíku skrapatóli. Þingmenn leggja allt að 40% vörugjald og svo 24,5% virðisaukaskatt á bíla við innflutning. Það kemur í veg fyrir að menn – ekki síst efnalítið fólk – geti keypt sér nýja, örugga og eyðslugranna bíl með nýjustu mengunarvarnatækni.