Þriðjudagur 24. júlí 2007

205. tbl. 11. árg.

Þ að hefur víst ekki farið framhjá neinum að hér á landi eru nú staddir erlendir atvinnumótmælendur sem framið hafa skemmdarverk, truflað fólk og fyrirtæki og verið með ýmis konar undarlegar uppákomur. Samtök sem þessir vafasömu gestir munu tengjast eru nú kölluð Saving Iceland en voru í eina tíð með vef sem hét því indæla nafni „killing Iceland“og er líklega meira lýsandi fyrir starfsemina.

Í gær aðstoðaði Spegillinn á Ríkisútvarpinu samtökin við að koma málstað sínum á framfæri og verður sú aðstoð að teljast með athyglisverðari ráðstöfunum á skattfé. Fulltrúi Spegilsins ræddi við mann sem nefndur var Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson og hafði sá spakvitri maður frá mörgu merku að segja. Hann skýrði á greinargóðan hátt frá því hverju samtök hans væru að mótmæla nú en Vefþjóðviljinn treystir sér ekki til að koma þeim mikilvægu skilaboðum óbrengluðum til lesenda sinna. Síðan sagði hann að ástæða þess að verið væri að mótmæla væri í fyrsta lagi sú að áliðnaðurinn væri mjög mengandi. Svo hélt Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson áfram:

„Í öðru lagi er hann – eh þá er hérna ál sko mjög auðvelt til endurvinnslu – og þar – – ég [svo!] gæti verið að endurvinna allt þetta ál sem er búið að framleiða – eh að minn- það er 10% – það þarf 10% af þeirri orku sem þarf til að frumbúa til – hérna eða frumvinna ál til þess að endurvinna álið. Og ég veit ekki hvað, ég veit ekki, ég veit ekki neinar tölur en ég veit bara það að það er fáránlega miklu magni af áli hent á ári án þess að án þess að komast í endurvinnslu.“

Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson veit að vísu ekki neinar tölur en hann veit þó sínu viti og veit að það er fáránlega miklu magni af áli hent. Ábyggilega alveg fullt af dósum sko og alveg fáránlegum öðrum hlutum sem voru örugglega bara framleiddir til að uppfylla gerfiþarfir rotnandi markaðshagkerfis. Þess vegna er um að gera að flytja inn atvinnumótmælendur og standa fyrir tíu manna fjöldamótmælum og skemmdarverkum. Þá má líka treysta því að Ríkisútvarpið og aðrir fjölmiðlar hlaupi til og flytji fregnir af stórviðburðunum.