Miðvikudagur 25. júlí 2007

206. tbl. 11. árg.

F élagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur opnað vefinn skattamal.is þar sem kynnt er rannnsóknarverkefni um skatta og velferð sem stofnunin hefur tekið að sér. Það er Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor sem  stýrir verkefninu. Nokkrir innlendir fræðimenn vinna að skýrslu um áhrif skattalækkana, en auk þess verða haldnar nokkrar málstofur og ráðstefnur með innlendum og erlendum sérfræðingum um skatta og velferð og gefin út nokkur rit í framhaldinu um þessi efni. Meðal hinna erlendu fræðimanna, sem taka þátt í þessu verkefni, eru Nóbelsverðlaunahafarnir Edward C. Prescott og Gary S. Becker og hinn kunni bandaríski hagfræðingur Arthur B. Laffer, sem Laffer-boginn er kenndur við.

Á morgun verður fyrsta ráðstefnan haldin í Þjóðminjasafninu undir yfirskriftinni „Skattalækkanir til kjarabóta“. Í kynningu á ráðstefnunni segir:

Síðustu sextán ár hafa skattar snarlækkað á Íslandi. Tekjuskattur á fyrirtæki lækkaði úr 45% árið 1991 í 18% árið 2001, og hefur verið svo síðan. Tekjuskattur ríkisins á einstaklinga lækkaði úr um 31% árið 1997 í um 23% árið 2007. Aðstöðugjald, hátekjuskattur og eignaskattur hafa allir verið felldir niður. Erfðafjárskattur hefur stórlækkað. Þrátt fyrir þetta hafa skatttekjur ríkisins af tekjuskatti fyrirtækja, einstaklinga og af fjármagnstekjuskatti aukist. Vegna skattalækkana og öflugra atvinnulífs hafa ráðstöfunartekjur almennings einnig hækkað.

Á ráðstefnu í Reykjavík 26. júlí munu nokkrir erlendir fræðimenn ræða það með íslenskum starfsbræðrum sínum, hvernig halda skuli áfram að lækka skatta.

  • Valda hærri skattar í Evrópu en Bandaríkjunum minni starfslöngun Evrópubúa?
  • Er flatur skattur á allar tekjur heppilegri en stighækkandi skattur?
  • Hvernig hefur Svisslendingum vegnað við miklu lægri skatta en tíðkast víðast hvar í Evrópu?
  • Getur Ísland orðið fjármálamiðstöð, ef skattar á fyrirtæki eru hér lækkaðir?
  • Geta kjör almennings batnað með skattalækkunum?

En það eru fleiri að hugsa um skattalækkanir og flatan skatt en ráðstefnugestir á Íslandi. Í Wall Street Journal í gær er sagt frá því að að Albanir ætli hinn 1. ágúst að hefja lækkun á tekjuskatti einstaklinga niður í 10% flatan skatt. Tekjuskattur fyrirtækja á einnig að lækka í 10% á næsta ári. Þessi ráðstöfun Albana er ekki einsdæmi í Austur-Evrópu þar sem hvert ríkið á fætur öðru hefur fært sig í átt að flötum skatti og fleiri eru á leiðinni. Svartfellingar ætla til að mynda að taka upp  9% flatan skatt á bæði einstaklinga og fyrirtæki árið 2010.

Þótt íslenska ríkið hafi lækkað sinn hlut í tekjuskattinum niður í 22,75% á undanförnum árum – með þeirri undantekningu að 1% lögfest lækkun var dregin til baka um síðustu áramót – hafa sveitarfélögin verið að hækka útsvar sitt á móti upp í 12,97%. Tekjuskattur einstaklinga er því enn 35,72% sem hljómar hrein bilun í samanburði við það sem stjórnvöld í Tírana bjóða upp á frá og með næstu mánaðamótum. Núverandi tekjuskattshlutfall einstaklinga er líka hærra en það var þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp á níunda áratug síðustu aldar. Árið 1988 var tekjuskattshlutfallið 35,20%. Tekjuskattur einstaklinga á Íslandi er því enn mjög hár í sögulegum samanburði og nú stefnir allt í að Ísland líti út eins og kommúnistaríki í samanburði við Albaníu.

Samtals 35,72% tekjuskattur (samanlagt útsvar sveitarfélaga og tekjuskattur ríkisins) Íslendinga er ekki beint freistandi í samanburði við það sem borgurum í hinu fyrrum alræmda kommúnistaríki Albaníu verður senn boðið upp á.