Mánudagur 23. júlí 2007

204. tbl. 11. árg.

J

Landsmenn eru hvattir til að taka vel á móti Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur þegar hún kemur í sína fyrstu opinberu heimsókn til Íslands.

æja, þá er Ingibjörg Sólrún komin til Jórdaníu. Þaðan mun leið hennar svo liggja til Íslands þar sem hún mun dvelja í nokkra daga og eiga stuttar viðræður við ráðamenn áður en hún heldur að nýju af landi brott, brýnna erinda.

Þetta verður fyrsta opinbera heimsókn Ingibjargar hingað til lands.

A nnars hefur Ingibjörg haft ýmislegt fyrir stafni undanfarna daga, annað en að stilla til friðar um heim allan. Eins og Vefþjóðviljinn sagði frá fyrir helgi þá krafðist hún á dögunum hluthafafundar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. og setti þar af nýjan stjórnarformann fyrirtækisins, konu nokkra sem ekkert hafði til sakar unnið að því er vitað var, en setti í staðinn Jón Gunnarsson, fyrrverandi þingmann Samfylkingarinnar sem missti þingsæti sitt í síðustu kosningum. Fjölmiðlar hafa engan sérstakan áhuga á þessu og þarf enginn að láta það koma sér á óvart.

En hvernig ætli þeir hefðu látið ef einhver annar flokkur hefði átt í hlut. Ingibjörg Sólrún efnir til hluthafafundar til þess eins að taka fólk úr stjórn hlutafélagsins og setja þar inn Jón Gunnarsson og Rannveigu Guðmundsdóttur, annan fyrrverandi þingmann Samfylkingarinnar. Hvernig halda menn að fjölmiðlum þætti ef til dæmis Sjálfstæðisflokkurinn hefði krafist hluthafafundar í hlutafélagi eins og þessu, og sett þar út eitthvert fólk sem enginn hefði áður fundið að, og sett í staðinn Guðjón Hjörleifsson sem stjórnarformann og Drífu Hjartardóttur með honum til öryggis? Ætli eitthvað hefði heyrst af frösunum um konur og atvinnulífið, konur og stjórnarsetur, að konur reki sig uppundir glerþak og að tunglið sé úr osti? Ætli bunan hefði staðið uppúr feministum landsins?

En þegar Ingibjörg Sólrún skiptir konu úr atvinnulífinu út fyrir þingsætislausan Samfylkingarkarl, þá heyrist ekki orð. En íslenskir fjölmiðlar eru bara eins og þeir eru – eins og vel má til dæmis fræðast um í fjölmiðlabókum Ólafs Teits Guðnasonar, en báðar bækur hans fást á vægu verði í Bóksölu Andríkis og eru mjög þarfar en hrollvekjandi lesning. Allir áhugamenn um þjóðmál ættu að kynna sér bækur Ólafs, svo sneisafullar af sláandi dæmum og frásögnum sem þær eru.

Nú má vel vera að Rannveig Guðmundsdóttir og Jón Gunnarsson séu sérlega vel til þess fallin að sitja í stjórn flugstöðvar. En það er ábyggilega ekki það sem ræður áhugaleysi fjölmiðla um hluthafafundinn sem Ingibjörg krafðist að yrði haldinn, utan dagskrár um mitt sumar.