Laugardagur 14. júlí 2007

195. tbl. 11. árg.

E f marka má fréttir er svifryk eitt helsta áhyggjuefni borgaryfirvalda í Reykjavík. Úr Dieselbílum kemur margfalt meira svifryk en úr bensínbílum. Í kjölfarið hafa borgaryfirvöld því ákveðið að það verði einkum Dieselbílar sem fái einkunnina „visthæfir“ og fái þar með frítt í bílastæði borgarinnar. Það þarf því ekki að koma á óvart þótt hinn almenni maður eigi erfitt með að átta sig á hvernig landið liggur í þessum grænu efnum.

Í leiðara Fréttablaðsins í gær fór Jón Kaldal til að mynda mikinn og heimtaði tafarlausar stjórnvaldsaðgerðir til að auka notkun Dieselbíla á kostnað bensínbíla.

Kostir dísilvéla umfram bensínvélar gagnvart náttúrunni liggja fyrir. Dísilvélar eyða að minnsta kosti fjórðungi minna eldsneyti en bensínvélar og útblástur þeirra er hreinni. Um þetta er ekki deilt.

Reyndar er deilt um hvort Dieselvélar séu „hreinni“ en bensínvélar enda gefa Dieselvélar frá sér meira svifryk þótt þær gefi tvímælalaust frá sér minna af gróðurhúsalofttegundum. Hvor vélargerðin hefur því nokk til síns ágætis. Og hvers vegna ættu stjórnvöld að þurfa að hygla bílvélum sem eyða „fjórðungi minna eldsneyti“ en aðrar vélar? Það væri með ólíkindum ef menn fúlsuðu við vélum sem lækkuðu eldsneytisreikninginn um fjórðung.

Jón Kaldal leggur til að eldsneytið á litla bílinn til hægri verði gert dýrara með skattlagningu en á þann stóra til vinstri. Eftir hverju bíða stjórnvöld, spyr hann forviða.

Einu til viðbótar geta menn velt fyrir sér í þessu sambandi. Ef stjórnvöld myndu hygla Dieselolíu á kostnað bensíns þá fengi eigandi 10 strokka þriggja tonna Dieseljeppa eldsneyti á sérlegum afslætti en þeim sem væri á litlum eyðslugrönnum bensínbíll væri aftur á móti refsað með hærra eldsneytisverði. Menn geta jafnvel bætt þeirri breytu í jöfnuna að litla bensínbílnum deili hjón en í stóra Dieseltrukknum sé aldrei nema einn maður. Maðurinn á Dieseltrukknum gefur kannski frá sér fimmfalt meira af gróðurhúsalofttegundum en hvort hjónanna í litla bensínbílnum.

Það er tillaga Jóns Kaldals að maðurinn á Dieseltrukknum verði verðlaunaður sérstaklega. Eftir hverju er verið að bíða?

Í hádegisviðtali á Stöð 2 í gær sagði Kolbrún Halldórsdóttir þingmaður vinstri grænna að einkavæðing orkufyrirtækja hefði hvarvetna leitt til hærra orkuverðs. Nú má sjálfsagt togast á um þessa fullyrðingu en látum það eiga sig að þessu sinni. Hinu geta menn velt fyrir sér hvenær Kolbrún hafi orðið þeirrar skoðunar að hátt orkuverð væri slæmt. Vill hún nota ríkisvaldið til að halda orkuverði niðri og hvetja þar með til aukinnar neyslu? Vill hún ekki hærra verð fyrir íslenskar orkulindir? Telur hún íslenska náttúru kannski ofmetna? Er hún á móti einkavæðingu íslenskra orkufyrirtækja af því að þá þurfa álverin að greiða hærra orkuverð? Vill hún þá engin umhverfisgjöld á eldsneyti?