Föstudagur 13. júlí 2007

194. tbl. 11. árg.

M

Frjáls framlög einstaklinga og fyrirtækja til þróunaraðstoðar nýtast margfalt betur en ríkisframlög.

argir gera góðverk á kostnað annarra og ýmsir stjórnmálamenn eru í sérflokki að þessu leyti, enda í einstakri aðstöðu. Það er alþekkt, að stjórnmálamenn hneykslist á einhverju sem hátt ber í umræðunni um þær mundir og ákveði að setja fé í málefnið. Dæmi um það var skyndiákvörðun félagsmálaráðherra á dögunum um að leggja fram fé til að hækka laun fatlaðra ungmenna. Góðmennska af þessu tagi er þó ekki góðmennska í hefðbundnum skilningi og getur í sumum tilvikum jafnvel frekar verið sýndarmennska eða jafnvel eiginhagsmunagæsla. Oft fylgir góður hugur þó sjálfsagt einnig fjárútlátunum.

Góðmennska er allt annað og getur til að mynda átt við um það þegar menn gefa fjármuni eða vinnu sína í hljóði og án þess að hafa af því aðra hagsmuni en að líða betur. Sem betur fer er talsvert til af slíkri góðmennsku í heiminum eins og lesa má um í nýrri skýrslu, The Index of Global Philanthropy, frá Hudson stofnuninni. Í skýrslunni kemur fram að gjafir einkaaðila í þróuðum ríkjum til fólks í vanþróuðum ríkjum hafi aldrei verið meiri. Stundum mætti ætla að eina leiðin til að rétta fátækum hjálparhönd sé að ríkið sinni því en í Bandaríkjunum er framlag einkaaðila til að mynda 3,5-falt framlag ríkisins, sem sýnir tvennt. Annars vegar að framlag einkaaðila getur vegið mjög þungt og hins vegar að einkaaðilar gefa þeim mun meira sem efnahagurinn er betri og ríkið skilur meira eftir í vösum þeirra. Ef Bandaríkjamenn byggju við þyngri skattbyrði en þeir gera, meðal annars til að standa undir auknum framlögum ríkisins til vanþróaðra ríkja, þá hefðu þeir minna á milli handanna til að gefa sjálfir.

Bandaríkjamenn eru stundum gagnrýndir fyrir að vera ekki nógu gjafmildir en þegar gjafir þeirra eru bornar saman við gjafir annarra kemur annað í ljós. Bandaríska ríkið gefur að vísu „aðeins“ 0,22% af þjóðarframleiðslunni í þróunaraðstoð en eins og áður sagði er framlag einkaaðila margföld sú fjárhæð. Bandaríkjamenn sem heild ná því auðveldlega 0,7% markinu sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett sem markmið fyrir árið 2015.

En af því að framlag bandaríska ríkisins er stundum til umræðu er ekki úr vegi að nefna það sem fram kemur í skýrslunni, að framlagið hefur aldrei aukist jafn mikið og í tíð George W. Bush, ef undan er skilin forsetatíð John F. Kennedy. Framlag bandaríska ríkisins er líka meira en tvöfalt hærra en framlag japanska ríkisins, sem gefur næst mest, og ríflega fjórðungur af samanlögðu framlagi allra OECD-ríkjanna. Framlag bandaríska ríkisins er því umtalsvert, ólíkt því sem gjarnan er haldið fram.

Þegar framlög einkaaðila eru talin með þá er framlag Bandaríkjanna ekki aðeins hærri fjárhæð en hjá öðrum ríkjum, heldur eru Bandaríkin einnig meðal þeirra hæstu sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Framlag Bandaríkjanna er 0,98% af þjóðartekjum og aðeins sex ríki innan OECD verja hærra hlutfalli til þessa málaflokks. Þar er Svíþjóð fremst í flokki með 1,19%, en þar af er sænska ríkið með 0,94%. Einkaaðilar í Svíþjóð gefa því einungis 0,25% þjóðartekna til þróunarlandanna en einkaaðilar í Bandaríkjunum gefa 0,76%, eða ríflega þrefalt meira en Svíar.

Fleira er forvitnilegt í skýrslunni, til að mynda það að fjárframlög einkaaðila nýtast mun betur en fjárframlög ríkisins. Sem dæmi er tekið að ráðgjafar sem ríkið ræður til að starfa erlendis við þróunaraðstoð kosta þrefalt á við það sem sambærilegir ráðgjafar kosta þegar einkaaðilar eiga í hlut. Þeim sem hafa kynnst þróunaraðstoð kemur þetta sjálfsagt ekki á óvart en þetta styður óneitanlega þá skoðun að best fari á því að ríkið haldi að sér höndum í þessum málum og láti einkaaðilum þau eftir.