N ú hefur verið gerð á því könnun hvaða skoðun vinnuveitendur hafa á því að missa starfsmenn sína í fæðingarorlof mánuðum saman. Að vísu voru starfsmennirnir spurðir en niðurstaðan er engu að síður sú að vinnuveitendur eru lítt spenntir fyrir því að starfsmenn hverfi af vettvangi í allt að hálft ár. Ekki beint óvæntar niðurstöður. En þetta er eins og annað sem fæðingarorlofið átti að bylta þegar það varð að lögum árið 2000. Það helsta var auðvitað meintur munur á launum kynjanna. Samkvæmt mælingunum sem stuðningsmenn laganna vísuðu í hefur launamunurinn bara alls ekki haggast á þessu skeiði. Fæðingarorlofið hefur engin áhrif haft á launamuninn. Engin.
S töð 2 flutti frétt af því í gær að álftapar hefði „horfið“ með alla ungana sína af lóninu við Árbæjarstífluna í Elliðaánum. Töldu fréttamaðurinn og einhverjir nágrannar lónsins þetta mjög dularfullt atvik og hér hlyti að mega leita skýringa í einhverju illvirki mannsins. Enda vita allir að náttúran er alveg fyrirsjáanleg og breytist ekki nema maðurinn fremji eitthvert ódæði gegn henni. Að minnsta kosti virðist vægi þess sjónarmiðs að náttúran sé óútreiknanleg minnka til jafns við þorskkvótann.
F yrir nokkrum árum greiddu íslenskir og evrópskir skattgreiðendur nokkur hundruð milljónir króna til að aka mætti þremur vetnisstrætisvögnum um Reykjavík. Þegar vagnarnir komu til landsins voru ekki spöruð stóru orðin um hvílík framtíðartækni væri þar á ferð. Nú er auðvitað rétt að útiloka ekkert í því sambandi þótt efast megi um að opinberir aðilar eigi að leiða tækniþróun sem þessa. Nú eru vetnisvagnarnir hins vegar horfnir af götum borgarinnar og munu komnir þangað sem slík framtíðartækni nýtist best – á minjasafn.