![]() |
Laus og liðugur á mótorhjóli væri Ólafur Ragnar minna brotlegur við lögin en óspenntur í aftursæti limúsínu. Hvort ætli sé nú hættulegra? |
M argir hafa gaman af því þessa dagana að vekja athygli á því að Ólafur Ragnar Grímsson, íbúi Bessastaða, festi ekki á sig öryggisbelti þegar hann lét keyra sig um fyrir framan kvikmyndatökuvélar sjónvarpsstöðvanna. Tilgangur ökuferðarinnar var líklega að sýna landsmönnum að nýi Bessastaðabíllinn væri hverrar krónu virði og vissulega samgleðjast landsmenn Ólafi Ragnari að komast þægilega á milli staða. Annað hvort væri nú.
En í stað þess að sýna ánægju með bíl Bessastaða, þá hafa fjölmiðlamenn og aðrir allt í einu farið að fetta fingur út í að forsetinn fari ekki eftir lögum landsins. Lög um notkun bílbelta í aftursætum tóku raunar gildi í eftirminnilegri fjármálaráðherratíð Ólafs Ragnars, haustið 1990, en rúmum tveimur árum áður hafði farþegum í framsæti verið gert skylt að spenna belti. Ólafur Ragnar veit þess vegna vel af lögunum en þrátt fyrir það kýs hann að fara ekki eftir þeim. Og hann er ekki einn um að fara ekki eftir þessum lögum, fjöldi manna spennir ekki á sig bílbeltin, sér í lagi þegar ekið er stuttar vegalengdir, að ekki sé talað um ef dólað er um í aftursæti glæsikerru á fáförnum vegi.
Nú geta menn svo sem fundið að því að forsetinn hafi gerst brotlegur við lög en það er þó ekki hið alvarlega í málinu. Alvarlegast er að hér á landi séu í gildi slík lög. Nú munaði forsetann líklega ekkert um að spenna á sig beltið, en hann valdi að gera það ekki og það á að vera hans val. Hann á ekki að þurfa að þola að vera lögbrjótur fyrir vikið. Sama gildir vitaskuld um aðra menn, þeir eiga að fá að velja hvort þeir spenna á sig bílbelti eða sitja óspenntir.
Færa má fyrir því rök að langoftast sé skynsamlegt að spenna á sig bílbelti og óhætt er að mæla með að fólk geri það. Stundum er þó lítil ástæða til að spenna beltin og sumir menn kjósa þá að taka áhættuna enda meta þeir hana litla. Og stundum vilja menn líka taka áhættuna þó að þeir meti hana mikla. Svipaða sögu er að segja um margt annað í lífi fólks. Það ákveður að borða óhollan mat, fara illa klætt út að vetrarlagi, stundar hættulega íþrótt eða horfir á danskan lögguþátt í Ríkissjónvarpinu. Allt getur þetta sjálfsagt verið heilsuspillandi en fólk á ekki að þurfa að sæta því að þingmenn skipi því að hætta að gera eitthvað sem skaðar engan nema það sjálft.
Það má einnig benda á að til eru hættulegri aðferðir við að fara á milli tveggja staða en að sitja óspenntur í aftursæti á nýjum Bessastaðabíl. Það væri vafalítið talsvert hættulegra fyrir forsetann að ferðast um á mótorhjóli, en á þeim mega menn þó ferðast – og ekki aðeins óspenntir heldur líka án þess skjóls sem bíll veitir. Hvernig er hægt að halda því fram að eðlilegt sé að banna mönnum að vera óspenntir í bíl ef þeir mega ferðast um á mótorhjólum?
Það er löngu tímabært að afnema skylduna til bílbeltanotkunar. Hvernig væri að forsetinn beitti frægu lagasetningarvaldi sínu til að svo megi verða?