
Sem lesendum Vefþjóðviljans er kunnugt gaf Andríki á dögunum út ritið Löstur er ekki glæpur eftir bandaríska ævintýramanninn og hugsuðinn Lysander Spooner. Í ritinu ræðst Spooner af mikilli fimi gegn þeirri hugmynd að ríkið geti verið mamma okkar allra og refsað okkur fyrir ódyggðugt líferni; klám, drykkju, ofát, fjárhættuspil, reykingar eða hvaðeina sem forsjárhyggjumenn láta sér detta í hug að aðrir menn megi ekki stunda í friði. Hann gerir með öðrum orðum skýran greinarmun á löstum og glæpum. Lösturinn kemur í versta falli þeim er hann stundar í koll. Skilyrðið fyrir því að verk sé glæpsamlegt er að það gangi á rétt annars manns.
Í dagblaðinu Blaðinu 29. júní síðastliðinn mátti sjá mynd með frétt úr héraðsdómi Reykjaness en þar er réttað yfir Ásgeiri Davíðssyni eiganda skemmtistaðarins Goldfinger og starfsmanni hans. Á Goldfinger er boðið upp á nektardans en Ásgeir sætir ákæru fyrir að hafa einnig boðið upp á einkadans í „lokuðu rými“. Ákæruvaldið virðist hafa áhyggjur af því að of fáir hafi notið nektardansins. Á myndinni má sjá Brynjar Níelsson lögmann og verjanda Ásgeirs bregða riti Spooners á loft, líkt og hann sé að skjóta skildi fyrir Ásgeir gegn atlögu ríkisvaldsins. Í myndatexta Blaðsins sagði: „Brynjar Níelsson og Ásgeir Davíðsson, eigandi Golfingers, reyna að gefa réttinum ráð.“
Þegar Larry Flint útgefandi klámblaðsins Hustler stóð í stappi við yfirvöld vegna útgáfunnar sagði hann við blaðamenn að auðvitað ættu þeir að styðja sig í baráttunni. Á meðan hann fengi að gefa Hustler út gætu þeir verið vissir um að fá að gefa sín blöð út í friði fyrir stjórnvöldum. Þótt ekki væri nema af þessari praktísku ástæðu ættu allir sæmilega vakandi menn að styðja rétt Ásgeirs til að reka nektardansstað og rétt dansaranna til að vinna fyrir sér með því að fækka fötum, hvort sem er fyrir einn eða fleiri gesti. Bannsinnar verða aldrei sælir með sinn hlut. Ef þeir ná að stöðva reksturinn á Goldfinger munu þeir umyrðalaust snúa sér að einhverju okkar hinna sem horfðum aðgerðalaus á atvinnufrelsi dansaranna verða að engu.
Frelsið glatast sjaldan allt í einu.