Mánudagur 9. júlí 2007

190. tbl. 11. árg.

H vað ætli menn segðu, ef menntastofnun sem nýtur verulegra opinberra framlaga, tæki upp á því að loka hluta námskeiða sinna fyrir öðru kyninu? Ef Verzlunarskóli Íslands efndi til sérstaks hagfræðináms, aðeins fyrir stráka. Ef nágrannar þeirra í HR neituðu að kenna konum stjórnskipunarrétt. Eða ef sú merka menntastofnun, Háskólinn á Bifröst, setti á námskrá sína sérstakt ellefu vikna rekstrarnám, þar sem kennd yrðu ýmis grundvallaratriði eins og bókhald, skattamál, fjármál, rekstrarhagfræði og fleira – en byði eingöngu konum að sækja þetta námskeið?.

Nú kemur það í ljós, því þetta síðasta er einmitt það sem nú hefur gerst. Þeir á Bifröst eru búnir að auglýsa námskeið eins og þarna var lýst og þar verður karlmönnum ekki heimill aðgangur. Engin ástæða er til að efast um að opinber viðbrögð við því verða nákvæmlega eins og ef einhver annar skóli hefði auglýst burðarþolsverkfræði fyrir karlmenn.

M argir hafa hrósað sjávarútvegsráðherra sérstaklega fyrir hugrekki hans, þar sem að hann hafi gert tillögu hafrannsóknarstofnunar um aflamark að ákvörðun sinni. En hvað er fólgið í þeirri ákvörðun? Ráðherrann lætur bara starfsmenn hafrannsóknarstofnunar ráða þessu – og ef illa fer, það er að segja ef að þorskstofninn heldur áfram að minnka eftir því sem tillögum hafrannsóknarstofnunar er dyggilegar fylgt, þá kennir enginn ráðherranum um: hann fór bara að ráðum færustu vísindamanna.

En auðvitað er ákvörðun ráðherrans mannleg og skiljanleg. Það hefði verið mikil pólitísk áhætta fyrir hann að fara ekki eftir tillögu þeirra á hafrannsóknarstofnun. Ef að ráðherrann hefði leyft meiri veiðar, og svo hefði allt farið í vaskinn, þá myndu menn benda á hann næstu hundrað árin og æpa: þarna er þessi sem kláraði þorskinn. Núna getur þorskstofninn auðvitað hrunið eftir sem áður, en enginn mun þó kenna vesalings sjávarútvegsráðherranum um það.

Menn geta líka velt því fyrir sér hver niðurstaða ráðherrans hefði verið ef hér væri 5 – 10% atvinnuleysi og þingkosningar á næsta ári. Það vekur svo upp spurninguna: hvers vegna ákveður einhver ráðherra heildaraflann? Hvers vegna koma þingflokkar saman til að ræða og togast á um þetta mál? Hvers vegna er þessi ákvörðun ekki tekin af þeim sem mestra hagsmuna eiga að gæta í málinu? Eigendur veiðiréttarins hafa mestan hag af því að veiðin sé innan skynsamlegra marka og ættu að taka þessa ákvörðun. Rétt eins og eigendur laxveiðiréttar ákveða hve margar stangir eru bleyttar í ám og vötnum þeirra.

Þætti engum undarlegt ef frétt á borð við þessa birtist?