Helgarsprokið 8. júlí 2007

189. tbl. 11. árg.

Þ ótt málflutningur vinstrimanna hafi breyst töluvert á liðinni öld eftir því sem skipbrotum hugsjóna þeirra hefur fjölgað, hefur skrímslafræðin í boðskap þeirra haldist lítt breytt. Bandaríkin og það sem þau standa fyrir hefur alltaf verið aðal óvinurinn sem táknmynd kapítalisma og einstaklingsfrelsis.

Í Kalda stríðinu reyndi áróðursvél Sovétmanna linnulítið að sverta Bandaríkin til að draga athyglina frá vonleysinu heima fyrir. Bandaríkin gengu líka á þessum tíma í gegnum erfitt skeið þar sem endanlega var gert upp við arfleið þrældóms svartra manna. Til marks um þær breytingar sem áttu sér stað þá sögðust 44% hvítra sem spurðir voru í könnun Gallups árið 1958 að þeir myndu flytja ef svört fjölskylda flyttist í hverfi þeirra, þetta hlutfall var komið niður í 14% árið 1978. Átökin sem hrundu þessari viðhorfsbyltingu af stað í Bandaríkjunum og hafa gert Bandaríkin fyrirmynd flestra annarra ríkja hvað varðar sambúð ólíkra kynþátta voru blásin upp sem sjúkleikamerki samfélags en ekki lækning, eins og reyndin varð.

Hvers kyns skrípamyndir eru dregnar upp af Bandaríkjunum í fjölmiðlum daglega og stjórnmálamenn nota orðið „amerískt ástand“ sem skammaryrði. Gjarnan eru þetta stjórnmálamenn af svokallaðri 68 kynslóð – þeirri sem telur sig hafa fundið upp hjólið. Amerískt ástand á þá að vera til marks um útbreidda fátækt og ójöfnuð í Bandaríkjunum ásamt vinnuþrælkun og skorti á aðgangi að heilbrigðisþjónustu.

„Átökin sem hrundu þessari viðhorfsbyltingu af stað í Bandaríkjunum og hafa gert Bandaríkin fyrirmynd flestra annarra ríkja hvað varðar sambúð ólíkra kynþátta voru blásin upp sem sjúkleikamerki samfélags en ekki lækning, eins og reyndin varð.“

Nú nýverið gaf danski stjórnmálafræðingurinn Henrik Fogh Rasmussen, sem búsettur er í Bandaríkjunum, út ritið Amerikanske Tilstande þar sem rekur og hrekur nokkrar goðsagnir evrópskra kjaftastétta um Bandaríkin.

Danmörk er með ríkari löndum heims og þjóðarframleiðsla á mann áþekk og á Íslandi. Samt sem áður er verg landsframleiðsla á mann um 21% hærri í Bandaríkjunum en í Danmörku og í níu ríkustu ríkjum Bandaríkjanna eru tekjur á mann meira en 50% hærri en í Danmörku. Í 41 af 50 ríkjum Bandaríkjanna eru þjóðartekjur á mann hærri en í Danmörku, sé litið á einkaneyslu er munurinn á ríkjunum enn meiri. Árið 2002 var einkaneysla á mann um 96% hærri í Bandaríkjunum en í Danmörku.

Þessi munur sem er á Bandaríkjunum og Evrópu er ekki að minnka, þvert á móti er hagvöxtur í Bandaríkjunum hærri en í Evrópu, þrátt fyrir að auðveldara sé að halda uppi hagvexti með því að flytja inn tækni og fjármagn heldur en að ryðja brautina.

Það er ekki nein ein ástæða fyrir því að Bandaríkin hafa hærri þjóðartekjur á mann, heldur er árangur þeirra betri á öllum sviðum sem ákvarða þessa stærð en hjá Evrópubúum. Atvinnuleysi er minna og fleiri taka þátt í atvinnulífinu, framleiðni er meiri og vinnustundir fleiri.

Gagnrýnendur Bandaríkjanna hafa gert það tortryggilegt hve vinnustundir eru margar í Bandaríkjunum, um það bil jafn margar og á Íslandi. Þá er hins vegar ekki tekið tillit til vinnustunda inni á heimilunum, það er venjulegra heimilisstarfa. Rannsókn á vegum Seðlabankans í Boston sýndi að árunum 1965-2003 fækkaði unnum stundum á heimilum að meðaltali um 5,5 á viku. Hluti af skýringunni er aukin atvinnuþátttaka kvenna en á tímabilinu fækkaði stundunum sem konur vörðu í heimilisstörf að meðaltali um 12,5 á meðan stundum þeirra utan heimilisins fjölgaði að meðaltali um 6. Hjá karlmönnum var þróunin á hinn veginn, karlmenn vörðu að meðaltali 11,5 stundum minna á vinnumarkaðinum á viku en fjórum stundum meira inni á heimilunum.

Henrik Fogh Rasmussen bendir á að sambærilegar rannsóknir frá Svíþjóð og Þýskalandi bendi ekki til þess að heildarvinnutími sé meiri í Bandaríkjunum en Evrópu enda geti heimili í Bandaríkjunum keypt sér ýmis þægindi sem létta þeim störfin en Evrópubúar hafa síður efni á.

Það er einnig athyglisverður kafli um fátækt í bókinni. Í ljós kemur að 10% tekjulægstu í Bandaríkjunum hafa áþekk kjör og hinir 10% tekjulægstu í Danmörku og Svíþjóð og að fjöldi heimilislausra sem hlutfall íbúa er áþekkt í Danmörku og Bandaríkjunum. Henrik Fogh Rasmussen rekur hvernig fátæktarhverfi hafa verið á undanhaldi undanfarinn áratug og aðgangur að heilbrigðisþjónustu mun greiðari í Bandaríkjunum en oft er látið í veðri vaka, auk þess sem biðtímar eru styttri og þjónusta og tækni betri en í Evrópu.

Þær fórnir sem Evrópubúar hafa fært með minni hagvexti fyrir sósíalísk hagkerfi skila sér því ekki í betri kjörum fólks.