Helgarsprokið 15. júlí 2007

196. tbl. 11. árg.

Þ að er í raun alveg ótrúlegt hvað ýmsum sem telja sig umhverfisverndarsinna hefur tekist að sneiða hjá allri vitrænni umræðu um umhverfismál. Boðskapur þessa fólks verður að trúarsetningum og þeir sem leyfa sér að efast um boðskapinn eru stimplaðir sem hið versta fólk. Hér er Vefþjóðviljinn ekki að vísa til nýlegra ummæla Andra Snæs Magnasonar, sem af einhverjum ókunnum ástæðum var fenginn af Ríkissjónvarpinu til að tjá sig um yfirtöku Rio Tinto á Alcan. Þar tók rithöfundurinn þó ekki dýpra í árinni en svo að telja stjórnendur þess fyrirtækis „versta fólk í heimi“.

Þegar fréttamaðurinn reyndi að spyrja hvaða hræðilegu glæpir það væru sem fyrirtækið væri ábyrgt fyrir svaraði Andri Snær því til að það væri engin þörf á að nefna sérstök dæmi, menn gætu bara valið hvaða óhæfu sem er og þá væri alveg öruggt að Rio Tinto hefði framið slíkan gjörning.

„…til að koma pappírnum til endurvinnslu þarf að fara með hann nokkrar bílferðir auk siglingarinnar til Svíþjóðar; af heimili á söfnunarstað, þaðan í pökkun upp í Gufunes, niður að skipshlið í gámi og svo þarf væntanlega að aka með gáminn í hina sænsku endurvinnslustöð. Auk þess tekur söfnun að þessu tagi á heimilum pláss innan dyra hjá fólki og ekki er fermetrinn ókeypis í íslensku íbúðarhúsnæði nú um stundir. Hvergi er rætt um kostnaðinn eða koltvísýringsútblásturinn af öllu tilstandinu og hvort hægt væri að verja því fé betur í annars konar umhverfisvernd eða bara í eitthvað allt annað.“

Hvað um það þá vekur þetta viðtal upp þá spurningu hve margt og mikið virðist vera hægt að segja án ábyrgðar. Sumir láta sér ekki heldur nægja að segja hlutina heldur krefjast aðgerða, og þá yfirleitt af einhverjum öðrum en sjálfum sér. Gott dæmi um þetta er allt hafaríið í kringum endurvinnsluna. Opinber fyrirtæki og stofnanir hafa lagt í kostnaðarsamar auglýsinga- og áróðursherferðir til að fá fólk til að flokka sorp og flytja á endurvinnslustöðvar.

Nú er Vefþjóðviljanum auðvitað ekki í nöp við það að fólk hafi hreint í kringum sig og leitist við að menga umhverfi sitt sem minnst. En það er óneitanlega furðulegt að það eru fáir sem hafa leyft sér að spyrja til hvers verið er að standa í allri þessari endurnýtingu. Dæmi eru um að foreldrar barna á leikskólum hafi fengið áróður um endurvinnslu og ekki er langt síðan Ríkissjónvarpið sýndi þætti í barnatíma undir nafninu Spírall þar sem að sögn aðstandenda þáttanna var markmið þeirra að búa til litlar „umhverfislöggur“ á heimilum landsmanna. Þannig að langt er nú seilst í að vinna málstaðnum brautargengi. En hvers vegna er verið að þessu? Ef endurvinnsla sorps er arðbær ætti ekki að þurfa slíkan áróður þar sem fyrirtæki og heimili sæju sér hag í að eiga viðskipti með sorp. Endurvinnslufyrirtæki myndu bjóðast til að kaupa sorp af heimilunum og heimilin myndu selja þeim sorpið til endurvinnslu, -svo einfalt er það. Það er með öðrum orðum enginn markaðsbrestur sem kemur í veg fyrir að það sem hagkvæmt er að endurnýta verði endurnýtt á frjálsum markaði. Endurvinnsla hefur raunar verið stunduð um aldir án þess að boð komi um það að ofan.

Ástæðan fyrir öllum áróðrinum er trúlega sú að það er engin krefjandi nauðsyn að standa í allri þessari endurvinnslu. Á heimasíðu Sorpu, sem er í eigu sveitarfélaga, er hvergi fjallað um kostnað og ábata af öllu þeirra starfi. Sé litið undir flokkinn spurningar og svör er reyndar fjallað um ávinning af pappírsendurvinnslu. Þar er spurt hvort það borgi sig að safna pappír saman á Íslandi og flytja hann með skipi til Svíþjóðar þar sem hann er endurunninn. Ekki stendur á svarinu því fullyrt er að þetta borgi sig, – það er að segja mælt í koltvísýringsútblæstri. Um það atriði má raunar deila því til að koma pappírnum til endurvinnslu þarf að fara með hann nokkrar bílferðir auk siglingarinnar til Svíþjóðar; af heimili á söfnunarstað, þaðan í pökkun upp í Gufunes, niður að skipshlið í gámi og svo þarf væntanlega að aka með gáminn í hina sænsku endurvinnslustöð. Auk þess tekur söfnun að þessu tagi á heimilum pláss innan dyra hjá fólki og ekki er fermetrinn ókeypis í íslensku íbúðarhúsnæði nú um stundir. Hvergi er rætt um kostnaðinn eða koltvísýringsútblásturinn af öllu tilstandinu og hvort hægt væri að verja því fé betur í annars konar umhverfisvernd eða bara í eitthvað allt annað.

Annað sem gleymist að taka með í reikninginn er kostnaðurinn við þetta allt saman fyrir heimilin. Það virðist vera sem þeir sem fyrir þessu standa telji tíma fólks ókeypis. Það að flokka heimilissorp, pakka því og keyra með það á endurvinnslustöðvar kostar bæði tíma og peninga. Sá tími sem fer í þessa iðju verður ekki notaður í annað, til dæmis að sópa stéttina fyrir framan húsið sitt eða slá blettinn. Það væri áhugavert að sjá eitthvað mat á þessum kostnaði. En það þorir enginn að hreyfa andmælum við þessu öllu saman. Ef sveitarfélög hvetja íbúana til að flokka sjálfir sorpið og koma því á endurvinnslustöðvar ætti þá ekki útsvarið að lækka þar sem þjónustan við íbúana hefur minnkað? Einnig má spyrja sig hvort ekki sé einmitt heppilegt að nota heimilissorp sem landuppfyllingar, eins og reyndar hefur verið gert á Íslandi og víðar um marga áratugi og gefist vel. Nei, þeir sem hreyfðu slíkum málum yrðu trúlega kallaðir umhverfissóðar. Gott ef þeir yrðu ekki flokkaðir með „verstu mönnum í heimi“?