Miðvikudagur 30. maí 2007

150. tbl. 11. árg.

F yrrverandi félagi í íslömsku hryðjuverkasamtökunum Jemaah Islamiya, dr. Tawfik Hamid, ritaði grein í The Wall Street Journal á föstudag. Meðal fyrrum félaga Hamids í þessum samtökum má nefna mannvininn Al Zawaherri, næstráðanda í Al Qaeda, sem gefur líklega nokkra hugmynd um samtökin. Ólíkt flestum félögum sínum í þessum samtökum þá hóf Hamid að boða frið í stað haturs í ræðum sínum í moskum múslima og fyrir vikið varð hann skotmark þessara fyrrum félaga sinna og hraktist í framhaldinu til Vesturlanda. Hann hefur síðan talað gegn róttækum múslimum og meðal annars skrifað bók um það efni, The roots of jihad, sem kom út í fyrra.

Í grein sinni í WSJ fjallar Hamid um „Islamophobia“, hræðslu við og fyrirlitning á öllu sem tengist íslam, og gæti útlagst „íslamsfælni“. Hann segir samtök múhameðstrúarmanna reglulega saka þá sem ekki eru múslimar um þessa fælni og ráðherrar frá einum slíkum ríkjasamtökum hafi kallað „íslamsfælni“ „verstu birtingarmynd hryðjuverka“. En það eru ekki aðeins þeir sem ekki eru múslimar sem sakaðir eru um „íslamsfælni“, umbótasinnaðir múslimar fá gjarnan sama stimpil að sögn Hamids, þeirra á meðal hann sjálfur.

Hann veltir því upp hvort ekki sé ástæða fyrir múslima að líta sér nær og skoða hvort sökin á hræðslu fólks á Vesturlöndum við íslam liggi ekki ef til vill hjá múslimum. Hamid nefnir nýlega könnun sem sýni að ungir múslimar í Bandaríkjunum séu mun líklegri en þeir sem eldri eru til að segja að sjálfsmorðsárásir til varnar íslam geti í það minnsta stundum verið réttlætanlegar. Um fjórðungur bandarískra múslima undir þrítugu sé þessarar skoðunar. 28% þeirra telji að múslimar hafi ekki staðið fyrir hryðjuverkaárásunum á New York 11. september 2001 og 32% neiti að svara spurningum um það mál. Og Hamid bendir á að samkvæmt sömu könnun séu 2,35 milljónir múslima í Bandaríkjunum, sem þýði að töluverður fjöldi manna í Bandaríkjunum telji sjálfsmorðsárásir stundum réttlætanlegar.

Hamid segir að ráðast verði að rót vandans, ekki dugi að fást við einkennin. Múslimar verði að hætta að kenna að það sé í lagi að drepa þá sem ganga af trúnni. Íslömsk yfirvöld verði að útvega kennslubækur sem banni fjölkvæni og misþyrmingar á konum. Viðurkenndar íslamskar kennisetningar ættu að hans sögn að taka harða afstöðu gegn þrælkun og nauðgun kvenfanga í stríði. Og múslimar ættu að kenna að vitnisburður kvenna fyrir rétti sé jafngildur vitnisburði karla og að konum ætti ekki að refsa fyrir að giftast þeim sem þær vilja eða klæða sig eins og þær vilja.

„Íslamsfælni“gæti að sögn Hamids heyrt sögunni til ef fjöldi múslima mundi koma saman á götum úti og mótmæla af sama krafti myndböndum, sem sýna saklaust fólk hálshoggið, og skopmyndum af Múhameð. Þessi fælni gæti líka horfið ef múslimar mundu skilyrðislaust og opinberlega krefjast þess að sharia lögin hefðu enga lagalega stöðu í frjálsum lýðræðisríkjum.

Vitaskuld er það sanngjörn krafa að hvorki múslimar né aðrir beri í bætifláka fyrir morð á saklausum borgurum, réttlæti útbreiðslu kenninga um skipulega kúgun kvenna eða láti eins og Vesturlandabúar beri einhverja ábyrgð á voðaverkum öfgafullra múslima. Og allra best væri ef fólk héldi sig ekki aðeins til hlés, heldur segði skoðun sína á þessum illmennum eins og öðrum.