Á nýhöfnu kjörtímabili mun hver fjögurra manna fjölskylda greiða stjórmálaflokkunum 25 þúsund krónur í félagsgjöld. Í fréttum Ríkisútvarpsins kom fram að flokkarnir muni fá samtals tæpar 500 milljónir á ári frá skattgreiðendum. Stór hluti þessarar upphæðar er það gjald sem kjósendur eru látnir greiða vegna nýlegs samkomulags stjórnmálaflokkanna um að setja bönd á frjáls framlög til stjórnmálastarfsemi.
Um leið og þessi tíðindi berast gerir Transparency International það kunnugt enn einu sinni að Ísland sé með síst spilltu ríkjum í veröldinni. Það er kannski engin ástæða til að trúa skoðun þessarar stofnunar á stöðu Íslands hvað þetta varðar. En það er svo sem ekkert sem bendir til annars en að mat hennar á Íslandi sé raunhæft.
En til hvers var þá verið að setja hömlur á frjáls framlög til stjórnmálastarfsemi? Þegar Geir H. Haarde forsætisráðherra mælti fyrir frumvarpi til laga um það efni 8. desember síðastliðinn sagði hann meðal annars:
Það er raunar ánægjulegt eins og þingmenn þekkja að alþjóðlegar kannanir, til dæmis síðastliðin sex ár, hafa allar verið einróma um að spilling í stjórnmálalífi og innan stjórnkerfisins þrífist ekki á Íslandi. Þetta hafa ávallt verið gleðilegar fréttir og það er skylda okkar að tryggja að þannig verði það áfram á Íslandi. Þær breytingar sem orðið hafa í þjóðfélaginu á undanförnum áratugum hafa dregið stórlega úr hættu á spillingu tengdri stjórnmálastarfsemi. Viðskiptalífið hefur verið leyst úr viðjum leyfisveitinga, mannréttindaákvæði stjórnarskrár verið endurskoðuð og stjórnsýslulög og upplýsingalög hafa verið sett sem stuðla að meiri virðingu fyrir jafnræði borgaranna og auknu gagnsæi. Stjórnmálamenn hafa því æ færri tækifæri til að beita áhrifum sínum til að mismuna fólki eða fyrirtækjum. |
Þessi lýsing forsætisráðherra er ekki fjarri lagi. Er eitthvað í aðsigi sem bendir til að þessari jákvæðu þróun verði snúið við? Jú Samfylkingin er svo sem komin til valda en það lá ekki fyrir þegar lögin voru samþykkt síðasta vetur.
Og samstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, tvegga stærstu flokkanna, þýðir að stjórnarmeirihlutinn hefur ekki aðeins framkvæmdavaldið á sínum snærum heldur fær hann einnig stærstan hluta ríkisstyrksins, því styrkurinn er háður stærð flokkanna.
Þegar á þetta verður bent munu menn auðvitað ekki draga úr ríkisstyrkjunum til stjórnarflokkanna heldur auka þá til stjórnarandstöðunnar. Um það hefur einn stjórnarþingmaður þegar gert tillögu í blaðagrein. Það þurfti ekki einu sinni stjórnarandstöðuþingmann til. Lækningin á meinsemdinni sem ríkisstyrkirnir valda er auðvitað meiri ríkisstyrkir.