Fimmtudagur 31. maí 2007

151. tbl. 11. árg.

M eira um nýju ráðherrana?
 

  • Af hverju ætli Björgvin G. Sigurðsson hafi orðið viðskiptaráðherra á vegum Samfylkingarinnar en ekki Lúðvík Bergvinsson? Af því að Björgvin gersigraði Lúðvík í prófkjörinu í suðurkjördæmi, svarar líklega einhver. Það trompar nú líklega það að Lúðvík hefur mun fremur en Björgvin verið talsmaður Samfylkingarinnar í málum sem heyra undir viðskiptaráðuneytið, eða hvað? En af hverju í ósköpunum er þá Þórunn Sveinbjarnardóttir orðin umhverfisráðherra, hún sem varð þriðja í prófkjöri Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi? Af hverju er Þórunn tekin fram fyrir Gunnar Svavarsson og Katrínu Júlíusdóttur – með þeirri röksemd að hún hafi svo óskaplegt vit á umhverfismálum – en samsvarandi rök svo ekki notuð fyrir Lúðvík Bergvinsson gegn Björgvini G. Sigurðssyni? Ekki getur verið að Lúðvík sé ekki gömul kvennalistakona?
     
  • Ætli Björgvin G. Sigurðsson telji að íslenskt viðskiptalíf hafi ekki staðið sig í stykkinu undanfarin ár? Í sjónvarpsviðtali í vikunni taldi hann koma mjög sterklega til greina að setja lög til að taka fram fyrir hendurnar eigendum fyrirtækja þegar kemur að því að velja fólk í stjórnir þeirra. Björgvin vill fá færri karla og fleiri konur í stjórnir fyrirtækjanna og hann vill breyta lögum til að þvinga þennan vilja sinn fram. Þykir viðskiptaráðherranum kannski að íslenskum fyrirtækjum sé svo illa stjórnað að ríkið verði að breyta stjórnarmönnum þeirra með valdi?
     
  • En ekki er allt slæmt sem hefur komið frá viðskiptaráðherranum nýja. Fyrir ári beitti hann sér kröftuglega gegn lagafrumvarpi sem bannaði eigendum veitingahúsa að leyfa reykingar í eigin húsum. Björgvini þótti þessi forsjárhyggja ganga allt of langt og hafði um hana hörð orð. Ásamt tveimur öðrum þingmönnum, þeim Birgi Ármannssyni og Jóni Gunnarssyni, greiddi Björgvin svo atkvæði gegn frumvarpinu og fékk hrós fyrir, meðal annars í Vefþjóðviljanum. Stuðningsmenn eignarréttar og sjálfsábyrgðar hljóta að mega binda vonir við þá staðreynd að viðskiptaráðherra landsins er þessarar skoðunar og ættu að geta treyst því, að ráðherrann muni nú, innan og utan ríkisstjórnar, berjast fyrir því að atlagan að eignarréttinum gangi til baka. Ekki mun standa á þessu blaði að styðja Björgvin í þeirri baráttu.
     
  • Af hverju ætli enginn hafi spurt Ólaf Ragnar Grímsson að því hvers vegna hann hafi valið þá ráðherra til starfa sem nú eru sestir að völdum? Af hverju hefur enginn spurt Ólaf hvers vegna hann hafi til dæmis ákveðið að gera Þórunni Sveinbjarnardóttur að ráðherra en ekki Katrínu Júlíusdóttur? Og nei, Vefþjóðviljinn er ekki genginn af vitinu. En sumir eru svo gjarnir á því að misskilja orð stjórnarskrárinnar, þar sem hún segir að „forseti Íslands“ geri þetta eða hitt, veiti embætti, staðfesti lög, veiti uppreisn æru, leggi fram lagafrumvörp og svo framvegis og svo framvegis. Af og til gerist það nefnilega að einhver talar opinberlega eins og hann haldi að forsetinn hafi eitthvað persónulega um þessar ákvarðanir að segja. Í ljósi þessa sígilda misskilnings þá hefði ekki verið úr stíl ef einhver héldi að það hefði verið Ólafur Ragnar Grímsson sjálfur sem valdi sér tólf spræka menn til ráðherradóms.