Miðvikudagur 23. maí 2007

143. tbl. 11. árg.

Ámorgun lýkur 12 ára stjórnarþátttöku Framsóknarflokksins. Framsóknarmenn hafa oft setið í ríkisstjórn. Aldrei hefur þátttaka þeirra þó skilað jafn góðum árangri fyrir landsmenn en jafn snautlegri útkomu fyrir flokkinn sjálfan. Það er áhugaverð þversögn. Nema líklegir kjósendur Framsóknarflokksins séu almennt á móti því að hagur landsmanna vænkist, skattar lækki, hömlum sé létt af atvinnulífi og ríkisfyrirtæki seld mönnum sem hafa áhuga og hag af því að reka þau vel. Skýringanna á óförum flokksins í kosningunum á dögunum verður því að leita innan flokksins sjálfs og kannski að hluta í því að kjósendum þótti þeir ekki hafa haft erindi sem erfiði þegar flokkurinn var flengdur í borgarstjórnarkosningum fyrir ári eftir 12 ár í R-listasamstarfi með Alfreð Þorsteinsson sem aðalleikara.

Framsóknarflokkurinn má alveg eiga það að hann á þátt í hinum miklu breytingunum sem gerðar voru á íslensku efnahagslífi og lögðu grunninn að mestu hagsæld Íslendinga. Hann tók þátt í að lækka skatta á fyrirtæki. Hann tók þátt í verulegri lækkun á tekjuskatti einstaklinga og afnámi eignarskatts. Hann tók þátt í einkavæðingu banka og símafyrirtækja. Hann á stóran þátt í því að Íslendingar búa við hagkvæmasta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi. Sumt af þessu hefur samstarfsflokkur hans á þessum 12 árum þurft að sannfæra Framsóknarflokkinn um að væri rétt. En það hafðist þó. Á sama tíma voru vinstri flokkarnir harðir á móti öllum þessum málum. Nú kemur annar þeirra í ríkisstjórn og mun njóta þessara verka ríkisstjórna síðustu 12 ára og að skuldir ríkissjóðs hafa verið greiddar niður.

Ífréttum í gær var enn eitt átakið sett í gang til að fá fólk til að safna dagblöðum saman í stað þess að henda þeim með öðru heimilissorpi. Til að kenna almenningi réttu handtökin sýndi fréttamaður Ríkissjónvarpsins myndir af stórum sekk í anddyri fjölbýlishúss með þeim orðum að þegar hann yrði fullur af dagblöðum og pappír mætti fjarlægja hann með „einu handtaki“. Auðvelt og þægilegt.

Hann gleymdi hins vegar að sýna að aka þarf með sekkinn út á gámastöð og sturta úr honum í þar til gerðan dagblaðagám. Þennan gám flutti stór trukkur á svæðið og mun einnig fjarlægja gáminn þegar hann fyllist. Þá verður pappírinn fluttur í gegnum bæinn öðru sinni og upp í Gufunes. Þar er pappírinn pressaður og vírbundinn áður en hann fer sína þriðju ferð um bæinn og niður á hafnarbakka þar sem hann fer um borð í skip til Svíþjóðar. Þar tekur sænski endurvinnsluiðnaðurinn við honum.

Eru menn alveg vissir um að þetta umstang sé betra fyrir umhverfið en að pappírinn fari bara sömu leið og annað heimilissorp? Eða þorir enginn að spyrja?