Fimmtudagur 24. maí 2007

144. tbl. 11. árg.

Þ að er engin spurning að Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður Sjálfstæðisflokksins fær mikið tækifæri til að láta til sín taka þegar hann tekur við lyklunum í heilbrigðisráðuneytinu. Ráðuneytið hefur verið undir stjórn vinstriflokkanna í tvo áratugi og verkefnin sem bíða því bæði mörg og mikilvæg. Þar liggja stærstu tækifærin á Íslandi í dag til að auka frelsi og draga úr miðstýringu. Það er til að mynda alveg rakið að heilsugæslan verði boðin út eins og hún leggur sig. Þeir sem kynnst hafa þjónustu einkarekinnar heilsugæslu vita hver munurinn er á þjónustu hennar og hinnar ríkisreknu. Hann er til dæmis sá að bið eftir tíma hjá heimilislækni er 5 tímar en ekki 5 dagar.

Alls kyns önnur læknisverk og heilbrigðisþjónustu má einnig bjóða út og skapa þannig skilyrði fyrir samkeppni, nýsköpun og hagræðingu.

Nýr samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur gefið til kynna á undanförnum árum að hann geti vel hugsað sér að dregið verði úr miðstýringu í heilbrigðiskerfinu. Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar ber með sér að flokkarnir ná ágætlega saman um þessi mál. Í kafla hennar um heilbrigðismál segir meðal annars:

Kostnaðargreina á heilbrigðisþjónustuna og taka upp blandaða fjármögnun á heilbrigðisstofnunum þar sem fjármagn fylgir sjúklingum. Þannig fái heilbrigðisstofnanir fjármagn í samræmi við þörf og fjölda verka. Skapað verði svigrúm til fjölbreytilegri rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu, m.a. með útboðum og þjónustusamningum, en jafnframt tryggt að allir hafi að henni jafnan aðgang, óháð efnahag.