Mánudagur 30. apríl 2007

120. tbl. 11. árg.

Morgunblaðið sagði frá því í Reykjavíkurbréfi á laugardaginn að Samfylkingarmenn hefðu þrýst á netútgáfu blaðsins að fjarlægja fréttir af þeim fábrotnu opnu umræðum sem þó hefðu orðið á landsfundi Samfylkingarinnar. Þótti blaðinu þetta segja nokkuð merkilega sögu um flokkinn sem boðaði samræðustjórnmál.

Viðbrögð annarra fjölmiðla við þessum fréttum Morgunblaðsins voru á margan hátt dæmigerð. Þau urðu nákvæmlega engin. Ekki einn einasti fjölmiðill sagði frá þessu, enginn kallaði á „sérfræðing í fjölmiðlum“ eða annars konar „álitsgjafa“. Svanur Kristjánsson var ekki ræstur út til að upplýsa að alls staðar þar sem hann þekkti til væru allir hlutaðeigandi búnir að segja af sér. Engum fjölmiðli þótti athyglisvert að stjórnmálaflokkur hefði þrýst á frjálsan fjölmiðil að segja ekki frá opnum umræðum á landsfundi sínum.

Hvernig halda menn að íslenskir fjölmiðlar hefðu látið ef annar stjórnmálaflokkur hefði átt í hlut? Mætti Vefþjóðviljinn stinga upp á því, að þeir sem eiga skæri og UHU-límstifti, klippi orðið „Samfylkingar“ úr úr niðurlagi Reykjavíkurbréfsins og setji í staðinn nafn annars íslensks stjórnmálaflokks, og reyni svo að ímynda sér algert áhugaleysi allra annarra fjölmiðla á málinu.

Sennilega hefði þá ekki staðið á fréttaflutningi og útköllun álitsgjafa. Alls kyns „fræðingar“ hefðu verið sóttir og látnir vitna um hversu alvarlegt væri ef stjórnmálaflokkur reyndi að stjórna umfjöllun fjölmiðla um sig. Alvarlegir þingmenn hefðu spurt hvað annað flokknum hefði þá tekist að fela – og hefðu krafist rannsóknar. Meira að segja Ríkissjónvarpið hefði sennilega tekið sér stutt hlé frá umfjöllun sinni um ríkisborgararétt tengdadóttur Jónínu Bjartmarz, til að skjóta Birgi Guðmundssyni á Akureyri inn.

Nú má auðvitað vel vera að frásögn Morgunblaðsins af tilraunum Samfylkingarinnar til að stöðva fréttir af landsfundi sínum séu orðum auknar eða misskilningur. En áhugaleysi allra annarra fjölmiðla á málinu er samt fyrir það. Enginn þeirra segir frá því, enginn spyr Samfylkingarmenn eða blaðamenn Morgunblaðsins nánar. Ekki aukatekið orð.

Þegar skammt er til kosninga og fólk þarf að reiða sig á fréttir fjölmiðla af mönnum og málefnum, þá skipta vinnubrögð fjölmiðlamanna miklu. Að þau séu vönduð og ekki síður að þau séu sanngjörn. Íslenskir fjölmiðlar eru ærið misjafnir í vinnubrögðum sínum, eins og margsinnis hefur verið bent á. Bestu samantektina á því er vitaskuld að finna í bókum Ólafs Teits Guðnasonar, Fjölmiðlum 2004 og Fjölmiðlum 2005 sem báðar fást við vægu verði í bóksölu Andríkis. Í aðdraganda kosninga eru þær tilvalið lesefni og stundum ógnvekjandi.