Helgarsprokið 29. apríl 2007

119. tbl. 11. árg.

Ein stærsta frétt þessara kosningabaráttu, eins og reyndar aðdraganda síðustu þriggja kosninga er að hún snýst ekki um Evrópusambandið. Stuðningsmenn Evrópusambandsins hafa sig gjarnan mikið í frammi á milli kosninga og í spjallþáttum eru menn sammála um að næstu kosningar hljóti að snúast um Evrópusambandið. Þangað til að kosningum kemur

Þegar að kemur að kosningum hljóðnar meira og minna öll umræða um Evrópusambandsaðild og stuðningsmennirnir galvösku snúa sér að „mikilvægari málefnum“ eins og ritgerðarsamkeppni á heimasíðu Morgunblaðsins um ágæti Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur eða ritskýringar á því hvers vegna það sé í lagi á feminískum forsendum að Jón Baldvin Hannibalsson uppnefni kvenfólk.

„Þegar þessar tillögur eru skoðaðar og ástandið í löndum Evrópusambandsins gaumgæft hlýtur sú spurning að vakna hvers vegna þessar þjóðir gátu ekki fengið aðild að samningnum um evrópska efnahagssvæðið, sem á einn síns liðs að hafa gjörbreytt Íslandi undanfarinn einn og hálfan áratug. Vandinn er bara sá að þær eru auðvitað aðilar að honum en snákaolían virðist bara virka misvel á þjóðir.“

Eftir kosningar mæta þessir sömu spekingar í spjallþættina á ný og er mikið niðri fyrir; enn og aftur lét þjóðin undir höfuð leggjast að taka afstöðu til Evrópusambandsins. Þjóðin var ekki nógu þroskuð til þess, las ekki Evrópukverin sem við gáfum út og mætti ekki á fyrirlestrana okkar á Bifröst og þetta hlýtur að vera Davíð Oddssyni að kenna.

Það svarar þó ekki spurningunni um hvers vegna talsmenn Evrópusambandsaðildar á Íslandi gefast alltaf svona auðveldlega upp. Ein skýring er sú að þeir geri sér sjálfir grein fyrir hversu mikið ber í milli glansmyndar þeirra af Evrópusambandinu og svo stofnuninni eins og hún er í raun og veru.

Staðreynd málsins er nefnilega sú að það gengur víða ákaflega illa í Evrópusambandinu, sérstaklega löndunum sem eru burðarásinn í sambandinu, Frakklandi, Þýskalandi og Ítalíu.

Þegar Evrópuhugsjónin var að mótast hafði gengið vel í evrópskum efnahag. Í lok seinni heimstyrjaldarinnar voru þjóðartekjur á mann 42% af því sem það var í Bandaríkjunum, lok 9. áratugarins hafði tekist að loka helmingi bilsins og voru þær orðar 80% af því sem gerðist í Bandaríkjunum, síðan þá hefur sigið á ógæfuhliðina og eru þjóðartekjur á mann í Evrópu í dag um 70% af því sem gerist í Bandaríkjunum. Evrópusambandið eins og það er í dag er mótað af þeirri kynslóð stjórnmálamanna í Evrópu sem hafa leitt afturförina. Sömu hugmyndir og úrræði sem hafa leitt hagkerfi þeirra til stöðnunar á heimavelli hafa mótað úrræði Evrópusambandsins.

Stjórnmálamenn á meginlandi Evrópu hafa fæstir enn getað sætt sig við þetta og snúið af þessari óheillabraut. Þannig getur Angela Merkel vart talist mikill umbótasinni og raunar áhöld um hvort hún standi sig betur að því leytinu en forveri hennar. Og í Frakklandi hafa báðir forsetaframbjóðendur horn í síðu engilsaxnesk kapítalisma eins og þeir kalla frjáls viðskipti. Að vísu hefur frambjóðandi hægrimanna ögn meiri samúð með stefnu Tony Blair en frambjóðandi sósíalista og dreif sig meðal annars á kosningafund í Bretlandi, en í suðurhluta London búa nú um 300 þúsund Frakkar og stór hluti þeirra hefur flúið atvinnuleysi í heimalandinu.

Nýlega gáfu tveir evrópskir hagfræðingar Alberto Alesina og Francesco Giavazzi út bókina The Future of Europe: Reform or Decline. Þótt bókin geti hvorki talist skemmtilega né vel unnin eru margar hugmyndir höfunda um úrbætur áhugaverðar. Auk þess er kafli þeirra um Lissabon hagvaxtaráætlun Evrópusambandsins, sem þeir segja að nánast megi líkja við fimm ára áætlanir Stalíns, skondinn og réttlætir fyllilega verð bókarinnar.

Í lok bókarinnar nefna þeir sex atriði. Í fyrsta lagi að losa um hömlur á vörum og þjónustu. Þeir leggja til dæmis til að eftirlit með bönkum verði fært til samevrópsk fjármálaeftirlits þar sem Seðlabankar Evrópu hafi ítrekað hindrað samkeppni og yfirtökur á milli landamæra. Annað athyglisvert sem kemur fram í bók þeirra er hversu hár hvers kyns lögfræðikostnaður er af húsnæðislánum í löndum Evrópusambandsins. Hann er lægstur í Danmörku, 3-4% af höfuðstól lánsins en hæstur á Ítalíu 18-20% af höfuðstól lánsins, í löndum þar sem hann er hærri 10% af höfuðstól láns má nefna Írland, Portúgal, Frakkland, Holland, Grikkland og í sumum tilfellum Spán.

Annað viðfangsefni sem höfundar telja brýnt er ástandið á vinnumarkaði. Þar leggja þeir tvennt til. Annars vegar að gera vinnumarkaðinn sveigjanlegri með því að lækka kostnað við uppsagnir. Hins vegar að tekið verði upp svipað kerfi og í Bandaríkjunum með því að gefa út vinnuleyfi (Green Cards) til að trekkja að hæfileikaríkt fólk til Evrópu í stað þess að eftirláta Bandaríkjunum það allt.

Næstu tillögur höfundanna lúta að rannsóknum og háskólastarfi, en þess skal getið að þeir hafa báðir flutt til Bandaríkjanna. Höfundar hafa miklar áhyggjur að því að evrópskir háskólar séu að missa allt besta fólk sitt til Bandaríkjanna og koðna niður í meðalmennsku. Það telja aðallega við æviráðningar að sakast og að ekki sé svigrúm til að borga fræðimönnum byggt á hæfileikum þeirra. Þeir taka það skýrt fram að ekki sé skortur á peningum í evrópskum Háskólum og því er lausn á vanda skólanna ekki meiri peningar eins og oft mætti ætla á háskólafólki. Þeir telja þess í stað nauðsynlegt að taka upp skólagjöld og í öðru lagi að auka sveigjanleika í ráðningum. Jafnframt að háskólar reiði sig meir á rannsóknarframlög frá einkaaðilum.

Fimmta tillaga þeirra er að einfalda allt regluverk í Evrópu, en það er mismunandi eftir löndum, en þeir benda á að sú staðreynd að það tekur fjóra vinnudaga að stofna fyrirtæki í Bandaríkjunum en 63 vinnudaga á Ítalíu hljóti að eiga sinn þátt í því að fleiri fyrirtæki eru stofnuð í fyrrnefnda landinu. Þeir nefna einnig dæmi um hversu seinvirkt er að láta bera út leigjanda í vanskilum í Evrópu, en það getur tekið allt að tveimur árum. Það leiðir til þess að menn eru síður reiðubúnir til að eiga viðskipti við þá sem þeir ekki þekkja eða þekkja til, sem aftur leiðir til óhagkvæmni.

Sjötta atriðið er varðar svo ríkisbúskap Evrópuþjóðanna. Útlitið í  Frakklandi, Þýskalandi og Ítalíu er fremur dökkt ef svo fer fram sem horfir með hallarekstri, lágum hagvexti og án þess að tekið sé á lífeyrisskuldbindingum þessara þjóða. Alesina og Giavazzi segja reynsluna sýna að aldrei hafa tekist að vinna bug á fjárlagahalla með því að hækka skatta. Evrópuþjóðirnar verði því að skera niður útgjöld sín.

Þegar þessar tillögur eru skoðaðar og ástandið í löndum Evrópusambandsins gaumgæft hlýtur sú spurning að vakna hvers vegna þessar þjóðir gátu ekki fengið aðild að samningnum um evrópska efnahagssvæðið, sem á einn síns liðs að hafa gjörbreytt Íslandi undanfarinn einn og hálfan áratug. Vandinn er bara sá að þær eru auðvitað aðilar að honum en snákaolían virðist bara virka misvel á þjóðir.

Það kann vel að vera að í náinni framtíð verði kosið um Evrópusambandið hér á landi á næstu árum. En þá á það líka vera um sjálft Evrópusambandið en ekki einhverja rómantíska Evrópuhugsjón sem talsmenn Evrópusambandsins hafa boðað hér á landi. Það er heldur ekki útilokað að ef Evrópusambandið nær að færa sig aftur í átt til þess að verða fríverslunarbandalag og jafnvel myntbandalag að þá kunni að verða álitlegra fyrir Íslendinga að ganga í það. Hins vegar er mjög hæpið að það geti undir nokkrum kringumstæðum verið skynsamlegt fyrir Íslendinga að ganga í Evrópusambandið á meðan að burðarríki þess glíma við jafn djúpstæðan efnahagsvanda.

Þess vegna er ekki kosið um Evrópusambandið í Alþingiskosningunum 2007.