Laugardagur 28. apríl 2007

118. tbl. 11. árg.
Þegar ég er spurð hvar ég standi í pólitík svara ég því ætíð til að ég sé hægri-krati. Meðan Alþýðuflokkurinn var við lýði áttu þeir sem spurðu ekki í neinum vandræðum með að staðsetja mig í flokkakerfinu. En eftir að Alþýðuflokkurinn lagði sig niður og Samfylkingin varð til fæ ég yfirleitt aðra spurningu á eftir svari mínu: „Ertu í Sjálfstæðisflokknum eða Samfylkingunni?“ …

Fátt óttast ég meir í pólitík en að Samfylkingin muni leggja það á þjóðina að skapa vinstri stjórn eftir næstu kosningar með tilheyrandi vitleysisgangi og óstjórn í efnahagsmálum. Þá kann vel að vera að ég hafi pólitísk vistaskipti og beri fyrir mig samviskuástæður.

– Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður lýsti erfiðu lífi hægri-kratans í Samfylkingunni á ekg.is fyrir tveimur árum.

E ins og víða hefur komið fram, þá eru kratar nú óðum að gefast upp á þeim flokki sem þeim hefur verið smalað til, allt frá því að Alþýðuflokkurinn var tekinn af þeim og settur í pækil. Ekki hefur ástandið batnað á síðustu misserum eftir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir felldi Össur Skarphéðinsson úr formannsstóli. Þótt hvorugt þeirra sé upprunnið úr Alþýðuflokknum hafði Össur þó viðkomu þar um hríð áður en hann varð formaður. Kvennalistakonan Ingibjörg Sólrún hefði líklega fremur gengið í Alþýðubandalagið eða Framsóknarflokkinn en Alþýðuflokkinn

Í fyrradag var fjallað um úrsögn eins kunnasta kratans í Hafnarfirði, sterkasta vígi Alþýðuflokksins, en Árni Hjörleifsson, fyrrverandi bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins, sagði sig úr Samfylkingunni með þeim vinsamlegu kveðjuorðum að forystumenn flokksins væru álíka miklir forystumenn og símastaurar – og væri allt eins vænlegt til árangurs að kjósa símastaurana næst. Það segir ef til vill allt um þetta mál að fyrir Samfylkingunni í Hafnarfirði, helsta vígi krata á landinu, fer alþýðubandalagsmaður og aðdáandi Leníns.

Í gær skrifaði Hrafn Jökulsson, fyrrverandi varaþingmaður Alþýðuflokksins og ritstjóri Alþýðublaðsins, grein í Viðskiptablaðið og sagði þar meðal annars:

Er þetta þá sami grautur í sömu skál? Er kannski ekki kosið um nokkurn skapaðan hlut? Jú það er kosið um næstu ríkisstjórn. Kaffibandalag stjórnarandstöðunnar vofir enn yfir þjóðinni. Það hafa forystumenn Samfylkingar, VG og Frjálslyndra áréttað á síðustu dögum og vikum. Og vill einhver – í alvöru – slíka ríkisstjórn? Eftir landsfund Samfylkingarinnar var þjóðin jafn nær um stefnu flokksins, sem virðist rúmast í þremur orðum: Við viljum völd.

Og viljum við sjá Magnús Þór Hafsteinsson sem félagsmálaráðherra í ríkisstjórn Ingibjargar Sólrúnar, þar sem Steingrímur J. fengi að leika lausum hala í fjármálaráðuneytinu?

Um þetta er kosið 12. maí.

Það er hárrétt hjá þessum fyrrverandi ritstjóra Alþýðublaðsins að eftir tvær vikur verður kosið um ríkisstjórn. Kjósendur hafa óvenjulega skýrt val milli ríkisstjórnar undir áframhaldandi forystu Sjálfstæðisflokksins og Geirs H. Haarde, og svo ríkisstjórnar sem forystumenn stjórnarandstöðunnar gangast enn þá við að ætla sér að mynda, ef núverandi ríkisstjórn missir meirihluta sinn.

Og þeir sem eiga erfitt með að gera upp sinn hug um það hverjum sé best treystandi fyrir stjórn landsmála næstu fjögur árin, geta þá að minnsta kosti litið til eftirfarandi dóms sem kveðinn var upp yfir Samfylkingunni í aðsendri grein í Morgunblaðinu fyrir tveimur vikum, hinn 14. apríl 2007:

Annars vegar skýrist þetta af mistökum Samfylkingarinnar, sem virðist einhvern veginn ekki kunna að reka pólitík á eigin forsendum, né heldur að endurnýja liðskostinn og virkja hæfileikafólk til starfa. Samfylkingarfólk fer gjarnan með það sem betur hljómar, en það er eins og því fylgi engin sannfæring. Og svo sannarlega enginn eldmóður.

Og sá sem skrifaði fyrir nákvæmlega tveimur vikum að Samfylkingin gæti ekki stundað stjórnmál „á eigin forsendum“ og að Samfylkingarmenn segðu einfaldlega það sem betur hljómaði, hann er fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins.

Á sta Ragnheiður Jóhannesdóttir, einn af mörgum þingmönnum Samfylkingarinnar sem var í nær öllum öðrum stjórnmálaflokkum en Alþýðuflokknum áður en hún settist á þing fyrir Samfylkinguna, skrifar grein í Morgunblaðið í dag og segir að menn eigi ekki að vera lengur en 12 ár við stjórn eða í mikilvægum embættum. Þetta er óvænt yfirlýsing um tvennt. Ásta Ragnheiður hefur ekki stutt Samfylkinguna í borgarstjórnarkosningunum á síðasta ári eftir 12 ára veru flokksins og forvera hans í meirihluta. Og Ásta Ragnheiður skorar hér með á Ólaf Ragnar Grímsson gefa ekki kost á sér til endurkjörs eftir 12 ára setu á Bessastöðum næsta sumar.