Föstudagur 27. apríl 2007

117. tbl. 11. árg.

E ins og Vefþjóðviljinn hefur svo oft sagt frá þá höfðu menn af því nokkrar áhyggjur á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar að loftslag jarðar myndi kólna verulega. Ástæðan var að loftslagið hafði kólnað nær samfellt frá lokum seinni heimsstyrjaldar þrátt fyrir að mannkyn hafi aldrei aukið útblástur gróðurhúsalofttegunda meira en einmitt á því tímabili. Þetta voru ár hinna amerísku kagga og  orkufrekra loftkælinga og heimilistækja. En það kólnaði. Um þessa ógn voru haldnar alþjóðlegar ráðstefnur og gefnar út bækur og skýrslur. Þegar hópeflið stóð sem hæst fór að hlýna með þeim afleiðingum af ýmsir þeirra sem áður spáðu frosti tóku óðar til við að spá funa.

Vitaskuld náði umræðan um kuldann ekki til Íslands á sama hátt og umræðan um hlýnun gerir nú. En Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor birti nýlega blaðaúrklippu á vef sínum sem sýnir að Íslendingar fengu sinn skerf af þessum válegu tíðindum milliliðalaust frá virtum vísindamönnum. Hér var haldin háalvarleg alþjóðleg umhverfisráðstefna árið 1977 þar sem kuldinn var ræddur af þeim sem best þóttu þekkja til. Því miður sést ekki öll fréttin á úrklippunni en þó má lesa tilvitnun í dr. Reid Bryson sem titlaður er einn af mestu sérfræðingum um veðurfar á Norðurhveli:

Áður en öldin er öll eru góðar líkur á að við verðum komin inn í „litla ísöld“.

Þetta sýnir að hinir mætustu vísindamenn geta haft rangt fyrir sér. Jafnvel þótt þeir komi margir saman. Og það er auðvitað ekkert að því að vísindamenn setji fram rangar kenningar. Þær bíða þess bara að vera hraktar eða bættar eins og allar hinar. Þess vegna er mikilvægt að menn líti ekki á vísindaleg álitaefni sem útkljáð og afgreidd mál þótt margir vísindamenn hallist að ákveðinni tilgátu. Í umræðum um loftslagsmál undanfarin ár hefur það orðið mjög áberandi að menn telja sig hafa höndlað sannleikann um áhrif mannsins á loftslagið því um hann sé „consensus“ meðal vísindamanna þótt svo sé alls ekki.

Er það ekki ávísun á stöðnun í vísindunum ef menn láta undan svona málflutningi?