Fimmtudagur 26. apríl 2007

116. tbl. 11. árg.

A

Samfylkingin feykist eins og lauf í vindi í flestum málum.

lþýðuflokkurinn er horfinn og formaður hans er nú sendiherra Íslands í Svíþjóð. Í staðinn er krötum ætlaður flokkur sem er svo einkennilegur samsetningur að helstu einkenni hans eru að þar stunda alþýðubandalagsmenn tækifærismennsku undir stjórn kvennalistans.

Kratar eru skiljanlega margir hverjir búnir að fá nóg af svo góðu og láta sig hverfa einn af öðrum. Í gær var þannig sagt frá því að einn gamalgróinn, Árni Hjörleifsson fyrrverandi bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins í Hafnarfirði, hefði sagt sig úr Samfylkingunni og það með þeim orðum að svo gagnslausir væru bæjarfulltrúar flokksins þar í bæ, að það væri eins hægt að kjósa símastaura í þeirra stað næst. Skoðanaleysi bæjarfulltrúanna í álverskosningunni, þar sem þeir hefðu árum saman dregið þetta mikilvægasta atvinnufyrirtæki bæjarins á asnaeyrunum, hefði fyllt mælinn hjá Árna.

Eins og áður hefur verið vikið að, þá var frammistaða Samfylkingarinnar í Hafnarfirði einstaklega dauf. Að geta ekki sagt skoðun sína á mikilvægasta álitaefni bæjarbúa, og það vegna löngunar til að halda báðum fylkingum góðum, er hreinlega aumkunarvert af meirihluta bæjarstjórnar. Og afsakanirnar sem bornar hafa verið fram, hafa líka verið álíka lítilsigldar.

En svona er Samfylkingin í svo ótal mörgum málum. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir beið fram á síðustu stundu með að lýsa skoðun sinni í borgarstjórn Reykjavíkur á því hvort borgin samþykkti lán Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar. R-listinn hefði getað hindrað virkjanaframkvæmdirnar en gerði það ekki. Skoðanakannanir í ársbyrjum 2003 sýndu yfirgnæfandi stuðning við framkvæmdirnar og borgarfulltrúinn Ingibjörg Sólrún stökk á vagninn, greiddi atkvæði með virkjanasinnum og sat fyrir á myndum fyrir framan skiltin frá Alcoa fyrir austan. En þær myndir sýndi Samfylkingin að vísu einungis á Austurlandi.

Þegar haldnir eru fjölmennir tónleikar í Reykjavík gegn virkjunum, þá kúvendir Samfylkingin. Þó meirihluti þingmanna flokksins hafi greitt atkvæði með Kárahnjúkavirkjun þá verður flokkurinn skyndilega að miklum friðlýsingarsinna. Hræðslan við að ungir umhverfissinnar hverfi yfir til vinstrigrænna verður slík að virkjanasinnar í Samfylkingunni missa málið, allir nema Birgir Dýrfjörð, enda var hann áður þinglóðs Alþýðuflokksins – sem vel að merkja er hættur störfum og formaður hans orðinn sendiherra í Svíþjóð.

Nú er það auðvitað ekki svo að andstæður íslenskra stjórnmála séu svo skýrar að öðru megin sé Samfylkingin og skoppi eftir hverri skoðanakönnun en hinu megin séu staðfastir menn, hver á sinni sannfæringu og aldrei haggist. Í öllum flokkum eru menn sem velta því helst fyrir sér hvað geti fallið í góðan jarðveg, og segja það þá, og hugsa ekki síður um það hvað geti verið hættulegt að segja, og forðast það þá eins og þeir frekast geta. Einlægni forystumanna vinstrigrænna í umhverfisvernd og kvenréttindum er stórlega ofmetin; frjálslyndir börðust af miklum krafti gegn tilraunum ríkisstjórnarinnar til að efla útlendingaeftirlit og enginn harðar en Magnús Þór Hafsteinsson; félagsmálaráðherrar Framsóknarflokksins fara með jafnréttisþulur sem þeir skilja ekki orð í sjálfir; Sjálfstæðisflokkurinn á enn eftir að skila fjórða prósenti lofaðrar tekjuskattslækkunar til skattgreiðenda, og svo framvegis. En þó enginn flokkur sé fullkominn og sennilega enginn alslæmur, þá er Samfylkingin einstök í sinni röð þegar kemur að því sveiflast eftir vindi.