Miðvikudagur 25. apríl 2007

115. tbl. 11. árg.

V instri grænir eru alveg á móti persónudýrkun eins og flokkurinn hefur lagt áherslu á.
Þess vegna var það til dæmis sem kosningabarátta flokksins í Reykavík í fyrra gekk út á að birta um það bil 300 auglýsingar með myndum af stjörnu flokksins, Svandísi Svavarsdóttur. Það er líka af þessum ástæðum sem barátta flokksins nú gengur út á birta stórar auglýsingar af Steingrími J. Sigfússyni formanni flokksins og varaformanninum Katrínu Jakobsdóttur.

Lýðnetið er því miður ekki orðið nægilega stórt til að rúma foringja VG í þeirri stærð sem sómi væri að. Hér er hins vegar lítið sýnishorn af glæsilegri blaðaauglýsingu af manninum sem hefur vaxið umfram málefnin.

Og það er af þessum sömu ástæðum sem þessi flokkur prinsippanna gegn persónudýrkuninni seldi fyrir síðustu alþingiskosningar nærbol með mynd af formanni flokksins framan á. Til að undirstrika andstöðu sína við persónudýrkun og áhuga sinn á málefnalegri baráttu var það svo sem frambjóðendur flokksins mættu í umræddum nærbol í sjónvarpssal til að ræða landsins gagn og nauðsynjar fyrir kosningar.

Það var líka til staðfestingar á hugsjónabaráttunni og til að lýsa fyrirlitningu á foringjadýrkun sem Vinstri grænir voru þar fyrir fáeinum dögum með mynd af foringja sínum í líki morðingjans Che Guevara á styrktarhnappi á heimasíðu flokksins.

Vinstri grænir eru einfaldlega þannig að þeir setja hugsjónirnar og hugmyndabaráttuna ofar öllu öðru. Og þeir eru gallharðir í þessari baráttu sinni og láta aldrei hafa sig út í sýndarmennsku í pólitískri baráttu. Það var til að mynda ekki sýndarmennska þegar ungir vinstri grænir gáfu borgarfulltrúum strætómiða til að hvetja þá til að sýna gott fordæmi. Nei, tilgangurinn var að verðlauna Árna Þór Sigurðsson borgarfulltrúa og fyrrum nemanda í slavneskum málvísindum við ríkisháskólann í Moskvu. Árni Þór, sem nú er í öðru sæti VG í Reykjavíkurkjördæmi nyrðra, vann nefnilega það afrek á bíllausa daginn að bruna á einkabíl sínum á milli viðtala og ræða um það að aðrir ættu að leggja bílnum þann dag. Þetta gerði hann til að undirstrika að hann er ekki síðri prinsippmaður en aðrir vinstri grænir. Vissulega er sjálfsagt að verðlauna flokksmenn þegar þeir fylgja flokkslínunni svo fast eftir.