H
Litlu munaði að Framsókn fengi engan borgarfulltrúa kjörinn eftir 12 ára samstarf við vinstriflokkana í Reykjavík. |
inn 12. maí fer fram síðari hluti merkilegrar samanburðarrannsóknar á stöðu Framsóknarflokksins í höfuðborginni. Fyrri hlutinn fór fram í lok maí á síðasta ári þegar Framsóknarflokkurinn hlut 6,3% stuðning í borgarstjórnarkosningum eftir 12 ára samstarf við vinstri flokkana í borgarstjórn. Svo afdrifarík varð þessi niðurstaða að Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra sagði af sér nokkrum dögum síðar. Í viðtali við Morgunblaðið 6. júní 2006 sagðist Halldór vilja með afsögn sinni „axla ábyrgð“ á úrslitum í sveitarstjórnarkosningunum.
Þegar gengið verður til kosninga í næsta mánuði kemur svo í ljós hvort Framsóknarflokkurinn fær betri eða verri útreið í borginni eftir 12 ára samstarf við Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn.
Að sjálfsögðu er rannsóknin þeim annmörkum háð að ár líður milli mælinga og fyrir borgarstjórnarkosningarnar eyddi Framsóknarflokkurinn miklu meira fé í auglýsingar en hann mun gera nú samkvæmt samkomulagi stjórnmálaflokkanna. Að Framsóknarflokkurinn skyldi undirgangast þær takmarkanir á auglýsingum sem samkomulagið felur í sér bendir til að þar á bæ séu menn heldur bjartsýnni á úrslit þingkosninganna eftir rúmar tvær vikur en þeir voru á úrslit borgarstjórnarkosninganna eftir 12 ár í samstarfi með vinstri flokkunum.
Það sem vekur sérstaka eftirvæntingu um niðurstöður þessarar rannsóknar eru sífelldar fullyrðingar þess efnis að Framsóknarflokkurinn gjaldi fyrir samstarf við Sjálfstæðisflokksins. Því er raunar haldið fram að allir flokkar tapi á samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn en hann hagnist hins vegar ætíð. Vefþjóðviljinn fór yfir það fyrir skömmu að í sögulegu samhengi eru þessar fullyrðingar samhengislaust röfl. Menn þurfa ekki að líta lengra aftur en til úrslita síðustu þingkosninga til að sjá að þessi kenning á við lítil rök að styðjast. Þá missti Sjálfstæðisflokkurinn verulegt fylgi en ekki Framsóknarflokkurinn.
Að öllu samanlögðu, þegar horft er til síðustu fjögurra áratuga, er það þess vegna Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur tapað meiru á samstarfi við bæði Alþýðuflokkinn og Framsóknarflokkinn en þessir flokkar á samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. |
G uðmundur Magnússon sagnfræðingur hefur gott lag á að setja hluti í gagnlegt samhengi og er fundvís á atburði úr fortíðinni. Nýlega birti hann þessa mynd úr Morgunblaðinu frá árinu 1989 á vef sínum. Á henni má sjá þrjá ráðherra úr síðustu vinstri stjórn standa yfir kjörbitum sem þeir höfðu látið pakka sérstaklega handa landsmönnum og vildu selja þeim á tilboðsverði. Tveir þessara kjötskömmtunarráðherra koma mikið við sögu í kosningabaráttunni um þessar mundir; Steingrímur J. Sigfússon þáverandi landbúnaðarráðherra leiðir VG og Jón Sigurðsson þáverandi viðskiptaráðherra gerði nýlega tilraun til að semja nýja efnahagsstefnu fyrir Samfylkinguna eftir að formaður flokksins lýsti því yfir að þingflokknum væri ekki treystandi til eins eða neins og umræður voru bannaðar á landsfundi umræðustjórnmálaflokksins.