Mánudagur 23. apríl 2007

113. tbl. 11. árg.

Guðni Ágústsson lýsti á dögunum furðu og óánægju með að svo virtist sem samstarfsflokkur hans, Sjálfstæðisflokkurinn, væri „stikkfrír“ í kosningabaráttunni; að svo virtist sem Sjálfstæðisflokkurinn einn nyti þeirra sem ánægðir væru með ríkisstjórnina og það sem hún hefði hafst að undanfarin ár.

Að vissu leyti eru þetta skiljanlegar tilfinningar hjá Guðna. Undanfarin ár hafa að mjög mörgu leyti verið mikil framfaraár á Íslandi og skiljanlegt að öðrum stjórnarflokknum þyki láninu misskipt þegar svo virðist sem samstarfsflokkurinn verði einn um vera verðlaunaður fyrir árangurinn.

En eins og flest víti Framsóknarflokksins, þá er þetta að miklu leyti sjálfskapað.

Undanfarin ár, hafa framsóknarmenn keppst við að láta eins og þeir trúi því að þeir séu undirokaðir í stjórnarsamstarfinu. Að ógurleg ólga sé í þeirra eigin flokki og gríðarleg naflaskoðun og sjálfsgagnrýni sé nauðsynleg. Auðvitað skynjar fólk þetta og áttar sig á því, að þau úrræði sem best hafa reynst landinu á undanförnum árum, skattalækkanir, einkavæðing, afnám hafta og svo framvegis, þau eru meðul sem hafa komið vegna annarra lyfseðla en þeirra sem framsóknarmönnum væri tamast að ávísa. Og þegar fólk áttar sig á þessu þá þykir því flestu auðvitað sem öruggasta leiðin, til að tryggja sér áframhald sömu stefnu, sé að styðja þann flokk sem ekki hefur látið undanfarin ár eins og hann fylgi henni með hálfum huga.

Auðvitað á Framsóknarflokkurinn ríkan þátt í því sem stjórnvöld hafa gert undanfarin ár. Flokkurinn hefur verið annar stjórnarflokkur mikils framfaratíma og ætti vissulega skilið að njóta þess. Auðvitað hljóta framsóknarmenn að vera sáróánægðir með að njóta minni stuðnings en stjórnarandstöðuflokkar sem hafa barist gegn flestu því sem gert hefur verið af viti undanfarin ár. En þeir geta líka sjálfum sér um kennt; að vera í áratug í opinberri naflaskoðun vegna alls sem andstæðingarnir hafa um mann sagt, er vís leið til að venja kjósendur af því að kjósa sig.