Þriðjudagur 1. maí 2007

121. tbl. 11. árg.

S amfylkingin býður þessa dagana upp á sjónvarpsauglýsingar um tannheilsu barna þar sem látið er líta út fyrir að tannheilsu íslenskra barna hafi hrakað verulega á undanförnum árum. Sjónvarpsauglýsingarnar sýna börn sem mega vart mæla vegna tannverkja og eru með vafinn kjálkann vegna kvala!

Rannsóknir sýna hins vegar ótvírætt að tannheilsa íslenskra bara hefur batnað alveg stórkostlega síðustu 20 árin. Samfylkingin virðist hafa misskilið gögn úr svonefndri Munnís-rannsókn um munnheilsu barna á Íslandi. Þessi misskilningur er afar lærdómsríkur. Í honum kristallast hugtakið „vaxandi vandi“ sem heyrist svo oft í fréttatímum.

Þegar litið er á súlurit úr rannsókninni virðist í fljótu bragði sem tannheilsa íslenskra barna hafi skyndilega versnað upp á síðkastið eftir að hafa tekið miklum framförum undanfarin 20 ár. Súlurnar sýna skemmdrar tennur 15 ára einstaklinga. Síðasta súlan er hærri en sú næsta á undan. Er þá ekki ljóst að ástandið er að versna? Nei því síðasta súlan sýnir leit að tannskemmdum með nýrri og betri tækni en áður hefur verið notuð. Næstsíðasta súlan er hins vegar samanburðarhæf við hinar sem á undan koma. Hin jákvæða þróun tannheilsu íslenska barna heldur því áfram.

Tannheilsa 15 ára einstaklinga hefur batnað mjög mikið á síðustu tveimur áratugum. Síðasta súlan sýnir leit með nýrri tækni og er því ekki samanburðarhæf við hinar fyrri.

Það sem er lærdómsríkt við þennan misskilning Samfylkingarmanna er að „vaxandi vandi“ er oftar en ekki dæmi um að vandlegar sé leitað að vandanum. Stærri leitarflokkar fræðinga og ný leitartækni skýra oft að „vandi eykst“ þótt ekkert annað hafi breyst en að leitin er nákvæmari og vandanum þar með betur sinnt en áður.

R itstjórn Morgunblaðsins hefur ekki upplýst hvaða frétt af landsfundi Samfylkingarinnar það var sem Samfylkingarmenn vildu breyta eftir að hún birtist á fréttavef mbl.is. Þó hefur komið fram að fréttin var af deilum um umræður á landsfundi umræðustjórnmálaflokksins. Vart kemur því önnur frétt til greina en frásögnin af hinum undarlegu tilraunum forystu flokksins til að stöðva umræður um tillögu Valgerðar Bjarnadóttur um eftirlaunalög embættismanna og kjörinna fullrúa. Tilraun flokksforystunnar tókst raunar þótt einhverjir fundarmenn hafi lýst því yfir að fylgi flokksins myndi falla úr 18% í 13% fengist ekki efnislega afgreiðsla á tillögunni.

Ef þetta er rétt tilgáta um hvaða frétt var þarna á ferðinni þá lítur landsfundur umræðustjórnmálaflokksins svona út:

Á landsfundi umræðustjórnmálaflokksins var það hindrað að efnisleg umræða og afgreiðsla fengist á ákveðinni tillögu. Þegar fjölmiðlar fluttu þessi tíðindi reyndi umræðustjórnmálaflokkurinn að koma í veg fyrir að almenningur fengi fregnir af þessu og umræða yrði um málið í þjóðfélaginu.