Föstudagur 13. apríl 2007

103. tbl. 11. árg.
Aukum veg umhverfis- og náttúruverndar í stjórnkerfinu með því að stórefla umhverfisráðuneytið.
Allt annað líf! Kosningaáherslur VG 2007.
Við í Alþýðubandalaginu vorum svo sem heldur engir sérstakir talsmenn umhverfismála. Ég man ekki til þess að Alþýðubandalagið í ríkisstjórn legði áherslu á umhverfismál. Umhverfisráðuneytið var fyrst og fremst stofnað til þess að búa til fleiri ráðherrastóla og styrkja ríkisstjórnina með aðild Borgaraflokksins.
– Margrét Frímannsdóttir, formaður Alþýðubandalagsins, Stelpan frá Stokkseyri bls. 226, Akureyri 2006.

M enn sem stofnuðu umhverfisráðuneyti til að geta boðið upp á fleiri ráðherrastóla og styrkt ríkisstjórn sína árið 1990 eru líklega löngu hættir í stjórnmálum. Að minnsta kosti eru þeir varla að leggja til að ráðuneyti sem stofnað var í þeim tilgangi að kaupa stuðning manna við ríkisstjórn eigi nú að stórefla innan stjórnkerfisins. En á það ber hins vegar að líta að um það leiti sem umhverfisráðuneytið var stofnað var sósíalisminn einnig að hrynja til grunna í Austur-Evrópu. Eins og Steingrímur J. Sigfússon formaður VG og samgöngu- og landbúnaðarráðherra í ríkisstjórninni 1988 til 1991 segir í nýrri bók sinni Við öll mætti kalla stefnu VG „grænan nýsósíalisma“. Sósíalisminn er enn til staðar en hann er bara orðinn grænn.

Í þessari ríkisstjórn, sem stofnaði umhverfisráðuneyti til að kaupa stuðning við stjórnina, átti Alþýðubandalagið þrjá ráðherra. Þeir voru allir karlar þrátt fyrir að í samþykktum flokksins segði að ekki væru færri en 40% af hvoru kyni í valdastofnunum flokksins. Í Viðskiptablaðinu í dag er vitnað í viðtal við Guðrúnu Helgadóttur þingmann Alþýðubandalagsins í Morgunblaðinu 29. september 1988 þegar í ljós kom að hún fengi ekki ráðherrastól en þá fengju þrír karlar:

Þingflokkurinn mat hæfileika Steingríms J. Sigfússonar meira en mína og það er ekkert við því að segja.

Steingrímur var einnig svo lánsamur að fá tvö ráðuneyti, landbúnaðar- og samgönguráðuneyti, í sinn hlut svo ekki þyrfti að sitja uppi með alþýðubandalagskonu í stjórninni.

Menn sem stofnuðu umhverfisráðuneyti til að nota það sem skiptimynt í valdabrölti og komu í veg fyrir að kona fengi sæti í ríkisstjórn þvert gegn samþykktum eigin flokks um hlutföll kynjanna bjóða auðvitað fram í vor sem sérlegir áhugamenn um tvö mál; umhverfis- og jafnréttismál.

Börn eiga lögum samkvæmt að nota hjálma á reiðhjóli en hvergi er kveðið á um að þau noti hjálm á skíðum.
– Frétt Stöðvar 2 í fyrrakvöld um notkun hjálma á skíðum.

U m daginn sagði frá því í einu dagblaðinu að styrkur svikryks í Reykjavík væri undir heilsuverndarmörkum. Alveg ljómandi tíðindi. En eftir nokkur ár ætlar Evrópusambandið að lækka viðmiðunarmörkin verulega og þá, sagði blaðið, verður loftið í borginni orðið hættulegt heilsunni.

Nú er þess auðvitað óskandi að Evrópusambandið hætti við að breyta viðmiðunarmörkunum svo heilsa Reykvíkinga versni ekki til muna þegar nýja tilskipunin tekur gildi.

Menn er orðnir svo vanir því að láta yfirvöld segja sér hvað er hættulegt að þegar einhver slasar sig á einhverju sem ekki er bannað eða strangar reglur gilda um þá reka fréttamenn hljóðnemann ósjálfrátt framan í stjórnmála- og embættismenn þar til einhver finnst sem segir að úr því þurfi að auðvitað bæta. Og sú leit tekur jafnan stutta stund.

Til að gæta sanngirni var það meginefni fréttar Stöðvar 2 í gær að margir skíðamenn hafa sjálfir tekið upp á því að nota hjálma á undanförnum árum án þess að kveðið sé á um það í lögum. Og þannig á það auðvitað að vera.

Þessi sífellda krafa um boð og bönn, og að undan henni sé látið undantekningarlítið, hefur ekki aðeins órökrétta hegðun fréttamanna í för með sér. Þegar menn venjast því að ríkið kveði upp úr um hvað er hættulegt og hvað ekki hætta menn að hugsa sjálfstætt og ætlast til að ríkið verndi sig fyrir öllum hlutum. Hlýtur ekki að vera óhætt að gera þetta úr því þetta er leyfilegt? Væri borgarstjórn ekki búin að hrekja starfsemina á brott ef hún væri óæskileg? Væri Lýðheilsustöð ekki búin að auglýsa gegn þessu ef þetta væri óhollt?