Fimmtudagur 12. apríl 2007

102. tbl. 11. árg.

Á dögunum rifjaði Vefþjóðviljinn upp hvernig Samfylkingin og R-listinn hafa reynt að afrita ýmislegt sem gefist hefur vel í starfi Sjálfstæðisflokksins. Það var enda helsti tilgangurinn með stofnun bæði R-listans og Samfylkingarinnar að ná völdum af Sjálfstæðisflokknum og besta leiðin til þess var talin að haga sér eins og sjálfstæðismenn. Svo langt hefur þessi ljósritunarstefna gengið að það láðist jafnvel að taka orðin „sjálfstæðisfélag“ út af eyðublöðum fyrir stuðning við hverfafélög R-listans en hverfafélögin voru önnur hugmynd frá sjálfstæðismönnum sem ástæða hafði þótt til að nýta.

Samfylkingarmenn hafa ákveðið að halda sig við að apa allt eftir öðrum flokkum fyrir alþingiskosningarnar í næsta mánuði, ekki síst Sjálfstæðisflokknum, þótt stefnan sé að mestu fengin frá VG með þeim árangri að vinstri sinnaðir kjósendur sjá auðvitað ekki ástæðu til að kjósa annað en VG. Þannig færði Samfylkingin landsfund sinn svo hún gæti haldið hann um leið og Sjálfstæðisflokkurinn um næstu helgi.

Vegna landsfundarins sendi Sjálfstæðisflokkurinn flokksfélögum sínum kveðju um daginn með auglýsingu í blöðunum. Þar voru flokksmenn boðnir velkomnir á landsfundinn með nokkrum orðum og birt mynd af formanni og varaformanni flokksins.

Nokkrum dögum síðar hafði Samfylkingin fengið mjög góða hugmynd að auglýsingu og birti hana í helstu blöðum.