Miðvikudagur 11. apríl 2007

101. tbl. 11. árg.
Með tali um upptöku evrunnar er verið að reyna að hraða þróun ESB í átt til evrópsks risaveldis með sameiginlegri mynt, en minna hugsað um efnahagslegan ávinning. Ég vara við þessum þrýstingi og leyfi mér að kalla það landráð ef menn vilja ganga inn í Evrópusambandið eins og staðan er í dag og afhenda valdaklíku stærstu fimm Evrópuþjóðanna fullveldi og sjálfstæði Íslands.
– Margrét Sverrisdóttir, Morgunblaðinu, 16. október 2003.
 
Íslandshreyfingin vill sækja um aðild að Evrópusambandinu strax. Aðrir flokkar vilja fara sér hægar. Þetta kom fram á málefnafundi Sjónvarpsins á Selfossi í kvöld.
– Fréttir Ríkissjónvarpsins, 10. apríl 2007.

Í slenska stjórnarandstaðan! Um hana má líklega treysta því einu, að þar er engu að treysta.

Á því kjörtímabili sem nú er að líða, hefur Margrét Sverrisdóttir verið einn einarðasti talsmaður þess að Ísland haldi sér utan Evrópusambandsins. Hefur hún fært fyrir því ýmis ljómandi góð rök og þessi afstaða verið einn hennar helsti sómi. Hún hefur raunar ekki sparað stóru orðin í málinu og meðal annars kallað það „landráð“ að vilja ganga inn í þetta samband. Sést af því alvara málsins, enda er í flestum löndum litið svo á, að engin afbrot séu alvarlegri en landráð og jafnvel í alvörulausu landi sem Íslandi liggur við þeim ævilangt fangelsi. Lágmarksrefsing fjögurra ára fangelsi, takk fyrir.

Nú hefur Margrét Sverrisdóttir gengist fyrir stofnun sérstaks stjórnmálaflokks sem hefur það að öðru mikilvægasta baráttumáli að gera Margréti Sverrisdóttur að alþingismanni og þó fyrr hefði verið. Í gærkvöldi var því svo lýst yfir að þessi flokkur, einn flokka, vildi ganga í Evrópusambandið þegar í stað. Lárus Vilhjálmsson, talsmaður flokksins í utanríkismálum svaraði spurningu um Evrópusambandið í umræðuþætti Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi: „Ég ætla bara að hafa það skýrt. Við viljum fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið á næsta kjörtímabili.“ Hann bætti svo að hann gæti setið allt kvöldið og þulið upp góðar ástæður fyrir inngöngu.

En svona er þetta. Það er bara eitthvað sagt og yfirleitt er þá minnst að marka íslenska stjórnmálamenn þegar þeir eru alvarlegastir í tali.

Fleiri dæmi?

Á dögunum sendi Steingrímur J. Sigfússon bréf til Alcan, álversins í Straumsvík, og fór fram á að félagið styrkti Vinstrihreyfinguna grænt framboð fjárhagslega. Þetta taldi hann viðeigandi nokkrum dögum eftir að flokkurinn hafði róið að því öllum árum að fæti yrði brugðið fyrir fyrirtækið og því meinað að framkvæma þá stækkun sem það hafði í góðri trú unnið að í tæpan áratug. En það er nú ekki allt. Um síðustu áramót sýndi Stöð 2 að venju umræðuþáttinn Kryddsíld. Að honum loknum var upplýst að þátturinn var styrktur af þessu sama félagi, Alcan. Gerðist það þá, að einn þátttakenda varð algerlega æfur og þóttist illa leikinn. Þetta væri hrein ósvinna og sá hefði nú ekki mætt í þáttinn ef hann hefði vitað þetta. Sá maður var vitaskuld Steingrímur J. Sigfússon, sem gamansamir menn kalla oft samkvæman sjálfum sér. Það er með öðrum orðum ekkert að því að fjármagna sína eigin kosningabaráttu með styrk frá álfélaginu en stórhneyksli að sjónvarpsstöð fái frá þeim hefðbundna „kostun“ þáttar. Ef einhvers staðar væru fréttamenn á Íslandi þá myndu þeir endurspila viðtölin við Steingrím frá því í janúar og sýna svo bréfið frá honum til álfélagsins.

Ekki eru liðin þrjú ár frá því ríkisstjórnin beitti sér fyrir því að ýmsar reglur um útlendinga á Íslandi voru hertar. Var það gert vegna ótta um misnotkun þeirra reglna sem fyrir voru. Stjórnarandstaðan var auðvitað sem einn maður gegn þessum breytingum. Einn þingmaður var flestum harðari. Magnús Þór Hafsteinsson heitir hann. Sami Magnús Þór var meira að segja mjög reiður þegar lögregluyfirvöld hindruðu erlend mótorhjólagengi í að ná fótfestu hér á landi og taldi ekki forsvaranlegt að dæma félagsmenn þeirra fyrirfram með þeim hætti. Sami Magnús Þór á núna í örvæntingarfullri baráttu fyrir þingsæti og hefur á síðustu vikum og mánuðum orðið allra manna varkárastur þegar kemur að straumi útlendinga til Íslands. Ef einhvers staðar væru fréttamenn á Íslandi þá myndu þeir spyrja Magnús Þór Hafsteinsson um afstöðu hans til útlendingamála fyrir þremur árum og bera hana saman við málflutninginn nú. Spyrja hann um sómadrengina í Banditos og Hells Angels og svo óskir hans nú um að þeir sem hingað komi framvísi sakavottvorði við innganginn.

Samfylkinguna þarf varla að tala um, þegar fjallað er um skoðanafestu. Það er vart hægt að finna málaflokk þar sem stefna og afstaða flokksins er sjálfri sér samkvæm til lengri tíma. En svo flokkurinn fái nú að vera með þá má líta til síðasta deilumáls stjórnmálanna, álverskosningarinnar í Hafnarfirði, þá var Samfylkingin mjög Samfylkingarleg í flestu sem að henni sneri. Stuttu fyrir kosninguna sagðist Ingibjörg Sólrún Gísladóttir að sér kæmi málið ekki við, kosningin væri einkamál Hafnfirðinga og það yrði mjög óviðeigandi af henni sjálfri að setja fram skoðun á málinu. Viku síðar var hún orðin opinberlega á móti stækkuninni. Forystumenn Samfylkingarinnar í bænum sjálfum eru svo einu Hafnfirðingarnir sem ekki hafa sagt skoðun sína á málinu og finnst sem umbjóðendur þeirra eigi enga kröfu á að vita afstöðu þeirra til helsta hagsmunamáls bæjarins á síðustu árum. Fyrir því gefa þeir þá ástæðu að þar sem málinu hefði verið vísað til íbúakosningar væri mjög óviðeigandi að kjörnir fulltrúar lýstu opinberri skoðun á því. Sömu menn hikuðu hins vegar ekki við að lýsa skoðun sinni á sameiningu Hafnarfjarðar við annað sveitarfélag þegar kosið var um hana nýlega. Ef einhvers staðar væru fréttamenn á Íslandi myndu þeir rifja upp ákefð bæjarfulltrúanna við að styðja þá sameiningu sem naut yfirgnæfandi stuðnings í bænum og ákefð þeirra í að fara leynt með skoðun sína á deiliskipulagstillögu sem bæjarbúar skiptast í tvö horn um.

Stjórnarflokkarnir eru ekki fullkomnir. En er einhver sem heldur í alvöru að það sé frambærilegt að hefja íslensku stjórnarandstöðuna til valda?