E ftir umræður stjórnmálaforingja í Ríkissjónvarpinu á annan í páskum fékk ungur og efnilegur kjósandi spurninguna hver honum hefði þótt bestur. Þessi frá Nóa-Síríus.
Í umræðum leiðtoganna í gær sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar að það væri „ábyrgðarleysi“ af ríkisstjórnarflokkunum að hafa ekki stefnu í stóriðjumálum. Það er þá líklega marklaust að stjórnarandstaðan hefur í mörg ár kallað ríkisstjórnarflokkana „stóriðjuflokkana“. Ingibjörg sagði svo orðrétt um stóriðjumálin:
Þetta eru mál sem hafa svo mikil áhrif á umhverfi okkar og efnahag að ríkisstjórnin verður að hafa stefnu í þessu. |
Sjálf hefur hún mikla reynslu af hafa stefnu í stóriðjumálum enda haft þær nokkrar til skiptis allt frá kjördegi 1991 þegar hún skipti um skoðun á álverum þegar glitti í ráðherrastóla fyrir Kvennalistann á kosninganótt. Og ekki má gleyma því að eins af þessum stefnum er sú merka skoðun að hafa enga stefnu og leyfa íbúum Hafnarfjarðar að taka sína ákvörðun um breytingar á álveri. Íbúar Hafnarfjarðar voru þó varaðir við að taka ekki ranga ákvörðun því henni yrði snúið við kæmist Samfylkingin í ríkisstjórn.
Og hvað ætli Lúðvík Geirssyni bæjarstjóra í Hafnarfirði og Gunnari Svavarssyni oddvita Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi þyki um þær yfirlýsingar formanns Samfylkingarinnar í gærkvöldi að þau stjórnvöld sýni ábyrgðarleysi sem lýsa ekki skoðun sinni á stóriðjuáformum? Báðir þögðu þeir þunnu hljóði um skoðun sína á stækkun álversins í Straumsvík, að ráði Ingibjargar sjálfrar.