Laugardagur 14. apríl 2007

104. tbl. 11. árg.

N úverandi formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hóf setningarræðu sína á landsfundi Samfylkingarinnar á því að minna á veika stöðu flokksins. Hún gerði það á sinn hátt, með því að halda því fram að Samfylkingin hafi „aldrei staðið styrkari fótum hvað varðar skipulagt starf og stefnu“. Já, Ingibjörg Sólrún er ekki aðeins farsæll ræðumaður, hún hefur líka haft gott lag á að skipuleggja starf flokksins og með sama áframhaldi leggur hann skipulega niður starfsemi innan fárra ára þegar síðasti stuðningsmaðurinn hverfur á braut.

Í kosningunum fyrir fjórum árum fékk Samfylkingin, undir forystu þáverandi formanns Össurar Skarphéðinssonar, 31% atkvæða. Í skoðanakönnun Gallups sem birt var í gær var flokkurinn kominn niður í 18% og hafði lækkað um 1,5% á ellefu dögum.

Viðbrögð formanns Samfylkingarinnar við fylgistapinu eru gamalkunn af vinstri væng stjórnmálanna. Nú á greinilega að reyna að ná til baka fylginu sem Vinstri grænir hafa náð til sín. Þannig veittist Ingibjörg Sólrún til að mynda að Vinstri grænum og vændi flokkinn meðal annars um að hafa tekið beint upp tillögur Samfylkingarinnar í umhverfismálum. Ætli Ingibjörg Sólrún telji að árásir af þessu tagi verði til þess að bæta andrúmsloftið í kaffiboðum kaffibandalagsins? Það er ekki gott að segja, en víst er að svona árásir verða ekki til að gleðja nýgrænu sósíalistana í VG.

NN ýja framboðið Íslandshreyfingin – lifandi land hefur náð miklu flugi, næstum eins miklu og Samfylkingin. Til að fagna góðu gengi mun flokkurinn nú íhuga að skipta um nafn og taka upp nafnið Íslandshreyfingin – langt í land.