Miðvikudagur 21. mars 2007

80. tbl. 11. árg.

Í

Íslenskir vinstri menn minnast ekki á Saddam í greinum sínum og ræðum um átökin í Írak. Kannski verður Saddam kominn á vömbina á þeim áður en langt um líður. Eins og Che hefur hann allt sem þarf til að fá mynd af sér á nærföt íslenskra vinstrimanna; alpahúfuna, skeggið og morðæðið.

gær voru liðin fjögur ár frá því Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra hófu hernaðaraðgerðir að nýju gegn Saddam Hussein og ógnarstjórn hans í Írak. Saddam hafði á annan áratug dregið Sameinuðu þjóðirnar á asnaeyrunum varðandi vopnaeftirlit og aðra skilmála sem hann undirgekkst eftir að her hans var hrakinn frá Kúveit. Kúveit var raunar ekki eina landið sem Saddam hafði ráðist á því Íran og Ísrael voru einnig í þeim flokki. Að hans eigin þjóð ógleymdri sem um áratugi hafði fengið að kynnast harðstjórn af verstu sort, efnavopnaárásum og öðrum meðölum vitstola einræðisherra. Á meðan 12 ára stappinu stóð héldu Sameinuðu þjóðirnar uppi viðskiptabanni á Írak sem þýddi að almenning skorti lífsnauðsynjar, lyf, læknistæki og mat á meðan stjórnarherrarnir veltu sér sem fyrr um í allsnægtum í höllum Saddams.

Í frægri ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna kom skýrt fram að færu stjórnvöld í Bagdad ekki að settum skilyrðum varðandi gereyðingarvopn yrðu þau afvopnuð með valdi. Bandaríkjamenn og Bretar freistuðu þess að sjálfsögðu að fá stuðnings öryggisráðsins til að fylgja fyrri ályktun ráðsins eftir en þar var Rússum, Frökkum og Kínverjum að mæta þótt aldrei hafi komið til frekari afgreiðslu ráðsins á málinu. Ályktunin um að afvopna Saddam með valdi stóð og stendur enn. Lýðræðisþjóðir eins og Danir, Pólverjar, Ástralir og Ítalir lögðu Bandaríkjamönnum og Bretum lið í verki og hröktu stjórn Saddams frá völdum á nokkrum dögum í mars 2003.

Lýðræðislega kjörinni stjórn Íraks hefur hins vegar ekki tekist að koma á friði í landinu og aldrei hafa verið jafn margir bandarískir hermenn þar og nú. Það er auðvitað miður. En er með sanngirni hægt að segja að innrásin hafi verið óréttmæt þar sem erfiðlega hefur gengið að koma á friði? Var það rangt af Bretum og Frökkum að lýsa yfir stríði gegn Þýskalandi þegar nasistar réðust inn í Pólland 1939? Líklega segir enginn að svo hafi verið nú. Þegar tæpt ár var liðið frá stríðsyfirlýsingunni þrömmuðu hersveitir nasista um götur Parísar og sprengjum þeirra rigndi yfir London. Var yfirlýsingin orðin óréttmæt þegar í slík óefni var komið? Áttu Bretar að svo búnu að biðja kanslarann afsökunar á ónæðinu og draga yfirlýsinguna til baka?

Ákvörðun um að taka á illþýði með hervaldi verður ekki rétt eða röng eftir því hvernig gengur og hversu snöggir menn eru. Hún verður hins vegar þungbær þegar hægt eða illa gengur.

Andstæðingar innrásarinnar í Írak á Íslandi hafa haft sig töluvert í frammi að undanförnu enda styttist í kosningar og þeir telja mikilvægt að ræða upphaf hennar. Upphaf sem var reyndar fyrir síðustu kosningar og rætt talsvert í aðdraganda þeirra. Sumir þeirra telja sig geta gert sér mat úr því að Íslendingar stóðu frekar með Bandaríkjamönnum, Bretum og Dönum en Saddam, Rússum og Kínverjum. Öllum má þó vera ljóst að afstaða íslenskra stjórnvalda hafði ekkert að segja um afdrif málsins. Ágætt sýnishorn af málflutningi þessara manna gaf á líta á baksíðu Fréttablaðsins í síðustu viku. Þar skrifaði einn frambjóðandi Samfylkingarinnar til Alþingis með tilþrifum um Írak undir fyrirsögninni „Stríðið“. Honum var heitt í hamsi og mörg stóryrði notuð um helstu ógnvalda Íraks og stríð, móður allra stríða, sem þeir standa í. Það voru þó ekki vígamennirnir sem kynda undir trúarbragðadeilum í Írak um þessar mundir með því að sprengja upp sjúkrahús, markaði og moskur sem frambjóðandinn sendi umvandanir. Ekki heldur stjórnvöld í Sýrlandi og Íran sem útvega vígasveitunum vopn og vistir. Og hvorki Bush og Blair. Jafnvel Saddam Hussein sjálfur, einræðisherra Íraka í aldarfjórðung, kom hvergi við sögu í þessari grein.

Nei. Samkvæmt greiningu frambjóðandans á stríðinu í Írak eru það tveir fyrrverandi ráðherrar á Íslandi sem átökin snúast um.

Fleiri greinar um átökin í Írak hafa birst í blöðunum að undanförnu eftir Samfylkingarmenn þar sem ekki er minnst einu orði á Saddam Hussein. Það er bara eins og hann hafi aldrei verið til.