Í kastljósi Ríkissjónvarpsins ræddu saman í gær þær Heiðrún Lind Marteinsdóttir laganemi og Oddný Sturludóttir varaborgarfulltrúi. Í nýútkomnu vorhefti tímaritsins Þjóðmála skrifar Heiðrún Lind einmitt grein þar sem hún spyr hvort það sé í raun svo, sem sumir haldi, að konum sé í raun mismunað á vinnumarkaði. Í grein sinni fjallar Heiðrún meðal annars um launakannanir sem VR mun hafa gert og sumir telja sanna óréttmætan mun á launum karla og kvenna. Þar kemur fram, að hún fékk það meðal annars staðfest hjá félaginu að „huglægar breytur á borð við starfsreynslu og ábyrgð væru ekki teknar með í rannsókn VR“. Rannsakendur VR gætu þannig fundið þrautreyndan starfsmann með ábyrgð á fjölda starfsmanna og ef hann reynist hafa hærri laun en nýgræðingur með litla ábyrgð, þá væri þar að öðru jöfnu „kynbundinn launamunur“ ef þessir tveir starfsmenn væru ekki af sama kyni.
Þessu marki og öðrum eru þær rannsóknir brenndar sem stundum eru sagðar benda til þess að í raun sé í landinu útbreiddur munur á launum karla og kvenna, munur sem byggður sé á kynferði þeirra en ekki öðrum eiginleikum. Heiðrún Lind og Þjóðmál eiga hrós skilið fyrir að skoða með gagnrýnum augum hugmyndina um furðulegan „kynbundinn launamun“ fólks í landinu. Þjóðmál hafa áður lagt mikilsvert framlag til þeirrar umræðu með grein dr. Helga Tómassonar tölfræðings sem birtist í vetrarhefti tímaritsins árið 2005. Eins og lesendur þeirrar greinar og Vefþjóðviljans vita, þá var það ein meginniðurstaða Helga að engin rök réttlættu hinar margendurteknu fullyrðingar fólks um „kynbundinn launamun“. Eitt aðalsmerki Þjóðmála er einmitt að kynna og rökstyðja sjónarmið sem eiga misgreiða leið í gegnum hina hefðbundnu fjölmiðla. Þjóðmál eru hreinlega ómissandi fyrir alla frjálslynda áhugamenn um þjóðmál, og tilvalið fyrir þá að verða sér út um þau í bóksölu Andríkis, hvort sem er í áskrift eða einstök hefti.
Á síðasta kjörtímabili gegndu þrír menn embætti borgarstjóra í Reykjavík á vegum R-listans. Áfram heldur starfsmannaveltan greinilega, því nú, þegar ekki er liðinn fjórðungur af þessu kjörtímabili, hafa þegar setið tveir borgarstjórar í ráðhúsinu. Fyrstur tók við embætti síðastliðið sumar Vilhjálmur Þórmundur Vilhjálmsson og stóð sig með prýði. Í þessari viku urðu svo þau tíðindi að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins sendi frá sér tilkynningu þar sem stóð að „Borgarstjórinn okkar í Reykjavík, Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson, mælti í dag fyrir frumvarpi um rekstur, framkvæmdir og fjármál Reykjavíkurborgar árin 2008 til 2010.“
Eru það vissulega langþráð tímamót að Vilhjálmur Þór hefjist aftur til áhrifa á Íslandi en í stuttu spjalli við Vefþjóðviljann sagðist hann vilja taka fram, að þrátt fyrir hina nýju vegtyllu yrði hann áfram þessi gamli góði Tóti sem fólk þekkti.
F leira er í fréttum af frægðarfólki. Í fyrradag ræddi Morgunblaðið um virðingarröð innan konungsfjölskyldna Evrópu. Benti blaðið þar réttilega á það að „[í] Hollandi kemur Willem-Alexander fram fyrir hönd móður sinnar, Beatrix drottningar, en ekki eiginmaður hennar, Claus prins.“ Raunar er sú skipan mála ekki ný af nálinni í Hollandi þó henni hafi vissulega verið fylgt af jafnvel enn meiri stífni eftir að hinn merki prins, Claus Georg Wilhelm Otto Friedrich Gerd von Amsberg, lést árið 2002.
Prinsinn var, rétt eins og Vilhjálmur borgarstjóri, virtur og vinsæll meðal þegna drottningar, enda breyttist hann ekkert við upphefðina heldur var allt til loka þessi gamli góði Claus Georg Wilhelm Otto Friedrich Gerd sem menn þekktu.