Þriðjudagur 20. mars 2007

79. tbl. 11. árg.

Á síðasta starfsdegi Alþingis ákváðu vinstri grænir að minna kjósendur á að þingmenn þeirra eru alltaf á móti frjálsræði og alltaf fylgjandi einokun og höftum. Þeir vilja eðlilega ekki að menn gleymi því að Steingrímur J. Sigfússon var á móti því að leyfa bjór, móti því að aflétta einokun Ríkisútvarpsins, á móti frelsi í símaþjónustu, á móti EES samningnum, á móti einkavæðingu bankanna og á móti skattalækkunum til einstaklinga og fyrirtækja.

Til að minna menn á þessa eindregnu afstöðu hótaði Ögmundur Jónasson þingmaður VG því á fundi þingflokksformanna að kæmi frumvarp um afnám einokunar á sölu léttvíns og bjórs úr nefnd og til umræðu í þinginu myndu vinstri grænir ræða það afar vel og vandlega. Allir vita hvað það þýðir þegar þingmenn stjórnarandstöðunnar ætla að ræða málin með slíkum hætti. Það sýndu þeir í umræðum um Ríkisútvarpið fyrr í vetur. Og fimm manna þingflokki VG tókst, með þessari hótun Ögmundar um að þingið yrði fast í málþófi um þetta eina mál næstu vikurnar, að koma í veg fyrir að málið kæmist aftur inn í þingsal til eðlilegrar afgreiðslu. Hvernig myndu vinstri grænir fara með vald sitt kæmust þeir í meiri hluta þegar þeir misnota rétt sinn í stjórnarandstöðu með þessum hætti?

Að frumvarpinu stóðu þingmenn úr öllum flokkum nema VG. Það fór ekki á milli mála að tillit hafði verið tekið til ýmissa sjónarmiða til að ná svo víðtækum stuðningi við það. Til að mynda gerði frumvarpið aðeins ráð fyrir að sala vína undir 22% yrði gefin frjáls en ekki á svonefndum sterkum vínum. Þannig yrði heimilt að selja púrtvín sem menn drekka undantekningarlítið óþynnt með 20% styrkleika en ekki romm sem sjaldan er drukkið í slíkum styrk. Einnig yrði heimilt að selja forblandaða drykki eins og Bacardi Breezer en ekki Bacardi til að blanda í kók heima í stofu. En einkennilegheit af þessu tagi eru oft verðið sem menn þurfa að gjalda um hríð þegar menn fikra sig frá ríkiseinokun.

Nú er auðvitað engin leið að spá fyrir um hvernig verslun með léttvín og bjór myndi þróast væri einokun ÁTVR aflétt. En er ekki líklegt að það myndi styrkja verslanir sem átt hafa undir högg að sækja að geta bætt þessum vinsæla neysluvarningi við sig? Kaupmaðurinn á horninu og verslanir í litlum bæjum og þorpum myndu vafalaust fagna því að geta rennt þessari stoð undir reksturinn.