Laugardagur 17. mars 2007

76. tbl. 11. árg.

S tjórnarráðsnefnd Framsóknarflokksins skilaði skýrslu í gær þar sem kynntar eru ýmsar hugmyndir um breytingar á starfi ríkisstjórnar og stjórnarráðs. Tillögurnar byggjast á ályktun af flokksþingi Framsóknarflokksins árið 2005 og í þeirri ályktun segir meðal annars að Framsóknarflokkurinn vilji að ráðuneytum verði fækkað. Þetta er gagnlegt markmið, en því miður rataði það ekki inn í upptalningu þeirra tólf atriða sem dregin eru sérstaklega fram í skýrslunni og kölluð meginatriði.

Í meginatriðunum eru meira tæknilegar útfærslur, en svo er þar líka að finna bæði góðar og slæmar tillögur. Af slæmu tillögunum má nefna að framsóknarmenn leggja til að heimilt verði að skipa ráðherra án ráðuneytis, rétt eins og það sé sérstök nauðsyn á því að bæta við silkihúfum sem hafa ekkert annað að gera en belgja sig út á kostnað skattgreiðenda. Sérstaklega þegar til þess er litið að framsóknarmenn vilja að ráðherrar sitji ekki á þingi á meðan þeir gegna ráðherraembætti. Síðarnefnda tillagan er reyndar að öllum líkindum fram komin vegna þess að framsóknarmenn eru farnir að óttast að þeir fái ekki nema örfáa þingmenn og að þar með geti þeir ekki bæði tekið þátt í ríkisstjórn og þingstörfum nema geta kallað inn varamenn fyrir þingmennina sem verða ráðherrar, auk þess að bæta við ráðherrum sem hafa ekkert annað að gera en leika sér við ekki neitt.

Það var óvenjulega mikil alvara á bak við gamanið í Yes minister þáttunum.

Síðasta tillagan sem talin er til meginatriða gengur út á að stórefla pólitíska forysta í stjórnarráðinu gagnvart embættismannakerfinu. Þetta er athyglisverð og umhugsunarverð tillaga og á fullan rétt á sér. Framsóknarmenn þekkja það auðvitað manna best eftir langa – sumir eru svo ósvífnir að segja of langa – veru í stjórnarráðinu, að oft getur reynst erfitt að ná pólitískri stefnu fram vegna fyrirstöðu hjá embættismönnum.

Ráðherrar koma og fara og hafa almennt ekki með sér nema einn pólitískan meðreiðarsvein til að aðstoða þá við að ná málum fram. Ef embættismennirnir eru annarrar skoðunar en ráðherrann, sýnir reynslan að hann getur átt í mesta basli við að ná fram hugmyndum sínum. Ekki er óalgengt að niðurstaðan verði sú að hann sé aðallega í því að afgreiða hugmyndir embættismannanna – að vísu oft embættismanna í Brussel – en hafi lítil tök á að koma eigin málum áfram.

Stundum stafar þetta vitaskuld af því að ráðherrann hefur ekki margt fram að færa og ekki sérlega skýra pólitíska stefnu. Þá er auðvitað bara þægilegast fyrir hann að láta embættismennina sjá um stefnuna en sinna sjálfur fjölmiðlunum. En vissulega þarf ráðherra að geta náð fram þeim breytingum sem hann vill. Það er hann, og þingmeirihlutinn sem á bak við hann stendur, sem er kosinn til að taka ákvarðanir. Það gleymist hins vegar oft að það hefur enginn kosið embættismennina, sem stundum þykja svo fínir, flottir og faglegir að ekki má anda á þá.

Hugsunin á bak við þessa tillögu framsóknarmanna er bæði skiljanleg og skynsamleg og á fullan rétt á sér. Meðal annars af þeim sökum má búast við að hún mæti andstöðu bæði meðal embættismanna og fjölmiðlaspekúlanta af vinstri væng stjórnmálanna.