Vinstrigrænir heiðra Che Guevara með því að birta leiðtoga sinn í gervi hans. Þannig afla þeir fjár til byltingarinnar. |
Fyrir 9 árum skrifaði Vefþjóðviljinn svolítið um að Alþýðubandalagið væri að breytast. Til marks um það mætti nefna ungliðahreyfingu flokksins en um hana sagði Vefþjóðviljinn að meira að segja væru „ungliðarnir hættir að dýrka Che“. Svo gerðist hið furðulega ári síðar. Alþýðubandalagið var klofið í þeim tilgangi að sameina vinstri menn úr Alþýðubandalagi, Alþýðuflokki, Þjóðvaka og Kvennalista í Samfylkingunni. Kvennalistinn klofnaði einnig og skiptist eins og Alþýðubandalagið á milli Samfylkingarinnar og VG. Þegar þessi klofningur og stofnun tveggja nýrra vinstri flokka var um garð genginn sögðu leiðtogar Samfylkingarinnar að draumurinn um sameiningu vinstri manna hefði loks ræst. Það sem var svo kannski enn merkilegra er að í báðum nýju vinstri flokkunum voru leiddir til hásætis fyrrum forystumenn úr Alþýðubandalagi og Kvennalista. Alþýðuflokkurinn var einfaldlega lagður niður sem stjórnmálaafl enda mun engan fyrrum formann hans að finna á framboðslistum Samfylkingarinnar fyrir kosningarnar í vor. Síðasti formaður Alþýðuflokksins sem sat í ríkisstjórn hefur sömuleiðis sagt skilið við Samfylkinguna.
Og vinstri menn sitja uppi með tvö Alþýðubandalög.
Þótt ungliðarnir í gamla Alþýðubandalaginu hafi hætt að dýrka morðingjann Che Guevara við lok síðustu aldar og kannski áttað sig á aðdáun á Che er ekkert til að flíka er ekki þar með sagt að menn séu lausir við dýrkun á mannvonsku. Tískan fer í hringi. Fyrir síðustu alþingiskosningar létu vinstri grænir prenta myndir af formanni sínum, Steingrími J. Sigfússyni, í gervi Che Guevara á boli sem seldir voru til fjáröflunar. Einn frambjóðandi flokksins, Hlynur Hallsson, mætti meira að segja í kosningasjónvarp í umræddum nærbol og taldi hann að mestu nægja til að skýla sér. Eins og aðrir frambjóðendur flokksins fór hann svo með þuluna um áherslu vinstrigrænna á málefnin frekar en persónudýrkun.
En vinstrigrænir nota Che og Steingrím ekki aðeins á nærfötin sín. Á vef þeirra má sjá strax á forsíðu að þessir tveir eru líklegastir til að afla flokknum fjár til baráttunnar. Hvað yrði sagt um aðra flokka ef þeir dubbuðu formann sinn upp í gervi einhvers morðingja og bæðu menn að „styrkja flokkinn“ út á það?