Fimmtudagur 15. mars 2007

74. tbl. 11. árg.

Þ

Steingrímur J. var búinn að þvo af sér mesta byltingarbraginn þegar hann birtist í viðtækjum landsmanna í gærkvöldi.

að var annar bragur á honum í gær en oft áður. Blaðlausi byltingarmaðurinn var fjarri í útvarpsumræðum Alþingis í gær, en í staðinn var kominn yfirvofandi forsætisráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, og las fyrir Íslendinga brot úr ljóði eftir Jónas Hallgrímsson, „hvers tvöhundruð ára ártíð er á þessu ári“, eins og hann útskýrði sjálfur. Það var þannig strax í upphafi þessa fyrsta forsætisráðherraávarps Steingríms til þjóðarinnar sem hún fékk nýjar og sér áður ókunnar upplýsingar um stöðu mála, því eins og flestir munu vita eru um þrjátíuogátta ár í þessa ártíð listaskáldsins.

Nú eru þessi orð Steingríms J. Sigfússonar, danska orðlagið og svo misskilningur hans á ártíð, auðvitað algert aukaatriði – og í öllum hinum þingflokkunum eru menn sem má treysta til að fara eins að ráði sínu. Það er því engin ástæða til að halda þessu gegn honum og hefði sjálfsagt ekki verið nefnt hér ef ekki kæmi það til að margir eru farnir að tala um það hástöfum að ofaná aðra kosti sína sé Steingrímur svo mikill íslenskumaður.

En menn hafa nú líka kallað hann femínista og umhverfisverndarsinna á síðustu árum.

Í ræðu sinni gerði Steingrímur meira en að fara með fallegar línur úr Hulduljóðum. Hann gerði því skóna að ef Jónas væri uppi í dag þá væri skáldið og náttúrufræðingurinn á bandi vinstrigrænna í umhverfisbaráttu þeirra. Nú má það auðvitað vel vera réttmætt hjá Steingrími að taka Jónas herskildi með þessum hætti. Jónas var mikill unnandi íslenskrar náttúru, og þá ekki síður hins smáa en hins stóra, og orti um blóm, fugla og fjöll. Þegar hann var ekki að yrkja og skoða náttúruna sat hann hins vegar og skrifaði í Fjölni gegn „framkvæmdarleysi þjóðarinnar sem lætur alla verslunina vera í annarra höndum og sömuleiðis fiskiaflann og hvalveiðarnar, þó það hvurki sé stjórninni að kenna né þurfi svo að vera vegna þess hvað landið er fátækt.“ Að sínu leyti ætlar Vefþjóðviljinn því að láta ófullyrt hvaða nýting náttúrunnar Jónasi heitnum Hallgrímssyni hefði þótt réttlætanleg til að bæta hag landsmanna eða hvenær hann hefði tekið afstöðu með framkvæmdarleysinu, að minnsta kosti svo lengi sem skáldið sjálft er ekki til svars.

Annars er gaman að lesa Jónas. Í einu af sínum fallegu kvæðum lýsir hann hrikalegum umbreytingum, sem ekki koma nútímamönnum með öllu ókunnuglega fyrir sjónir:

Vötnin öll, er áður féllu
undan hárri fjallaþröng,
skelfast, dimmri hulin hellu,
hrekjast fram um undirgöng;
öll þau hverfa að einu lóni,
elda þar sem flóði sleit.
Djúpið mæta, mest á Fróni,
myndast á í breiðri sveit.

Þarna hafði mikið gengið á. Runnar og rjóður hurfu, blómin bliknuðu og drúptu höfði. Það hefur vafalaust farið um náttúruunnandann Jónas þegar hann lýsti slíkum atburðum. En niðurstaðan varð samt falleg.

Hver vann hér svo að með orku?
Aldrei neinn svo vígi hlóð!
Búinn er úr bálastorku
bergkastali frjálsri þjóð.
Drottins hönd þeim vörnum veldur;
vittu, barn! sú hönd er sterk;
gat ei nema guð og eldur
gjört svo dýrðlegt furðuverk.

Svona má finna margt í Jónasi og túlka og mistúlka eins og ósvífni hvers og eins hrekkur til. Og hafði hann ekki séð það fyrir?

Þeir búast við að blekkja mig
og breiða’ ofan á náinn,
þeir sem ekki þekkja mig
þegar ég er dáinn.